Viðreisn atvinnulífsins

Eitt mikilvægasta mál kosninganna í haust er bætt rekstrarumhverfi atvinnulífsins á Íslandi. Blómstrandi atvinnulíf sem skapar áhugaverð og vel launuð störf er grundvöllur velferðar og lífskjara í landinu okkar. Það þarf nýjar áherslur ef við ætlum að laga lífskjörin í landinu og tryggja öflugan viðsnúning eftir Covid. Íslenskt atvinnulíf býr við miklar samkeppnishindranir sem þarf að ryðja úr vegi ef það á að standast harða samkeppni við erlend fyrirtæki sem búa við mun betri aðstæður á mörgum sviðum. Það þarf kjark og þor til að gera nauðsynlegar breytingar, stöðnun og kyrrstaða eru ekki valkostir fyrir íslenskt atvinnulíf. Kosningarnar í haust snúast því meðal annars um viðreisn íslensks atvinnulífs. Til að atvinnulífið blómstri þarf ýmislegt að laga og er Viðreisn með hugmyndir sem geta tryggt mun betra rekstrarumhverfi og stöðugleika fyrir fyrirtækin í landinu.

Hvað þarf atvinnulífið ekki?

Athugum fyrst hvað atvinnulífið ætti ekki að þurfa að glíma við.

Í fyrsta lagi er óstöðug króna með sífelldum gengissveiflum einn helsti óvinur atvinnulífsins og eitur í beinum flestra fyrirtækja á Íslandi. Ég þekki það af eigin raun eftir að hafa rekið eigið fyrirtæki í 14 ár og starfað við stjórnun í um 40 ár. Nýleg könnun meðal frumkvöðla sýnir að yfir 70% þeirra telja krónuna vera helstu hindrun vaxtar. Öll stærstu fyrirtækin hafa þegar tekið upp erlenda gjaldmiðla í uppgjörum sínum og mörg útflutningsfyrirtæki greiða íslenskum birgjum í evrum og eru þannig í raun búin að taka upp nýjan, stöðugan gjaldmiðil sem hin fyrirtækin og almenningur fá ekki að njóta. Greiningaraðilar telja að krónan sé þegar orðin of sterk, að gengisfelling sé í kortunum. Fyrirtæki og heimilin þurfa að vera sérfræðingar í áhættustýringu og starfa eins og vogunarsjóðir til að geta staðið af sér þær gengissveiflur sem eru í kortunum.

Í öðru lagi hamla víðtæk afskipti ríkisvaldsins vexti atvinnufyrirtækja. Þau þurfa mörg hver að búa við verndartolla af hráefnum til iðnaðar og innflutningstakmarkanir á matvöru og eru mörg þeirra í málaferlum við ríkið um þessi mál.

Dæmi eru um opinber fyrirtæki sem stunda ríkisstyrkta samkeppni við fyrirtækin í landinu. Mörg ríkisfyrirtæki eru að færa starfsemi frá einkageiranum inn í ríkiskerfið, eins og sést til dæmis í heilbrigðiskerfinu þar sem nauðsynlegt er að stöðva aðför ríkisstjórnarinnar að einkarekstri. Ríkisvaldið setur ýmsar hömlur á atvinnufrelsi sem er stjórnarskrárvarinn réttur okkar allra.

Í þriðja lagi búa íslensk fyrirtæki við einn hæsta fjármagnskostnað á Vesturlöndum, eina mestu verðbólguna og hæstu skatta af atvinnuhúsnæði. Þetta minnkar samkeppnishæfni þeirra.

Í fjórða lagi búa íslensk fyrirtæki við gríðarlegar samkeppnishindranir sem OECD benti á í skýrslu árið 2019. Þar kemur fram að byggingariðnaður og ferðaþjónusta, sem eru með um fimmtung þjóðarframleiðslunnar, búi við 676 samkeppnishindranir. Ef sama hlutfall hindrana væri í öðrum geirum þá væru um 3.400 samkeppnishindranir í landinu sem fyrirtækin þurfa að búa við.

Það sem atvinnulífið þarf

Það sem íslensk fyrirtæki þurfa eru eftirfarandi atriði, en þau ríma öll vel við stefnu Viðreisnar í málefnum atvinnulífsins:

Það þarf að minnka gengissveiflur með tengingu krónunnar við stöðugan gjaldmiðil. Það mun tryggja stöðugleika, lægri vexti og aukna erlenda samkeppni, almenningi og fyrirtækjum til hagsbóta. Með stöðugum gjaldmiðli munu launasamningar í landinu taka mið af framleiðniaukningunni þar sem gengisfelling er ekki í boði til að leiðrétta mistök í hagstjórninni.

Gengisstöðugleiki með tengingu við evru hefur verið í Danmörku og Færeyjum í áratugi sem hefur leitt til stöðugleika sem við höfum mikla þörf fyrir.

Með stöðugum gjaldmiðli má búast við að erlendir bankar og tryggingarfélög komi til landsins og bjóði fyrirtækjum og heimilum betri kjör á fjármagni og tryggingum svo aðeins tvö dæmi séu nefnd um kosti stöðugs gjaldmiðils. Auk þess má nefna að erlend fjárfesting fæst oft ekki inn í íslensk fyrirtæki nema hugverkaréttindi séu flutt í lögsögu með stöðugum gjaldmiðli. Það hefur og verið gerð krafa um að fyrirtæki séu flutt í erlenda lögsögu af þessum sökum.

Það þarf að gera fleiri viðskiptasamninga við helstu viðskiptalönd okkar.

Mikilvægt er að íslensk fyrirtæki hafi greiðan, tollfrjálsan aðgang að erlendum mörkuðum. Góð reynsla er af þátttöku Íslands í Fríverslunarsamtökum Evrópu og aðildinni að innri markaði ESB. Enginn samningur hefur aukið athafnafrelsi fyrirtækja eins mikið og EES-samningurinn. Þetta athafnafrelsi er ein helsta undirstaða verðmætasköpunar og velferðar á Íslandi.

Opna þarf fleiri tækifæri á erlendum mörkuðum fyrir unnar sjávarafurðir og vörur nýsköpunarfyrirtækja. Það verður helst gert með fleiri viðskiptasamningum.

Ísland hefur gert örfáa tvíhliða viðskiptasamninga meðan samningar gegnum EES og EFTA nema tugum. Því er mikilvægt að Ísland geri samninga sína með samningsstyrk okkar samstarfsríkja í EES og EFTA.

Það þarf að lækka kostnað við stofnun og rekstur fyrirtækja og heimila í landinu.

Fyrirtæki á Íslandi búa við margfaldan fjármagnskostnað miðað við samkeppnislöndin. Auðvelda þarf stofnun nýrra fyrirtækja og gera hana ódýrari. Jafnframt þarf að auka stuðning og skattaívilnanir við nýsköpunarstarf.

Það þarf að ryðja öllum samkeppnishindrunum úr vegi.

Núverandi stjórnvöld hafa lítið brugðist við athugasemdum OECD um gríðarlegar samkeppnishindranir íslenskra fyrirtækja.

Ef ekkert er að gert munu íslensk fyrirtæki tapa viðskiptum til erlendra samkeppnisaðila, sem eru nú þegar komnir til landsins á sviðum flutninga, auglýsingasölu, byggingaframkvæmda, byggingavörusölu, fasteignarekstrar, bensínsölu, heildsölu og smásölu. Þau fyrirtæki búa við lægri fjármagnskostnað og færri samkeppnishindranir vegna tenginga við sitt heimaland, auk auðveldari fjármögnunar í stöðugum gjaldmiðli.

Verkefni stjórnmálanna í atvinnumálum

Eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna er að skapa atvinnulífinu hvetjandi og samkeppnishæft rekstrarumhverfi sem fjölgar störfum, tryggir atvinnuöryggi og eflir atvinnulífið. Um þetta munu kosningarnar í haust snúast að miklu leyti.

Fyrirtæki þurfa að hafa aðgang að fjármagni, orku og öðrum aðföngum á samkeppnishæfu verði og geta treyst á öfluga innviði og fjölbreytt menntakerfi. Virk og frjáls samkeppni á öllum sviðum hagkerfisins skiptir höfuðmáli. Viðskiptafrelsi á að vera á öllum sviðum atvinnulífsins.

Einstaklingsframtak, frumkvöðlastarf, atvinnu- og athafnafrelsi eru lykilatriði fyrir atvinnulífið. Skapa þarf tugi þúsunda nýrra áhugaverðra starfa á næstu árum fyrir unga fólkið okkar til að tryggja að það vilji starfa á Íslandi í íslenskum fyrirtækjum sem hafa möguleika á að vaxa og dafna hér.

Auðvelda þarf stofnun nýrra fyrirtækja og stöðug hvatning til nýsköpunar þarf að vera til staðar. Öflug frumkvöðlafræðsla í skólum og stuðningur við þróun nýrrar þjónustu og framleiðslu ýtir undir þetta. Gera þarf erlendum sérfræðingum auðveldara að setjast að með sínar fjölskyldur á Íslandi. Hér er atvinnulíf of einhæft og það verður að tryggja aðgang að hæfustu sérfræðingum á hverju sviði til þess að hægt sé að byggja upp nauðsynlega þekkingu og getu.

Grænn atvinnurekstur sem nýtir sjálfbærar auðlindir landsins tryggir okkur sérstöðu á alþjóðlegum markaði. Kolefnisbinding og framleiðsla á vetni og metanóli eru nýleg dæmi um slík tækifæri.

Gera þarf stórátak í hagræðingu og sparnaði í opinberum rekstri. Gefa þarf einkarekstri aukin tækifæri til að sinna verkefnum hins opinbera og ríkisfyrirtæki eiga alls ekki að keppa við einkareksturinn. Stjórnir ríkisfyrirtækja eiga ekki að vera mannaðar með pólitískt ráðnum stjórnarmönnum. Þar eiga að vera bestu sérfræðingar á sviði stjórnunar og rekstrar, ekki stjórnmálamenn. Þannig má draga úr áhrifum ráðherra á stjórnun fyrirtækjanna.

Öflugt velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfi auk eflingar innviða eru meginverkefni stjórmálanna. Það þarf öflugt atvinnulíf til að gera það mögulegt.

Í kosningunum í haust mun Viðreisn leggja sérstaka áherslu á nokkur stór mál. Þar á meðal eru heilbrigðismálin, að almannahagsmunir séu framar sérhagsmunum, auðlindamál , jafnt vægi atkvæða og ekki síst betra rekstrarumhverfi atvinnulífsins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. júlí 2021