Styrkur, kjarkur og árangur

Þorsteinn Pálsson

Við erum að bjarga heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngukerfinu frá langvinnri vanrækslu og ásælni peningaaflanna í landinu.“

Þetta voru orð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á Alþingi við umræður um fyrstu stefnuræðu ríkisstjórnarinnar í desember 2017. Og hún bætti við: „Við höfum það sem til þarf. Við höfum þann styrk og þann kjark.“

Víkur sér undan ábyrgð

Um síðustu helgi kom heilbrigðisráðherra fram í sjónvarpi til þess að svara fyrir fjárhagsstöðu hjúkrunarheimila í landinu. Hún vísaði á fjármálaráðuneytið. Það sama gerði forstjóri Sjúkratrygginga nokkrum dögum fyrr.

Vel er skiljanlegt að heilbrigðisráðherra vilji koma ábyrgðinni yfir á fjármálaráðherra eftir að Sjálfstæðisflokkurinn gat ekki tryggt meirihluta með síðasta sóttvarnarfrumvarpi.

En skiljanleg togstreita milli samstarfsflokka í ríkisstjórn réttlætir þó ekki að ráðherra víki sér undan ábyrgð.

Ekki reynt að semja

Vandi hjúkrunarheimilanna er búinn að vera kunnur lengi. Það er ekki aðeins að stjórnvöld hafi fyrir mörgum árum vitað að dæmið gengi ekki upp. Öllum almenningi hefur verið það ljóst í mörg ár.

Vandinn var þekktur við myndun núverandi ríkisstjórnar. VG samdi þá við Sjálfstæðisflokkinn án þess að nefna lausn á nafn. Hún komst því ekki inn í fyrstu fjárlögin og ekki inn í fyrstu fimm ára ríkisfjármálaáætlunina.

VG samdi svo aftur við Sjálfstæðisflokkinn um fjárlög árið 2018 án þess að fara fram á að samið yrði um lausn á vanda hjúkrunarheimilanna. Þessi háttur var endurtekinn árið 2019 og aftur árið 2020.

VG samdi svo við Sjálfstæðisflokkinn fyrir nokkrum vikum um fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár. Heilbrigðisráðherra reyndi ekki heldur að fá samstarfsflokkinn til þess að taka á málinu þá.

Fjármálaáætlunin sendir því þau skýru skilaboð að það er sameiginleg stefna stjórnarflokkanna að halda hjúkrunarheimilunum í spennitreyju allt næsta kjörtímabil.

Gildismat

Gildismat heilbrigðisráðherra kemur fram í því að hún styður samninga um rekstraröryggi búvöruframleiðslu með verðtryggðum samningum til tíu ára, en þegar kemur að umönnun aldraðra koma óverðtryggðir skammtímasamningar bara til greina.

Annað dæmi um gildismat: Alþingi samþykkti lög um rétt fólks til sálfræðiþjónustu. Heilbrigðisráðherra hefur bara tryggt tíunda hluta kostnaðarins á fjárlögum.

Frumkvæðið að lagasetningunni kom frá Viðreisn. Einhverra hluta vegna hefur kjarkurinn og styrkurinn ekki nýst í þessu stóra framfaramáli.

Losunarstefnan

Heilbrigðisráðherra hefur ekki borið fyrir sig að hafa sofið af sér alla samninga milli VG og Sjálfstæðisflokksins í fjögur ár. Aukheldur væri það ekki trúverðug skýring. En þá þarf að skýra út hvað varð um styrkinn og kjarkinn.

Í stefnuræðunni frá 2017 lofaði ráðherra aðeins að nota styrkinn og kjarkinn til að losa kerfið frá „vanrækslu og ásælni peningaaflanna.“ Losunarstefnunni hefur hún fylgt fast eftir með því að þrengja að þeim, sem haft hafa samninga við ríkið um rekstur heilbrigðisþjónustu, sveitarfélög jafnt sem velferðarfélög.

Aðferðin hefur verið sú að beita, og í sumum tilvikum að misbeita, opinberu valdi í samningum við þessa aðila. Að svelta menn til undirgefni er þekkt lag.

Læknum Landspítalans var til að mynda hótað því í frægri ræðu ráðherra í læknaráði fyrir rúmu ári að áhugi á að sinna fjármálum spítalans kynni að minnka ef fréttir um óleyst vandamál hans héldu áfram að birtast.

Bræðrabylta eða stöðugleiki

Ráðherra hefur ekki tekist að þagga niður umræðuna um afleiðingar losunarstefnunnar í hjúkrun aldraðra. Að auki gekk tímasetningin ekki alveg upp. Augljóslega hefði verið óklókt að ríkisstofnun tæki á sig ábyrgðina á niðurskurði rétt fyrir kosningar. Á Akureyri var starfsemin færð til einkaaðila, sem er fús að sjá um hagræðinguna.

Sjálfstæðisflokkurinn getur aftur á móti bent á þetta sem fyrsta áfangasigur í baráttunni um báknið burt. Nái heilbrigðisráðherra svo að færa starfsemina undir ríkið eftir kosningar og eftir hagræðingu, sem kenna má einkaaðilum, sveitarfélögum og velferðarfélögum um, getur Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega sagt að báknið sé ódýrara en áður.

Þetta heitir pólitísk bræðrabylta. En forsætisráðherra getur bent á þetta sem dæmi um pólitískan stöðugleika.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. apríl 2021