Það verður kosið um umhverfið

Hanna Katrín Friðriksson Alþingiskosningar 2021 Reykjavík Suður RS 1 sæti Viðreisn

Kosningarnar í ár eru frábrugðnar kosningum fyrri ára að því leyti að loksins virðast flestir stjórnmálaflokkar taka loftslagsbreytingar alvarlega. Baráttan fyrir betra samfélagi byggist að miklu leyti á viðbrögðum allrar heimsbyggðarinnar við þeirri vá sem nú steðjar að. En hversu tilbúnir eru flokkarnir til þess að taka næstu skref? Hvernig standa þeir að vígi þegar óháður aðili metur stefnu þeirra í þessu samhengi?

Sólin skín á Viðreisn

Frjálsu félagasamtökin Ungir umhverfissinnar kynntu niðurstöður Sólarkvarðans þann 3. september sl. Kvarðinn var unninn að fordæmi bandarísku samtakanna Sunrise Movement og verkar sem tól fyrir kjósendur til þess að kynna sér áform og viðhorf stjórnmálaflokka þegar kemur að umhverfismálum. Sólin var unnin af mikilli fagmennsku af þverfaglegu teymi ungra fræðikvenna sem eiga það sameiginlegt að vera í framhaldsnámi í sjálfbærnifræðum.

Í sneisafullum sal Norræna hússins heyrðust andköf þegar stigin voru birt á skjá. Einn flokkur í einu fékk athygli og formaður samtakanna, Tinna Hallgrímsdóttir, kynnti niðurstöðurnar af mikilli fagmennsku. Niðurstöðurnar voru afgerandi. Aðeins fjórir flokkar stóðust prófið, með yfir 45/100 í einkunn og bilið milli flokkana var vægast sagt sláandi.

Viðreisn fékk flest stig allra flokka fyrir framsækna stefnu sína í málaflokknum hringrásarhagkerfið. Viðreisn er enda flokkur sem talar fyrir skilvirku hagkerfi og hvað er skilvirkara en þegar hráefni og orka er nýtt eins vel og unnt er. Fyrir loftslagsstefnu lentum við í öðru sæti sem sýnir, svart á hvítu, að það er vel hægt að samræma framsækna stefnu í loftslagsmálum og efnahagsstefnu sem byggir á traustri hagstjórn og frjálsu markaðshagkerfi.

Tekjuhlutlausir grænir skattar

Viðreisn hefur alltaf lagt höfuðáherslu á jafnrétti. Sú áhersla hríslast inn í umhverfisstefnu flokksins, rétt eins og aðrar stefnur, enda sjá öll óréttlætið og ójöfnuðinn sem loftslagsbreytingar leiða af sér. Neikvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga leggjast þyngst á þau sem minnst mega sín í heimssamfélaginu.

Viðreisn vill nýta kolefnisgjald enda er það í samræmi við þær áherslur okkar að þau borgi sem mengi. Þannig sláum við tóninn fyrir það græna samfélag sem við öll viljum búa í. Það er hins vegar ljóst að grænir skattar, séu þeir ekki útfærðir rétt, leggjast þyngra á tekjulægra fólk. Það er ekki í anda stefnu Viðreisnar. Við höfum því lagt áherslu á að gera græna skatta tekjuhlutlausa. Með hækkun kolefnisgjalds verði samsvarandi lækkun gerð á öðrum sköttum og gjöldum. Þannig gerum við samfélagið okkar grænna á meðan við tryggjum að forsendur þeirrar vegferðar séu ekki þyngri byrði á tekjulægra fólk og þau sem búa í dreifbýli.

Megum við öll sigra

Sólarkvarðinn er að mínu mati algjör vítamínsprauta í umræðuna. Framtak sem fékk stjórnmálaflokka til þess að staldra við og spyrja sig alvöru spurninga um ágæti eigin stefnu í fyrrnefndum málaflokkum. Ég segi við Unga umhverfissinna og þau sem standa umhverfisvaktina: Takk fyrir ykkar framlag til samfélagsins og megum við öll sigra í baráttunni við loftslagsvánna!

Höfundur er þingmaður Viðreisnar og oddviti í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 15. september 2021