Margur verður af auðlind api

Benedikt Jóhannesson

Eitt skipt­ir meg­in­máli í kom­andi kosn­ing­um og um alla framtíð. Að þjóðin fái sinn sann­gjarna hluta af verðmæt­inu sem felst í fiski­miðunum: Sjáv­ar­út­veg­ur borgi markaðstengt auðlinda­gjald með því að ár­lega fari ákveðinn hluti kvót­ans á markað. Flókn­ara er það ekki.

Skoðum álita­efn­in:

1. Þjóðin á auðlind­ina. Útgerðar­menn nýta hana og eiga því að borga fullt verð fyr­ir af­not­in.

2. Útgerðin borg­ar nú þegar auðlinda­gjald. Er það ekki nóg? Svarið er ein­falt. Eng­um dytti í hug að það væri sann­gjarnt að borga 50 þúsund krón­ur í leigu á mánuði fyr­ir 200 fer­metra íbúð. Það væri gjöf en ekki gjald. Sama gild­ir um mála­mynda­gjald út­gerðarmanna fyr­ir fiski­miðin.

3. Væri þá ekki rétt að af­komu­tengja auðlinda­gjaldið? Þessi hug­mynd er jafn­frá­leit og að af­komu­tengja húsa­leigu, þannig að fyr­ir­tæki skuss­anna borgi lægri leigu fyr­ir versl­un­ar- eða skrif­stofu­hús­næði en þau sem eru rek­in af hag­kvæmni.

4. Fyr­ir daga kvóta­kerf­is­ins var út­gerðin rek­in sem næst á núlli og í óefni stefndi á fiski­miðunum vegna of­veiði. Af­nám kvóta­kerf­is er aft­ur­hvarf til þeirra tíma. Nú er fólk al­mennt mun meðvitaðra um sjálf­bæra nýt­ingu nátt­úr­unn­ar og eng­um dytti í hug að snúa aft­ur til daga rán­yrkj­unn­ar.

5. En varð veiðirétt­ur­inn verðmeiri við það að nýtt kerfi var tekið upp? Já, ein­mitt vegna þess að nú er viður­kennt að veiðirétt­ur er tak­mörkuð gæði er hann mik­ils virði. Auk þess er auðlind­in í heild nú meira virði vegna skyn­sam­legr­ar stjórn­un­ar.

6. Hag­fræðing­ar tala um auðlindar­entu, en það hug­tak skilja fáir og eng­inn veit hvernig á að reikna hana. Þess vegna er bor­in von að setja á sann­gjarnt gjald, segja full­trú­ar út­gerðarmanna á Alþingi. Þetta er rétt og þess vegna er best að láta markaðinn ráða. Verð á hluta­bréf­um, hús­næði, olíu og nán­ast öllu öðru sem selt er á frjáls­um markaði ræðst af fram­boði og eft­ir­spurn. Hvers vegna ekki veiðirétt­ur­inn?

7. Hækk­ar markaðsverð auðlinda­gjaldið frá því sem nú er? Um slíkt er vandi að spá, en samt ekk­ert mik­ill vandi. Sam­kvæmt Hag­stof­unni var ár­leg­ur hagnaður sjáv­ar­út­vegs­ins á föstu verðlagi 2019 um 55 millj­arðar króna ára­tug­inn 2010-19. Veiðirétt­ur­inn er greini­lega mik­ils virði. Árið 2020 var veiðigjald sam­kvæmt ákvörðun stjórn­mála­manna alls 4,8 millj­arðar króna. Á leigu­markaði fer kvót­inn á marg­földu því verði, en mis­mun­ur­inn fer í vasa út­gerðarmanna.

8. Upp­boð skap­ar óvissu, segja út­gerðar­menn. All­ur at­vinnu­rekst­ur er óvissu háður, en ef hluti afla­heim­ilda er sett­ur á markað á ári hverju, til dæm­is 5%, fylg­ir nýt­ing­ar­samn­ing­ur í 20 ár. Öryggið eykst því, en minnk­ar ekki.

Hrist­um af okk­ur órétt­lætið sem felst í veiðigjaldi sem ákveðið er að póli­tík­us­um og hef­ur millj­arða af þjóðinni á ári hverju. Setj­um kvót­ann á markað.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. ágúst 2021