Þorgerður Katrín og Sigmar Guðmundsson í efstu sætum Viðreisnar í Kraganum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar leiðir framboðslista flokksins í Suðvesturkjördæmi (Kraganum) fyrir komandi þingkosningar sem fara fram þann 25. september næstkomandi.

Sigmar Guðmundsson fjölmiðlamaður er í 2. sæti listans og Elín Anna Gísladóttir verkfræðingur skipar 3. sætið.

Thomas Möller, verkfræðingur og ráðgjafi er í 4. sæti listans og Ástrós Rut Sigurðardóttir þjónustufulltrúi skipar 5. sæti. Þá er Rafn Helgason, umhverfis- og auðlindafræðingur í 6. sæti listans.

„Ég er gríðarlega stolt af þessum öfluga lista hjá okkur hér í Kraganum og er afar spennt fyrir næstu mánuðum í kosningabáráttu með þessum fjölbreytta og skemmtilega hópi. Komandi kosningar munu snúast um það hvernig samfélag við viljum byggja hér til framtíðar og það hvort almannahagsmunir ráði þar för eða sérhagsmunir. Áherslur okkar í Viðreisn eru alveg skýrar. Við setjum almannahagsmuni framar sérhagsmunum með frjálslyndi og jafnrétti að leiðarljósi í baráttunni fyrir réttlátu samfélagi,“ segir Þorgerður Katrín.

Sigmar Guðmundsson er þekktur fyrir störf sín í fjölmiðlum undanfarin þrjátíu ár en stígur nú inn á hið pólitíska svið í fyrsta sinn.

„Ég hef unnið í fjölmiðlum í nærri 30 ár og fjallað mikið um pólitík í mínum störfum. Það er því mjög spennandi fyrir mig að söðla um og vera virkur þáttakandi í stjórnmálum þótt það verði vissulega erfitt að kveðja minn gamla vinnustað sem hefur gefið mér svo mikið. Mínar skoðanir fara vel saman við stefnu Viðreisnar, þar sem frjálslyndi er lykilhugtak, auk þess sem ég hef mikið álit á fólkinu sem hefur borið uppi starfið þar. Flokkurinn vill stokka upp gömul kerfi og setja almannahagsmuni framar sérhagsmunum og ég hlakka til að leggja mín lóð á vogaskálarnar í þeirri baráttu,“ segir Sigmar.

Framboðslisti Viðreisnar í Suðvesturkördæmi:

1. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Hafnarfjörður
2. Sigmar Guðmundsson fjölmiðlamaður. Garðabær
3. Elín Anna Gísladóttir verkfræðingur. Mosfellsbær
4. Thomas Möller, verkfræðingur og ráðgjafi. Garðabær
5. Ástrós Rut Sigurðardóttir þjónustufulltrúi. Hafnarfjörður
6. Rafn Helgason, umhverfis- og auðlindafræðingur. Garðabær
7. Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir lögmaður. Kópavogur
8. Jón Ingi Hákonarson bæjarfulltrúi. Hafnarfjörður
9. Sigrún Jónsdóttir flugfreyja. Hafnarfjörður
10. Guðlaugur Kristmundsson þjálfari. Garðabær
11. Kristín Pétursdóttir, sjálfstætt starfandi ráðgjafi. Hafnarfjörður
12. Ívar Lilliendahl læknir. Mosfellsbær
13. Kristjana Þorbjörg Jónsdóttir sölufulltrúi. Hafnarfjörður
14. Hermundur Sigurðsson raffræðingur. Hafnarfjörður
15. Soumia I Georgsdóttir framkvæmdastjóri. Kópavogur
16. Þórólfur Heiðar Þorsteinsson lögmaður. Kópavogur
17. Sigríður Sía Þórðardóttir forstöðumaður. Kópavogur
18. Jón Gunnarsson háskólanemi. Garðabær
19. Auðbjörg Ólafsdóttir, yfirmaður samskipta. Hafnarfjörður
20. Páll Árni Jónsson stjórnarformaður. Seltjarnarnes
21. Karólína Helga Símonardóttir, framhaldsskólakennari. Hafnarfjörður
22. Magnús Ingibergsson húsasmíðameistari. Mosfellsbær
23. Þórey S Þórisdóttir doktorsnemi. Hafnarfjörður
24. Eyþór Eðvarðsson ráðgjafi. Álftanes
25. Theodóra S Þorsteinsdóttir, fyrrverandi alþingismaður. Kópavogur
26. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra. Reykjavík