Um­hugsunar­efni

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar

Fyrsta frétt RÚV kvöld eitt í síðustu viku var svar Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við þeirri þungu umræðu sem nú fer fram um ófullnægjandi húsnæði geðdeildar Landspítala.

Af alkunnri ábyrgðartilfinningu fyrir embætti sínu sagði heilbrigðisráðherra við þjóðina að það væri umhugsunarefni að forverar hennar í ráðherrastólnum skyldu ekki hafa leyst málið og komið geðsviðinu fyrir í þeim nýbyggingum, sem nú er verið

Um helgina fylgdi fréttastofan svo málinu eftir með því að birta bréf frá félagi geðlækna, sem ráðherra barst á síðasta ári. Þar var bent á nauðsyn úrbóta. Og fram kom að ráðherra hefði ekki virt læknana svars. Er það ekki umhugsunarefni?

Í vor sem leið vakti Krabbameinsfélagið athygli á óboðlegri aðstöðu fyrir þá skjólstæðinga Landspítala sem njóta þjónustu dagdeildar og blóð- og krabbameinslækninga. Fram kom að stjórnendur Landspítalans voru með tillögu um hvernig leysa mætti þann vanda án tafar. Fréttir voru sagðar af því að Krabbameinsfélagið hefði samþykkt að kosta hluta úrbótanna ef vilji væri til skjótra viðbragða. Engar fréttir hafa verið sagðar um viðbrögð heilbrigðisráðherra. Er það ekki umhugsunarefni?

Öll þjóðin veit að vinnubrögð heilbrigðisráðherra við breytingar á skimun fyrir krabbameinum leiddu til þess að tugir þúsunda kvenna komu þeim skýru skilaboðum á framfæri að þær teldu að lífi og heilsu kvenna væri stefnt í hættu. Enn eru sagðar fréttir af þessu klúðri. Er það ekki umhugsunarefni?

Færri vita að búið var að undirbúa skimun fyrir ristilkrabbameinum þegar núverandi ráðherra settist í stólinn. Því verkefni var stungið ofan í skúffu meðan klúðrið var undirbúið. Er það ekki umhugsunarefni?

Árið sem ráðherra tók við embætti þurftu konur sem greinst höfðu með brjóstakrabbamein að bíða í 35 daga eftir aðgerð. Tveimur árum seinna þurftu konur að bíða í 58 daga. Það eru nýjustu birtu tölur. Er það ekki umhugsunarefni?

Stuðningur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins við þessar ákvarðanir heilbrigðisráðherra hefur verið ótvíræður allt kjörtímabilið og þar með ábyrgð? Er það ekki umhugsunarefni?

Er ekki umhugsunarefni hverjum á að treysta fyrir þessu embætti?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. september 2021