Hugsum eins og ALDI

Eitt af því sem Co­vid-19 hefur leitt af sér er að líf okkar hefur ein­faldast að vissu leyti. Fjar­kennsla, fjar­vinna og streymis­við­burðir hafa fækkað ferðum og skuld­bindingum. Á sama tíma hefur verslun með raf­tæki, úti­vistar­vörur, hús­gögn og aðra hluti til heimilisins aukist veru­lega. Sorpa hefur fyllst af gömlu dóti og skipti/nytja­markaðir eru virkari en nokkru sinni fyrr. Í LA Times var ný­lega sagt frá því að meðal­heimili í BNA er með um 300 þúsund hluti, frá bíl niður í pappírs­klemmu. Að­eins um 300 hlutanna eru notaðir reglu­lega.

Flestir bíl­skúrar eru notaðir sem dóta­geymsla og heimilis­geymslur eru fullar. Kannast þú við þetta, á­gæti lesandi? Ekki gleyma því að allt þetta dót sem við erum ekki að nota kostar peninga og peningar eru í raun sá vinnu­tími sem fór í að afla þeirra. Tími er ekki bara peningar… peningar eru tími! ALDI-verslana­keðjan er með að­eins 1.400 vöru­númer í dæmi­gerðri verslun. Með því að halda vöru­tegundum í lág­marki hefur ALDI tekist að lækka vöru­verð.

Ef ný vöru­tegund er tekin inn í búðina, þarf að hætta með aðra vöru­tegund. Þannig eru vöru­tegundirnar alltaf 1.400. Næst þegar þú kaupir þér dót, hugsaðu eins og ALDI: losaðu þig við einn hlut í staðinn með því að gefa hann til Góða hirðisins eða Nytja­markaðarins. Við getum ein­faldað líf okkar með því að kaupa minna af dóti sem við notum ekki. Við getum líka prófað að nota nyt­sömu hlutina lengur eða fá þá lánaða eða leigða í stað þess að kaupa þá. Þannig minnkum við kol­efnis­spor á íbúa með því að eiga minna af ó­þarfa dóti!

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. maí 2021