Tækifærin sem aldrei verða til

Benedikt Jóhannesson

Fullveldi er að vera þjóð meðal þjóða. Í upphafi ríkisstjórnarsamstarfsins var einangrunarhyggja samt ráðandi. Fyrir þremur árum mættu tveir svarnir andstæðingar NATO á leiðtogafund bandalagsins: Katrín Jakobsdóttir og Donald Trump.

Í liðinni viku funduðu leiðtogarnir aftur og nú mættu þangað einungis stuðningsmenn þessa friðar- og afvopnunarbandalags. Að sögn Katrínar var „mjög mikið rætt um mikilvægi þess að standa vörð um lýðræði og mannréttindi“, en þetta er einmitt tilgangur bandalagsins. Einhverjir telja forsætisráðherra til hnjóðs að átta sig á þessu. Það er þvert á móti þroskamerki að skipta um skoðun og viðurkenna staðreyndir.

Forsætisráðherra skilur nú líka hve mikilvægt það er að Ísland taki virkari þátt í Evrópusamstarfinu. Bóluefnasamflot Evrópu hefur verið þjóðinni mjög farsælt og undirstrikar hag Íslendinga af nánu samfloti við þessar vinaþjóðir. Katrín skaut við heimkomuna lítt dulbúnu skoti á utanríkisráðherra og sagði að nauðsynlegt væri „að halda vöku sinni og standa stöðugan vörð um hagsmuni Íslands.“

Skensið er sannarlega að gefnu tilefni, því samkvæmt tvennum hagsmunasamtökum voru bæði hagsmunir neytenda og framleiðenda fyrir borð bornir í nýlegum fríverslunarsamningi við Breta. Félag atvinnurekenda sagði: „Bresk stjórnvöld höfðu áhuga á að auka talsvert fríverslun með búvörur. Þau buðu umtalsverða aukningu á tollfrjálsum innflutningskvóta fyrir undanrennuduft sem hefði átt að vera augljóst hagsmunamál íslenskra mjólkurbænda og -framleiðenda, enda hefði kvótinn nýst nýrri skyrverksmiðju Íseyjar skyr í Wales. Bretar fóru á móti fram á aukna tollkvóta fyrir osta og kjötvörur, miklu minni að umfangi en þeir tollkvótar sem Íslandi stóðu til boða í Bretlandi. Vegna harðrar andstöðu hagsmunaaðila í landbúnaði við aukinn tollfrjálsan innflutning var þessu tækifæri fórnað.“

Formaður Bændasamtakanna staðfestir að „á fundi sem við áttum með fulltrúum ráðuneytisins heyrðum við aðrar og hærri tölur um leyfilegan innflutning.“ Hörð andstaða bændaforystunnar leiddi til þess að hagsmunum neytenda var fórnað.

Svipað metnaðarleysi réði um aðgang sjávarafurða að breskum markaði.  Þar eru háir tollar á einstaka sjávarafurðir, líkt og lax, karfa og ýmsa flatfiska, sem hamla því verulega að vinnsla þeirra sé möguleg hér á landi.

Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sagði: „Í þeim fríverslunarsamningi sem var undirritaður var þetta, einhverra hluta vegna, ekki sótt. Tækifærin voru ekki gripin. Verðmæti, sem hægt hefði verið að sækja með bættum tollakjörum, verða ekki til.“

Ort var um fræ sem aldrei verða blóm. Ríkisstjórnin sáir engum fræjum og uppsker engin blóm.

Fullvalda þjóð býr til tækifæri og grípur þau óttalaus.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. júní 2021