Frelsi fyrir atvinnulíf eða kerfi?

Eðli­lega finnst mörg­um að kosn­ing­ar snú­ist helst um lof­orðal­ista. Hitt er þó nær sanni að mik­il­væg­ustu ákv­arðan­irn­ar snú­ast um val á milli ólíkra leiða eða mis­mun­andi kosta.

Stöðugur gjald­miðill

Flókn­ustu ágrein­ings­mál­in koma upp þegar flokk­ar benda á mis­mun­andi leiðir til þess að ná sam­eig­in­leg­um mark­miðum. Þær eru oft flókn­ar því áhrif þeirra geta verið ólík.

Veiga­mestu verk­efn­in á sviði efna­hags­mála snú­ast ann­ars veg­ar um hvernig á að koma jafn­vægi á rík­is­fjár­mál­in og hins veg­ar hvernig búa á til þær sam­keppn­is­for­send­ur að ný­sköp­un og hug­verkaiðnaður verði upp­spretta meiri hag­vaxt­ar.

Þessi viðfangs­efni tengj­ast. Eina leiðin til að ná jafn­vægi í rík­is­fjár­mál­um er mun meiri hag­vöxt­ur en var fyr­ir Covid-krepp­una. Stöðugur gjald­miðill er svo for­senda þess að ný­sköp­un og þekk­ing­ariðnaður þjóni því hlut­verki.

Ef við trú­um því að ný­sköp­un og hug­verkaiðnaður séu mik­il­væg­ir þætt­ir í end­ur­reisn efna­hags­lífs­ins og verði kjöl­festa til lengri tíma þarf að ýta burt hindr­un­um.

Í ný­legu viðtali við Stef­an­íu Guðrúnu Hall­dórs­dótt­ur fram­kvæmda­stjóra hjá Eyri Vent­ure Mana­gement og Hjálm­ar Gísla­son stofn­anda og fram­kvæmda­stjóra Grid er bent á þær hindr­an­ir sem koma í veg fyr­ir aukna er­lenda fjár­fest­ingu í ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um. Of mikl­ar sveifl­ur séu á gengi krón­unn­ar og sá ófyr­ir­sjá­an­leiki sé erfiður þegar kem­ur að fjár­fest­ing­um. Kerfið eins og það er nú hindri vöxt.

Rík­is­stjórn­in ætl­ar að ríg­halda í krón­una og bæta í hindr­an­ir með gjald­eyr­is­höft­um. Að fórna frjálsu flæði fjár­magns styrk­ir ekki stöðu ný­sköp­un­ar í land­inu.

Sam­starf inn­an EES

Lang­tíma­stefna okk­ar í Viðreisn er upp­taka evru. Það tek­ur hins veg­ar tíma, sex til tíu ár, og eft­ir Covid-krepp­una erum við ein­fald­lega kom­in í of mikla tímaþröng. Ný­samþykkt fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar fel­ur í sér skuld­sett­an rík­is­sjóð og tug­millj­arða niður­skurð eða skatta­hækk­an­ir. Í stað þess að verja vel­ferðina og vinna að halla­laus­um sjálf­bær­um rík­is­sjóði vel­ur rík­is­stjórn­in að halda uppi krón­unni, sem kost­ar sam­fé­lagið meira en 100 millj­arða ár­lega.

Því höf­um við lagt til að leita eft­ir stöðug­leika­sam­starfi inn­an ramma samn­ings­ins um Evr­ópska efna­hags­svæðið og tengja krón­una við evru líkt og Dan­ir hafa gert.

Sér­fræðing­ar eins og Guðmund­ur Magnús­son fyrr­ver­andi há­skóla­rektor og Stefán Már Stef­áns­son fyrr­ver­andi laga­pró­fess­or hafa sýnt fram á að slík leið á að vera opin. Það sama hef­ur Björn Bjarna­son fyrr­ver­andi ráðherra gert.

Þessi mik­il­væga efna­hags­ráðstöf­un sem við stönd­um frammi fyr­ir kall­ar því ekki á að loka­skrefið til fullr­ar aðild­ar að Evr­ópu­sam­band­inu verði stigið strax. Við erum að tala um aukið sam­starf á grund­velli nú­ver­andi samn­ings um aðild okk­ar að innri markaði banda­lags­ins.

Hafta­leiðin

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er sam­mála okk­ur í Viðreisn um að stöðugur gjald­miðill sé for­senda þess að ná tök­um á halla rík­is­sjóðs og örva hag­vöxt. Aðrir flokk­ar hafa lítið fjallað um þetta stóra mál enn sem komið er.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur aft­ur á móti kosið að fara aðra leið að þessu marki. Hann hef­ur fall­ist á þá kenn­ingu inn­lendra og er­lendra hag­fræðinga að óger­legt sé að tryggja stöðug­leika svo lít­ils gjald­miðils nema styðja hann með höft­um.

Til að ná þessu mark­miði hef­ur rík­is­stjórn­in lagt fram frum­varp sem fær­ir Seðlabank­an­um ótak­markað vald til þess að setja á eins víðtæk fjár­magns­höft og þurfa þykir hverju sinni.

Þetta er stærsta aðgerð sem sést hef­ur síðari ár til þess að flytja völd frá markaðnum til emb­ætt­is­manna eða kerf­is­ins.

Miðflokksáhrif­in

En af hverju fórn­ar Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn viðskiptafrelsi fyr­ir haftakrónu?

Inn­an at­vinnu­lífs­ins eru stjórn­end­ur sem skilja vel hvaða af­leiðing­ar það hef­ur ef hér eru meiri heim­ild­ir til fjár­magns­hafta en í sam­keppn­islönd­un­um. Minni sam­keppn­is­hæfni ís­lensks at­vinnu­lífs er ekki það sem við þurf­um. Inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins er frjáls­lynt fólk sem er sama sinn­is.

Vand­inn er að íhald­selementið í flokkn­um er sterk­ara en það frjáls­lynda um þess­ar mund­ir. Það sýna próf­kjör flokks­ins og ekk­ert bend­ir til að niðurstaðan í Reykja­vík breyti því. Íhalds­arm­ur­inn skín til að toga í at­kvæði frá Miðflokkn­um.

Kredd­an gegn Evr­ópu­sam­starf­inu er svo mik­il að ekki er einu sinni hægt að auka það inn­an nú­ver­andi ramma. Frek­ar skal beita höft­um og sam­bæri­legu viðskiptafrelsi og sam­keppn­islönd­in njóta er fórnað. Á meðan hækka vext­ir hér á landi.

Frjáls­lyndi eða íhald?

Við í Viðreisn telj­um mik­il­vægt að tryggja frelsi viðskipta- og at­vinnu­lífs. Alþjóðlegt gjald­miðlasam­starf ger­ir það og er lík­legra til að hjálpa okk­ur að ná mark­miðum um hag­vöxt og stöðug­leika í rík­is­fjár­mál­um. Þá treyst­ir það und­ir­stöður ný­sköp­un­ar og hug­verkaiðnaðar á meðan emb­ætt­is­menn hér heima munu hafa minna frelsi til að stjórna krón­unni með höft­um og öðrum hindr­un­um.

Þetta er póli­tískt val. Reynd­ar eitt stærsta valið sem kjós­end­ur þurfa að gera upp við sig. Þess vegna er umræðan mik­il­væg. Lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki eiga mikið und­ir í þessu efni. Svo ekki sé minnst á heim­il­in í land­inu.

Valið stend­ur um frjáls­lyndi eða íhald.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. júní 2021