Ræða varaformanns Viðreisnar á landsþingi

Kæru félagar

Nú er lokið frábærlega vel heppnuðu landsþingi. Skynsamlegar breytingar hafa verið gerðar á regluverki flokksins. Samþykkt hefur verið sterk stefna með skýrri sýn um framtíð íslensks samfélags. Sýn sem byggir á grundvallaráherslum Viðreisnar um farsælt samfélag með áherslu á hagsmuni almennings. Þetta er mjög öglugt vegarnesti inn í lokaáfanga kosningabaráttunnar. Baráttu sem þarf, og á, að snúast um framtíðarsýn um hvernig samfélagi við viljum búa í.

Í þessari baráttu munum við þurfa að eiga við flokka sem deila ekki þessari sýn. Sem annað hvort standa fyrir vörð um óbreytt ástand og vernd sérhagsmuna eða skammlaus óábyrg yfirboð. Sú skýra sýn sem fram kemur í nýsamþykktum málefnaályktunum mun verða okkur ómetanlegt vegarnesti í þessari baráttu.

Á næstu vikum munum við kynna þessa stefnu fyrir kjósendum. Þær verða ráðandi í því hvernig okkur mun vegna í kosningunum. Gengi Viðreisnar í kostningunum er síðan ráðandi um það hvernig stjórn verður mynduð eftir kosningar. Hvort áfram verði samstaða um stöðnun eða hvort frjálslynd viðhorf verði ráðandi. Hvort okkar bíði fjögur ár af glötuðum tækifærum, litlum hagvexti og niðurskurði í opinberri þjónustu eða fjögur ár af umbótum, uppgangi og sköpun nýrra tækifæra. Á okkur liggur sú ábyrgð að tryggja hið síðarnefnda. Að sannfæra kjósendur um mikilvægi og skynsemi stefnu Viðreisnar. Þetta verkefni verður okkar líf fram að kosningum.

Við þurfum að frelsa þjóðina frá óstöðugri krónu. Fjarlægja þessa hækju sem krónan er fyrir lélega hagstjórn íhaldsaflanna í íslensku samfélagi. Frelsa þjóðina undan krónuskattinum sem leggst á allt. Frelsa sköpunarkraftinn sem býr í þjóðinni og leggja grunnin að sókn í útflutningi byggðu á íslensku hugviti.

Við þurfum að frelsa þjóðina frá ríkisvæðingu heilbrigðiskerfisins, kreddum varðandi rekstrarform sem enga stoð eiga í raunveruleikanum. Tryggja þannig sókn í bættri heilbrigðisþjónustu.

Við þurfum að frelsa þjóðina frá óréttlátum kerfum sem veita sérhagsmunahópum einkaaðgang að auðlindum, svipta þjóðina eðlilegu endurgjaldi og koma í veg fyrir framþróun og nýliðun.

Við þurfum að frelsa þjóðina frá úreltum og gagnslausum hugmyndum um forsjárlausnir í umhverfismálum. Loftslagsvandinn er sameiginlegur vandi mannkyns. Umræðurnar á landsþinginu sýndu að þetta skilur viðreisnarfólk. Stíga þarf stór skref strax. Og við skiljum að það þarf að virkja hvatana sem bjuggu vandan til sem verkfæri til að leysa vandan. Einungis þannig náum við árangri.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þeim sem komu að skipulagi þessa frábæra þings. Undirbúningshópnum, fundarstjórunum, starfsmönnum flokksins og ykkur kæru félagar. Það hafa verið sérstök forréttindi að fá að vera með ykkur hér í dag.

Nú er komið að lokahnikknum. Okkur er ekkert að vanbúnaði. Saman munum við skapa betra Ísland. Ísland þar sem rödd frjálslyndisins, rödd Viðreisnar, er sterk.

Með þessum orðum slít ég þinginu og segji að lokum – gefum framtíðinni tækifæri – fáum sem flesta til að kjósa Viðreisn

Takk fyrir