Valkostirnir eru skýrir

Á kjör­dag blasa skýr­ir val­kost­ir við kjós­end­um: kyrr­stöðustjórn eða stjórn með al­manna­hags­muni í fyr­ir­rúmi. Fjár­mála­stjórn nú­ver­andi stjórn­ar skilaði ósjálf­bær­um rík­is­sjóð jafn­vel áður en heims­far­ald­ur­inn skall á. Þess vegna er bros­legt að hlusta nú á rík­is­stjórn­ar­flokk­ana þrjá tala um að stöðug­leiki sé nauðsyn­leg­ur. Efna­hags­leg­ur stöðug­leiki er vita­skuld mik­il­væg­ur en sá stöðug­leiki sem þessi rík­is­stjórn stend­ur fyr­ir fer ein­fald­lega gegn hags­mun­um al­menn­ings í land­inu. Stöðug­leiki má ekki vera skjól fyr­ir sér­hags­muni. Og það er sá stöðug­leiki sem þessi rík­is­stjórn fær­ir okk­ur.

Háir skatt­ar á Íslandi

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn legg­ur nú allt kapp á að sann­færa kjós­end­ur um að með hon­um fái fólk og fyr­ir­tæki skatta­lækk­an­ir. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur frá 1995 stýrt fjár­málaráðuneyt­inu í heil 22 af 26 árum. Þegar skatt­tekj­ur hins op­in­bera sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu eru born­ar sam­an við önn­ur OECD-ríki blas­ir skýr niðurstaða við. Árið 2019 var meðaltal OECD-ríkj­anna 25% en 33% á Íslandi. Aðeins Sví­ar voru með hærra hlut­fall. Niðurstaðan er að skatt­ar á Íslandi eru háir. Það er því eng­in inni­stæða fyr­ir orðum for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins að flokk­ur hans færi fólki skatta­lækk­an­ir. Viðreisn mun ekki hækka skatta á þessu kjör­tíma­bili. At­kvæði greitt Viðreisn er þess vegna at­kvæði sem er til að forða al­menn­ingi og fyr­ir­tækj­um frá frek­ari skatta­hækk­un­um.

Markaðsgjald fyr­ir af­not af fiski­miðunum

Arf­leifð Sjálf­stæðis­flokks­ins í sjáv­ar­út­vegs­mál­um er að stór­út­gerðin greiðir allt of lágt verð fyr­ir af­not af fiski­miðunum. Árum og ára­tug­um sam­an hef­ur al­menn­ing­ur kallað eft­ir breyt­ing­um á þessu. Rík­is­sjóður og al­menn­ing­ur verða af millj­örðum á hverju ein­asta ári vegna þessa kerf­is sem rík­is­stjórn­in stend­ur vörð um. Stöðug­leikalof­orð rík­is­stjórn­ar­flokk­anna í þessu máli felst í því að ganga sam­hent­ir gegn hags­mun­um al­menn­ings en með hags­mun­um hinna fáu. Kvóta­kerfið sem slíkt hef­ur sannað gildi sitt og gagn­semi til að stýra veiðum og tryggja sjálf­bæra auðlind. Út af stend­ur að inn­heimta eðli­lega gjald­töku fyr­ir af­not af fiski­miðunum á markaðsvirði. Viðreisn vill að hluti kvót­ans fari á frjáls­an markað á ári hverju og markaður­inn svari því hvert verðmætið er. Með þessu munu rík­is­sjóður og al­menn­ing­ur fá um­tals­vert hærri tekj­ur sem nýta má til sam­fé­lags­legra verk­efna. Þessi leið mun jafn­framt skapa grein­inni stöðug­leika og fyr­ir­sjá­an­leika, en gerðir verða lang­tíma­samn­ing­ar við út­gerðina um nýt­ingu á auðlind­inni. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn sem í orði kveðnu kveðst markaðss­innaður berst hvergi harðar fyr­ir óbreyttu ástandi en hér.

Dag­legt líf fólks­ins í land­inu

Í kosn­inga­bar­átt­unni hef­ur Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn reynt að sann­færa fólk um að hann sé rétt að byrja. Flokk­ur­inn ætli að bæta hag barna. Dag eft­ir dag greina fjöl­miðlar frá átak­an­leg­um sög­um barna í bið eft­ir grund­vall­arþjón­ustu. Börn eru á biðlista alls staðar í kerf­inu. For­eldr­ar þess­ara barna þekkja þenn­an veru­leika. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn hef­ur frá 1995 stýrt fé­lags­málaráðuneyt­inu í 20 af 26 árum. Það er því hár­rétt sem Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn seg­ir: hann virðist nefni­lega varla byrjaður – þrátt fyr­ir að hafa haft til þess ára­tugi.

Efna­hags­mál snú­ast um dag­legt líf fólks

Efna­hags­leg­ar af­leiðing­ar heims­far­ald­urs eru yfir þúsund millj­arða rík­is­skuld­ir. Fólk er aft­ur farið að sjá mynd sem við þekkj­um. Vext­ir á hús­næðislán­um fara hækk­andi. Þrátt fyr­ir að vext­ir séu lægri en áður eru vext­ir hér engu að síður marg­falt hærri en t.d. á Norður­lönd­un­um. Al­menn­ing­ur veit að lág­ir vext­ir hér­lend­is eru aldrei annað en tíma­bundið ástand. Stöðug­leiki Sjálf­stæðis­flokks­ins er ekki meiri en það.

Fyr­ir venju­legt fólk, fjöl­skyld­ur og ein­stak­linga, hef­ur mesta þýðingu í dag­legu lífi að hafa at­vinnu og að kostnaður­inn við að reka heim­ili sé viðráðan­leg­ur og fyr­ir­sjá­an­leg­ur. Fyr­ir fyr­ir­tæk­in er grund­vall­ar­atriði að geta gert áætlan­ir og að vissa sé um helstu út­gjaldaliði. Svo er ekki í ís­lensku um­hverfi. Þess vegna er ís­lenskt sam­fé­lag ekki sam­keppn­is­hæft til lengri tíma litið. Það er stjórn­valda að skapa skil­yrði til að dag­legt líf fólks og fyr­ir­tækja í land­inu sé gott, stöðugt og sam­keppn­is­hæft. Til að þess þarf stöðugan gjald­miðil. Viðreisn vill tengja krón­una við evru, líkt og Dan­ir hafa gert. Það mun færa stöðug­leika sem hér vant­ar. Dæmi­gerð fjöl­skylda með 31 millj­ón­ar króna hús­næðislán gæti með þess­ari leið haft 72.000 krón­um meira á milli hand­anna í mánuði hverj­um.

Gefðu framtíðinni tæki­færi

Val­kost­irn­ir á kjör­dag eru skýr­ir. Spurn­ing­in er hvernig vilj­um við sjá Ísland vaxa og hvaða tæki­færi við vilj­um færa æsku lands­ins. Viðreisn vill fjár­festa mark­visst í mennt­un og ný­sköp­un og gefa heil­brigðisþjón­ust­unni tæki­færi. Við vilj­um forða al­menn­ingi og fyr­ir­tækj­um frá frek­ari skatta­hækk­un­um og skapa þeim skil­yrði til að sækja fram. Verk­efnið er ein­fald­lega að skapa sam­fé­lag sem býður fólk­inu í land­inu lífs­kjör og lífs­gæði sem eru góð og sam­keppn­is­hæf og fyr­ir­tækj­um um­hverfi þar sem þau geta staðist sam­keppni að utan. Þess vegna á að kjósa Viðreisn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. september 2021