Stór mál sem bíða

Stefið hefur verið að við séum öll saman í þessu. Það sama á því miður við um efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldurs; sem eru yfir þúsund milljarða króna ríkisskuldir. Svigrúm til leysa skuldastöðu ríkissjóðs er hins vegar minna hér á landi vegna verðbólgu, hærri vaxta og gengisáhættu. Það gildir um ríkissjóð eins og um heimilin í landinu að vextir af lánum hafa mikla þýðingu um hina raunverulega stöðu. Eftir hrun skuldaði ríkissjóður Íslands til dæmis hlutfallslega helmingi minna en ríkissjóður Grikklands. Vaxtagreiðslur íslenska ríkisins voru hins vegar tvöfalt hærri en gríska ríkisins.

Verkefni ársins 2021 í efnahagsmálunum er það sama og 2020, þ.e. að veita fólki og fyrirtækjum svigrúm til að komast standandi frá efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldurs. Um leið þarf að leggja grunn að næsta kafla í sögu þjóðarinnar. Við sjáum hins vegar aftur mynd sem við þekkjum, vextir á húsnæðislánum fara hækkandi og ástæða er til að hafa áhyggjur af verðbólgu. Efnahagsmál snúast kannski fyrst og fremst um hið daglega líf fólks, að fólk geti gengið að atvinnu og að kostnaður við að búa sér og reka heimili sé fyrirsjáanlegur og viðráðanlegur. Hvað fyrirtækin í landinu varðar hefur grundvallarþýðingu að geta gert áætlanir og að vissa sé um helstu útgjaldaliði. Til að svo geti orðið þarf stöðugan gjaldmiðil. Viðreisn hefur í því sambandi lagt til að fara sömu leið og Danir, þ.e. að halda krónunni en tengja hana við evru. Það myndi tryggja atvinnulífi og almenningi fyrirsjáanleika sem mjög hefur vantað. Þögn annarra stjórnmálaflokka hvað varðar gjaldmiðilinn er í reynd afstaða um að festa fólk í kyrrstöðu.

Efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldurs er gríðarlegar. Lykilspurning stjórnmálanna er þess vegna hvernig auka á verðmætasköpun og um leið hver framtíðarsýnin er fyrir íslenskt samfélag. Framtíðarsýnin og leiðarljósið á að vera að íslenskt samfélag bjóði fólki gott líf á Íslandi, samkeppnishæf lífskjör.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. júlí 2021