Landsliðseinvaldur

Þorsteinn Pálsson

Ólafur Harðar­son prófessor í stjórn­mála­fræði sagði eftir um­ræður leið­toga stjórn­mála­flokka í Silfrinu í byrjun vikunnar að Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra réði því hvernig ríkis­stjórn yrði mynduð að kosningum loknum.

Þetta var eðli­lega sagt með fyrir­vara um úr­slit kosninga. En margt bendir til þess að prófessorinn hafi þarna hitt naglann á höfuðið eins og sakir standa.

Kosningarnar geta vita­skuld breytt þessari mynd.

Nýtt flokka­kerfi

Segja má að þessi nýja staða á tafl­borði stjórn­málanna marki enda­lok flokka­kerfis tuttugustu aldar.

Fram­sókn hafði á­líka lykil­stöðu lengst af á síðustu öld. Al­þýðu­flokkurinn og Sjálf­stæðis­flokkurinn gátu þó við réttar að­stæður losað sig úr þeirri pólitísku bónda­beygju.

Að þessu leyti er staða VG senni­lega sterkari nú en Fram­sóknar á sínum tíma. Or­sakirnar eru marg­vís­legar og eiga rætur í innri og ytri að­stæðum.

Á­stæðurnar

Helsta á­stæðan er sú að VG hefur smám saman þróast úr rót­tækum flokki yfir í praktískan valda­flokk. Hann er ekki bein­línis á miðjunni en verður þar að meðal­tali með því að vinna ýmist til hægri eða vinstri.

For­ysta Sjálf­stæðis­flokksins bjó til aðra helstu á­stæðuna með þeirri stað­hæfingu að pólitískur stöðug­leiki væri ó­mögu­leiki án VG. Þetta er enn þunga­miðjan í mál­flutningi hennar fyrir komandi kosningar.

Í þriðja lagi hefur Sam­fylkingin styrkt þessa stöðu VG með því að úti­loka sam­starf við Sjálf­stæðis­flokkinn.

Loks eiga per­sónu­legar vin­sældir Katrínar Jakobs­dóttur hlut að máli. Einar og sér hefðu þær þó ekki dugað til að koma flokknum í þessa ein­stöku stöðu.

Í um­ræðum leið­toganna kom fram að efna­hags­málin og auð­linda­málin verða fyrir­ferðar­mikil í komandi kosningum. Fróð­legt er að skoða þau í ljósi þeirrar kenningar að for­maður VG verði eins konar lands­liðsein­valdur við val í næstu stjórn.

Efna­hags­málin

Stöðug­leiki krónunnar er stærsta við­fangs­efnið á sviði efna­hags­mála. Um mark­miðið er ekki á­greiningur. En tekist er á um tvær leiðir.

Sjálf­stæðis­flokkurinn hefur fallist á þá al­mennt viður­kenndu hag­fræði­kenningu að gjald­eyris­höft séu nauð­syn­leg til að styðja við krónuna. Frum­varp um það efni liggur nú fyrir Al­þingi.

Við­reisn vill halda krónunni en í stað hafta leita eftir stöðug­leika­sam­starfi við Evrópu­sam­bandið líkt og Danir gera. Þings­á­lyktun um það efni liggur líka fyrir.

Sjálf­stæðis­flokkurinn er á móti öllu frekara sam­starfi við Evrópu, mest af ótta við að missa at­kvæði til Mið­flokksins. Hann vill fremur fórna við­skipta­frelsinu. For­ysta VG getur lifað með því, þó að í bak­landi VG séu frjáls­lyndari við­horf til Evrópu­sam­starfs.

Líkurnar á að við­halda megi sams konar við­skipta­frelsi í gjald­eyris­málum og grann­löndin njóta eru því heldur meiri ef VG kýs að hætta sam­starfinu við Sjálf­stæðis­flokkinn. Það er ein birtingar­mynd nýs flokka­kerfis.

Auð­linda­málin

Í auð­linda­málum snýst á­greiningurinn um það hvort einka­réttur til nýtingar á auð­lindum í þjóðar­eign eigi að vera tíma­bundinn.

Sjálf­stæðis­flokkurinn og Mið­flokkurinn vilja að einka­rétturinn verði á­fram ó­tíma­bundinn í sjávar­út­vegi en tíma­bundinn varðandi allar aðrar auð­lindir.

VG og Fram­sókn fylgja þeirri af­stöðu, þvert á stefnu sína, til að rugga ekki stjórnar­sam­starfinu og halda opnum mögu­leika á fram­haldi þess.

Af­sökunar­beiðni Sam­herja um helgina þjónaði aðal­lega þeim til­gangi að auð­velda Sjálf­stæðis­flokknum að halda sam­starfs­flokkunum í þessari klemmu.

Kjósi VG að hefja sam­starf við ein­hverja af stjórnar­and­stöðu­flokkunum, að Mið­flokknum frá­skildum, þarf hreyfingin að taka upp fyrri stefnu um tíma­bundinn einka­rétt, því að það er senni­lega stærsta prinsipp­mál kosninganna.

Þver­stæðan

Í þessum tveimur stóru málum birtist mál­efna­leg þver­stæða miðað við fyrri tíma. Í báðum til­vikum eru frjáls­lynd við­horf lík­legri til þess að verða ofan á ef VG kýs að vinna með öðrum en Sjálf­stæðis­flokknum.

Sam­tök at­vinnu­lífsins veita Sjálf­stæðis­flokknum skjól til að velja höft fremur en sam­starf innan EES-samningsins um við­skipta­frelsi og stöðugan gjald­miðil. Eigi að síður hlýtur það að vera afar erfið pólitísk á­kvörðun.

Stærstu út­vegs­fyrir­tækin njóta einnig stuðnings Sam­taka at­vinnu­lífsins til að verja ó­tíma­bundinn einka­rétt á nýtingu fisk­veiði­auð­lindarinnar þvert á megin­regluna, sem gildir um aðrar auð­lindir. Það er líka mikið á­hættu­mál fyrir pólitíkina.

Að öllu virtu er auð­linda­málið lík­legast til þess að veikja stöðu lands­liðsein­valdsins á kjör­dag.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. júní 2021