Fárra manna hendur

Virk samkeppni skiptir okkur öll máli. Hún skiptir máli fyrir okkur neytendur vegna þess að á markaði ræðst hvaða vörur og þjónusta standa okkur til boða. Þar skiptir verð og þjónusta sköpum. Það má með sanni segja að það séu mannréttindi að geta búið í samfélagi þar sem samkeppni er virk og aðilar sem selja vöru og þjónustu séu sífellt undir vökulu auga sterks samkeppniseftirlits.

Versti óvinur neytenda

Fákeppni á markaði, samþjöppun og krosseignarhald fyrirtækja, er versti óvinur neytandans. Sérlega er skaðlegt þegar það er þoku hulið hvernig þessum tengslum er háttað og hvaða eigendur það eru sem raunverulega ráða för. Til að sporna við þessum óvini þarf sterk bein yfirvalda og samkeppnisyfirvalda. Ef það tekst ekki fara þeir sem ráða á markaði sínu fram og kostnaðinn berum við neytendur. Það eru ekki bara neytendur sjálfir sem verða fyrir búsifjum heldur líka önnur fyrirtæki, ekki síst þau smærri, sem geta ekki keppt, eða eru ofurseld þeim sem starfa í krafti fákeppni og eignatengsla. Best er að koma í veg fyrir að einokun, fákeppni og óhófleg eignatengsl verði til. Stundum kann að vera að erfitt sé að koma í veg fyrir að það gerist þegar markaður er lítill. Þá skipta gegnsæi og eftirlit öllu máli.

Auðlindin okkar er uppspretta auðs

Viðreisn vill gera róttækar breytingar á því hvernig þeir sem nýta okkar verðmætustu auðlind, fiskimiðin við landið, greiða fyrir nýtingu hennar. Það blasir við öllum að nýting hennar hefur verið uppspretta auðs sem þeir sem hafa notið hans hafa nýtt til fjárfestinga vítt og breitt um samfélagið, eða ráðstafað utan landsteinanna. Þeir sem mestar heimildir hafa til nýtingar fiskimiðanna hafa hagnast mikið í skjóli þess aðgangs og þeirra sérkjara sem þeir hafa notið, á grundvelli gallaðs fyrirkomulags á gjaldtöku á þeim verðmætum sem þeim hefur verið veitt heimild til að nýta.

Óeðlileg ítök

Það er óþolandi að þeir sem auðgast á grundvelli aðgangs að auðlind sem er í þjóðareign, greiði ekki verð fyrir aðganginn sem er í samræmi við verð hans á markaði. Sniðgangi síðan beint og óbeint þær reglur sem hafa verið settar um hámark aflaheimilda sem hver og einn má hagnýta. Síðast en ekki síst er ólíðandi að það sé þoku hulið hvernig þeim auði sem skapast í greininni er ráðstafað. Þetta allt samanlagt verður til þess að ítök í íslensku atvinnulífi og samfélaginu í heild eru að færast hratt á fárra manna hendur. Það er ekki samfélag sem mér hugnast.

Sterk sérhagsmunagæsla

Þessi þróun hefur ekki orðið fyrir tilviljun. Hún hefur orðið vegna þess að þeir stjórnmálaflokkar sem hafa ráðið för undanfarna áratugi hafa varið með kjafti og klóm núverandi kerfi og þá sérhagsmuni sem það verndar, en hunsað þá almannahagsmuni sem felast í því að veiðiheimildir séu á markaðsverði og tímabundnar. Nýjasta birtingarmynd þessarar hagsmunagæslu er hlægileg tilraun til að breiða yfir ítök stórútgerðanna í íslensku atvinnulífi, þegar loks tókst að toga með töngum frá sjávar­útvegsráðherra skýrslu um efnið, sem Alþingi krafðist að frumkvæði Viðreisnar.

Hingað og ekki lengra

Það er fullreynt að kyrrstöðu- og afturhaldsflokkarnir í íslenskri póli­tík hreyfi legg eða lið til róttækra breytinga á þessu kerfi. Viðreisn sér hins vegar tækifæri til breytinga með því að setja almannahagsmuni í forgang og að sérhagsmunir verði látnir víkja. Fyrsta skrefið í þeirri vegferð er að aflaheimildir verði tímabundnar og verð þeirra ráðist á markaði. Einnig verði upplýst að fullu um eignatengsl og ítök sem hafa skapast í krafti auðs sem hefur orðið til í skjóli sérréttinda og við þeim verði brugðist.

Gefðu framtíðinni tækifæri – kjóstu Viðreisn.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. september 2021