Gamalt heimsmet endurheimt

Þorsteinn Pálsson

Ísíðustu viku endurheimti Ísland gamalt heimsmet. Hlutabréfavísitalan hafði þá á tólf mánuðum hækkað meira en á nokkru öðru byggðu bóli í veröldinni.

Það gerðist síðast fyrir hrun og þótti þá merki um efnahagsundur. Nú fara flestir hjá sér.

Lágir vextir og innspýting stjórnvalda hafa víðast hvar leitt til þess að hlutabréf hafa hækkað í verði. En Ísland hækkar mest og tvöfalt meira en önnur Norðurlönd.

Hér er óstöðugleiki

Þetta stafar ekki af því að vöxturinn í þjóðarbúskapnum hafi farið hraðar af stað eftir faraldurinn en annars staðar. Þvert á móti. Ísland er heldur á eftir öðrum þjóðum í Evrópu. Við förum hægar í að skapa verðmæti á ný, en hraðar í að keyra verðmæti fyrirtækjanna upp.

Endurheimt þessa gamla heimsmets er þó ekki vísbending um annað bankahrun. En það sýnir tvennt: Verulegan efnahagslegan óstöðugleika og froðumyndun. Það er alvarleg staða, sem kallar á alvarlega pólitík.

Við þetta bætist að verðbólgan er á tvöföldum þeim hraða, sem stjórnvöld hafa sett sem viðmið. Með öðrum orðum: Hér er ekki stöðugleiki. Það markmið náðist ekki. Halli á fjárlögum var til að mynda orðinn umtalsverður fyrir faraldurinn.

Fast viðvörunarskot

Þeir forystumenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja og atvinnulífsins, sem halda því fram að kosningarnar gangi út á það að varðveita stöðugleika, hafa allt aðrar hugmyndir um hvað stöðugleiki er en ríkisstjórnir og forystumenn atvinnulífs í samkeppnislöndunum.

Meiri óstöðugleiki hér þýðir að íslensk fyrirtæki hafa veikari samkeppnisstöðu. Þetta lagast ekki með því að halda því fram að úfinn sjór sé sléttur og vextir lækki þegar þeir hækka.

Í síðustu viku sendi seðlabankastjóri fast viðvörunarskot inn í kosningabaráttuna. Frekari lausatök á ríkisfjármálum munu leiða til enn meiri vaxtahækkana en orðið hafa og eru fyrirsjáanlegar. Þær bíta nú þegar í fyrirtækin og höggva í fjárhag heimilanna.

Kostnaðurinn lendir á ungum barnafjölskyldum

Seðlabankastjóri er einfaldlega að segja: Loforð um stóraukin útgjöld og skattalækkanir þurfa kjósendur að borga með vaxtahækkunum.

Kostnaðurinn lendir með mestum þunga á herðum ungra barnafjölskyldna, sem nú þegar finna fyrir aukinni vaxtabyrði af húsnæðislánum. Og hann veikir viðnámsþrótt atvinnulífsins.

Ný ríkisstjórn getur ekki varðveitt stöðugleika, sem ekki er. Hún þarf að koma á stöðugleika. Takist það ekki er eins víst að misbrestur verði á framkvæmd mikilvægra áforma í loftslagsmálum og endurskipulagning heilbrigðiskerfisins lendi á biðlista enn eitt kjörtímabilið.

Sérstaða VG og Viðreisnar

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarflokkanna til næstu fimm ára er sannarlega götótt. En hún er þó það sem pólitíkin kemst næst þokkalegri ábyrgð á kosningaári.

Framsókn hóf kosningabaráttuna með því að blása fjármálaáætlunina út af borðinu. En Sjálfstæðisflokkurinn gerði svo skattalækkanir án samsvarandi niðurskurðar að forgangsmáli, þegar halla tók undan fæti í skoðanakönnunum fyrir stuttu.

Staðfestuleysi af þessu tagi er himinhrópandi, þegar jafnvel breski Íhaldsflokkurinn telur óhjákvæmilegt að stórhækka skatta við aðstæður sem þessar.

VG hefur sýnt meiri ábyrgð. Þau hafa teygt á ramma fjármálaáætlunarinnar en ekki sett hann til hliðar. Viðreisn er svo eini stjórnarandstöðuflokkurinn, sem ekki hyggst auka útgjöld með lántökum og talar gegn skattahækkunum.

Grafið undan samkeppnisstöðu Íslands

Ógætileg lækkun skatta og aukin útgjöld leiða til enn meiri vaxtahækkana. Þær ýta svo áfram upp gengi krónunnar, sem hefur hækkað að undanförnu.

Sú hækkun er studd af erlendum lántökum ríkissjóðs. Hún byggist ekki á aukinni framleiðni. Eins var þetta fyrir hrun. Þá fóru erlendar lántökur í gegnum bankana. Nú fara þær í gegnum ríkissjóð. En gengisáhrifin eru þau sömu.

Gengishækkun getur dregið tímabundið úr verðbólgu, en veikir samkeppnishæfni útflutnings­atvinnuveganna.

Ríkisstjórnin segir að allt velti á vexti ferðaþjónustu og þekkingariðnaðar. En hún situr svo með hendur í skauti þegar hækkun á gengi krónunnar grefur undan möguleikum þessara greina til öflugrar viðspyrnu. Það er ekki traustvekjandi.

Stöðugur gjaldmiðill mun kalla á mikla ábyrgð stjórnmálaflokka. En hann myndi auðvelda okkur að verja velferðarkerfið og tryggja samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. september 2021