Að breyta eða vera fúl á móti

Þorsteinn Pálsson

Einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sagðist vera í liði með þeim sem væru fúl á móti. Þetta lýsir hinni hliðinni á sáttmála ríkisstjórnarinnar, sem er ánægja með óbreytt ástand. Af sjálfu leiðir að hún er fúl á móti breytingum.

Kosningarnar snúast einmitt um þetta: Halda þau meirihluta, sem eru fúl á móti breytingum, eða komast þau til einhverra áhrifa, sem yrðu ánægð með breytingar?

Nýjar víddir

Vandinn er þessi: Þau sem eru fúl á móti hafa setið þétt saman við ríkisstjórnarborðið í heilt kjörtímabil. Hin, sem yrðu glöð með breytingar, hafa talað hvert úr sínu horni í stjórnarandstöðu.

Þetta þýðir að kjósendur geta ekki leyst ríkisstjórnina frá völdum og falið þau stjórnarandstöðunni í heild. Svo er myndin flóknari fyrir það að í hana eru komnar nýjar víddir og flokkar hafa fært sig um set.

Í fyrsta skipti höfum við hreina popúlistaflokka bæði lengst til hægri og vinstri. Jaðrarnir í póli­tíkinni eru því allt annars eðlis en áður.

Frá miðju og nær miðju

Sjálfstæðisflokkurinn spannaði áður bilið frá hægri að miðju. Hann hefur nú farið frá miðjunni og fært sig lengra til hægri og náð með því að stemma stigu við atkvæðaflótta til Miðflokksins.

Þetta birtist í vaxandi efasemdum um EES-samninginn og að fulltrúi þeirra sjónarmiða var kjörinn í baráttusætið í stærsta kjördæminu.

VG var lengst til vinstri. Þau hafa fært sig nær miðjunni. Íhalds­elementið á nú þyngri lóð á vogarskálinni en róttæknin.

Þetta kemur fram í því að VG gengur nú til kosninga í fyrsta skipti án þess að boða stóraukin ríkisútgjöld og miklar skattahækkanir. Þau virðast að mestu halda sig við sameiginlegan ramma fjármálaáætlunar stjórnarflokkanna.

Hitt er ekki síður athyglisvert að formaður VG lagði í ræðu sinni um síðustu helgi meiri áherslu á jöfn tækifæri allra en aukinn jöfnuð. Þessi hugtakanotkun skildi áður á milli hægri og vinstri. Of snemmt er þó að afskrifa VG sem vinstri flokk.

Aukin útgjöld

Samfylkingin talar áfram um meiri jöfnuð. Hún flytur tillögur um verulega aukin útgjöld í því skyni. Skattahækkunaráformin duga þó ekki til.

Hún virðist því, öfugt við Viðreisn og ríkisstjórnarflokkana, líta svo á að unnt sé að reka ríkissjóð til lengri tíma með halla.

Að þessu leyti sýnist Samfylkingin vera komin vinstra megin við VG. Hvort það er af ásetningi eða gáleysi er ekki ljóst, en er að hluta til ný staðsetning.

Frjálslyndar breytingar

Viðreisn og Samfylkingin eiga aftur á móti samleið með frjálslynda hugmyndafræði um margvíslegar mikilvægar breytingar.

Nefna má nánari Evrópusamvinnu, evrópska samvinnu um stöðuga mynt, tímabundinn nýtingarrétt auðlinda í þjóðareign og réttlátt endurgjald fyrir auðlindanýtingu á grundvelli markaðslausna og framseljanlegra aflaheimilda.

Þessar frjálslyndu hugmyndir eru líklegri en kyrrstöðustefna stjórnarflokkanna til að örva hagvöxt og skjóta sterkari stoðum undir nýsköpun og þekkingariðnað. Að sama skapi eru þær líklegri til að færa auknar tekjur í ríkissjóð án skattahækkana og verja þannig velferðarkerfið.

Píratar hugsa meir um hvernig ákvarðanir eru teknar en hverjar þær eiga að vera. Þeir vilja að þjóðin ákveði framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Að því marki styðja þeir breytingar sem örva hagvöxt, en ekki lengra.

Tryggjum ekki eftir á

Engum blöðum er um að fletta að viðspyrnan verður öflugri og sterkari ef frjálslyndar hugmyndir um kerfisbreytingar fá aukin áhrif samhliða ábyrgri ríkisfjármálastefnu.

En hvernig er unnt að ná málamiðlun milli frjálslyndra breytinga og ábyrgrar ríkisfjármálastefnu í svo breyttri sviðsmynd?

Haldi stjórnarflokkarnir meirihluta er eðlilegt að þeir túlki niðurstöðuna sem svo að þeir eigi að halda áfram að vera ánægðir með óbreytt ástand og vera fúlir á móti breytingum.

Falli stjórnin hins vegar vaknar spurningin hvort einn eða fleiri stjórnarflokkanna eru tilbúnir til að gera málamiðlanir um frjálslyndar breytingar. Enn hafa þeir þó ekki opnað á það.

Ef menn kjósa ekki breytingar verða þær ekki. Enginn tryggir eftir á.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. september 2021