Hvor leiðin að stöðugleika er betri?

Þorsteinn Pálsson

Allir stjórnmálaflokkar hafa stöðugleika á stefnuskrá.

Pólitískur stöðugleiki, sem felst í því einu að ríkisstjórn sitji, kemur að litlu haldi ef sú seta tryggir ekki stöðugleika í þjóðarbúskapnum og næga verðmætasköpun.

Stöðugleikaáhrif stjórnvalda birtast einkum í stjórn þeirra á gjaldmiðlinum og ríkissjóði.

Króna með eða án hafta

Átta flokkar sitja nú á Alþingi. Á vorþinginu voru þó bara lagðar fram tvær tillögur um ólíkar leiðir að traustari stöðugleika krónunnar á næsta kjörtímabili.

Ríkisstjórnin lögfesti nýja leið. Hún byggir á því að halda áfram með sjálfstæða krónu en framselja til Seðlabankans varanlegar heimildir til að beita gjaldeyrishöftum eins og þurfa þykir.

Þetta er grundvallar stefnubreyting. Sem sagt: Króna studd með höftum og háum vöxtum miðað við samkeppnislöndin.

Viðreisn lagði fram tillögu um málamiðlun. Hún gerir ráð fyrir krónu, en jafnframt verði leitað eftir formlegu stöðugleikasamstarfi við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins.

Með þessari leið yrðu nýju haftaheimildir Seðlabankans óþarfar og vextir lægri.

Munurinn á leiðunum tveimur snýst fyrst og fremst um frelsi í viðskiptum og vexti.En hvernig finna launamenn og fyrirtæki fyrir mismunandi áhrifum þeirra?

Fyrir fyrirtæki og launafólk

Enginn veit nákvæmlega hvernig nýjum haftaheimildum verður beitt á næstu árum.Seðlabankastjóri hefur lengi talað fyrir þeirri viðurkenndu hagfræðikenningu að sjálfstæð króna sé ómöguleiki án hafta. Í því ljósi og með hliðsjón af reynslu er ljóst að höftin verða ríkur þáttur í stöðugleikapólitíkinni.

Þekkt er að gjaldeyrishöft virka eins og hemill á viðskipti milli landa og þar með á hagvöxt. Heimildin ein og sér getur jafnvel haft slík áhrif.

Þetta þýðir að afl atvinnulífsins til að auka verðmætasköpun verður veikara en vera þyrfti velji kjósendur að fylgja stöðugleikaleið ríkisstjórnarinnar.

Sérstaklega getur þessi leið orðið þröskuldur fyrir nýsköpun í þekkingariðnaði í framtíðinni. En viðreisn þjóðarbúskaparins mun að miklu leyti byggjast á henni.

Til þess að varðveita kaupmátt launafólks þarf hagvöxtur á næstu árum að verða verulega meiri en fyrir veirukreppuna. Leið ríkisstjórnarinnar er því verri fyrir launafólk, þar á meðal opinbera starfsmenn.

Fyrir sameiginlega sjóðinn

Í vor skildi ríkisstjórnin eftir 50 milljarða króna gat í fjármálaáætlun. Þar segir að á þessu stigi hafi hún ekki hugmynd um hvernig leysa eigi þann vanda eftir tvö ár.

Lausnin á þessu mikla óleysta dæmi ræðst að hluta til af því hvora leiðina kjósendur velja til að ná stöðugleika.Stöðugur gjaldmiðill án hafta er líklegri til að skapa meiri hagvöxt og þarf af leiðandi skila meiri tekjum í ríkissjóð. Fyrir skattborgarana er sú leið því augljóslega betri en leið ríkisstjórnarinnar.

Alþjóðlegt stöðugleikasamstarf er einnig líklegra til að tryggja ríkissjóði sambærileg lánskjör og samkeppnislöndin njóta án gengisáhættu. Stefna ríkisstjórnarinnar þýðir aftur á móti meiri fjármagnskostnað og áhættu, sem eykur líkur á niðurskurði eða skattahækkunum.

Fyrir lífeyrisþega

Lífeyrisþegar eiga einnig afar mikið undir því hvor stöðugleikaleiðin verður farin.

Reynslan sýnir að Seðlabankinn mun beita haftaheimildum gegn lífeyrissjóðum ekki síður en atvinnulífi.Til þess að ná eðlilegri áhættudreifingu fyrir sjóðfélaga þarf að festa miklu stærri hluta þessa sparnaðar erlendis. Eins dregur það úr virkni íslensks atvinnulífs þegar félagslegt fjármagn er orðið þar allsráðandi.

Hættan er sem sagt sú að lífeyrisþegar verði látnir borga kostnað af höftum á móti fyrirtækjum verði leið ríkisstjórnarinnar farin.

Fyrir landsbyggðina

Stöðugleiki með höftum og háum vöxtum hamlar vexti nýrra atvinnugreina og gerir hvers kyns atvinnuháttabreytingar örðugri.

Landsbyggðin er í sérstaklega viðkvæmri stöðu þegar kemur að vali milli stöðugleikaleiða. Stærstu fyrirtækin í sjávarútvegi og stóriðju fá væntanlega undanþágur frá höftum. En framtíðin á landsbyggðinni ræðst af nýjabrumi og atvinnuháttabreytingum.

Af sjálfu leiðir að leið ríkisstjórnarinnar er verri fyrir landsbyggðarfólk en hin leiðin, sem byggir á stöðugleika án gjaldeyrishafta og lægri vöxtum.

Fyrir heildina

Að öllu virtu er stöðugleiki með krónu án hafta í alþjóðlegu samstarfi líklegri til að skila meiri farsæld fyrir heildina en gjaldeyrishöft og hærri vextir.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. ágúst 2021