Öll mál eru jafnréttismál

Ísland trónir efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins, World Economic Forum, um kynjajafnrétti. Það höfum við gert í rúman áratug. Af þessu getum við verið stolt. Tölur um kynbundið ofbeldi, kjör kvennastétta og fleira segja okkur hins vegar að við höfum ekki enn náð landi.

Ísland fyrirmynd annarra

Á Íslandi hafa verið sett framsækin lög um jafnrétti sem aðrar þjóðir hafa horft til. Frumvarp Viðreisnar um jafnlaunavottun vakti heimsathygli fyrir skýrar aðgerðir í þágu launajafnréttis. Jafnlaunavottunin var enda tímamóta lagasetning. Við vitum að launamunur kynjanna hefur verið viðvarandi vandamál, útskýrður sem óútskýrður. Störf kvennastétta eru ekki metin að verðleikum og við sem samfélag finnum fyrir afleiðingum þess. Bein afleiðing þessa skrýtna verðmætamats er að illa gengur að manna störf sem við erum öll sammála um að eru okkur mikilvæg. Viðreisn lagði þess vegna fram tillögu um þjóðarátak um bætt kjör kvennastétta, um samstarf aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um að fara í átak til að bæta hér úr. Því miður hefur ekkert verið gert með þessa tillögu af hálfu stjórnvalda.

Kynfrelsi kvenna

Annað frumvarp Viðreisnar sem er til marks um sterka jafnréttispólitík er frumvarp sem Jón Steindór Valdimarsson lagði fram um nýja skilgreiningu á nauðgun. Nú er nauðgun skilgreind út frá skorti á samþykki.  Í því felast grundvallarskilaboð um kynfrelsi. Viðreisn lagði samhliða fram tillögur um fræðslu í skólum, t.d. um þýðingu samþykkis, kynfrelsis og um mörk í samskiptum.

Sú tillaga hefur því miður ekki verið samþykkt á þinginu. Forvarnir og fræðsla eru eitt mikilvægasta verkfærið til að sporna gegn kynbundnu ofbeldi. Með forvörnum og fræðslu gætum við farið í markvissa vinnu til að uppræta kynbundið ofbeldi. Það á nefnilega alls ekkert að vera lögmál að stelpur og konur þurfi stöðugt að vera með hugann við öryggi sitt. Við höfum í þinginu jafnframt ítrekað bent á að stjórnvöld þurfa að efla lögreglu, ákæruvald og dómstóla til að koma í veg fyrir að brotaþolar bíði jafnvel árum saman eftir niðurstöðu mála sinna. Engum öðru en stjórnvöldum er þar um að kenna. Konur og stelpur eru í miklum meirihluta þolenda kynferðisbrota og því er þetta stórt og mikilvægt jafnréttismál.  Það geta allir skilið hversu erfitt það er eftir að hafa lagt fram kæru að þurfa að bíða lengi í óvissu um niðurstöðu málsins. Að bæta úr þessu er mikið réttlætismál.

 

Aðgerðir gegn ofbeldi

Grunninntak í stefnu Viðreisnar er að öll mál séu jafnréttismál. Þannig horfum við alltaf á jafnrétti þegar aðgerðir eru vegnar og metnar. Það er í mínum huga blettur á jafnréttispólitík ríkisstjórnarinnar að hafa staðið hörmulega illa að framkvæmd leghálsskimunar á þessu ári. Ákveðið var að flytja það verkefni milli aðila hér innanlands og um leið að færa rannsókn á sýnum til Danmerkur. Fréttir af sýnum sem lágu í pappakössum og bið kvenna eftir svörum mánuðum saman er til marks um ótrúlegt metnaðarleysi stjórnvalda fyrir grundvallarheilbrigðisþjónustu fyrir konur. Önnur mál sem vekja upp spurningar er afstaða formanns Sjálfstæðisflokksins og annarra þingmanna til grundvallarréttinda kvenna til þungunarrofs.

Við eigum að sýna árangri Íslands í jafnréttismálum þá virðingu að halda áfram að vinna í sama anda, í stað þess að taka skref til baka. Alvarlegt bakslag varð á vakt ríkisstjórnarinnar með dómsmáli menntamálaráðherra gegn konu sem leitaði réttar síns í kjölfar umdeildrar skipunar í embætti ráðuneytisstjóra. Þetta dómsmál er höfðað í nafni íslenska ríkisins og á kostnað okkar allra. Endanleg niðurstaða Landsréttar liggur ekki fyrir, en það er ekki síst þessi meðferð opinberra fjármuna og afstaða til jafnréttismála sem truflar. Þetta dómsmál er blettur á allri jafnréttispólitík ríkisstjórnarinnar.

Kosið um jafnréttismál

Það er verk að vinna í jafnréttismálum. Góð staða Íslands í jafnréttismálum er afrakstur aðgerða sem hafa leitt af sér viðhorfsbreytingu. Viðhorfsbreyting hefur sömuleiðis skilað af sér aðgerðum. Það er hringrás jafnréttis. Árangurinn náðist ekki bara með tímanum eða með biðinni heldur með því að vera markviss og metnaðarfull í jafnréttismálum. Viðreisn hefur á fimm ára sögu sinni sýnt í verki að jafnrétti er leiðarljós í allri stefnu okkar. Þannig mun Viðreisn halda áfram að vinna á næsta kjörtímabili. Þessar kosningar snúast líka um áherslur og vinnubrögð í jafnréttismálum.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar og oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum 17. september 2021