Við höfum val um framtíðina

Guðmundur Ragnarsson alþingiskosningar 2021 Reykjavíkurkjördæmi Norður RN 4. sæti

Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að kjósendur leggi mat á stöðu sína og framtíðarhagsmuni fyrir komandi alþingiskosningar. Það er svo mikið í húfi að við erum skyldug að axla ábyrgð og skoða vel stefnuskrá stjórnmálaflokkanna áður en við greiðum atkvæði okkar í kjörklefanum. Í stað þess að gleypa við gömlum endurteknum kosningaloforðum eða popúlískum töfralausnum verðum við að huga að framtíðarlausnum sem virka. Sagar kennir okkur að skyndilausnir settar fram í aðdraganda kosninga hafa oftast endað hörmulega efnahagslega.

Við þurfum að spyrja okkur hvort við ætlum að kjósa flokka sem áfram boða stöðugleika með krónu sem er ekkert annað en áframhaldandi stuðningur við sérhagsmunahópana sem eru að eignast Ísland í skjóli fákeppni og gjaldmiðilsins. Hvort við viljum afhenda komandi kynslóðum samfélag húsbænda og hjúa, því þangað stefnum við með sama áframhaldi.

Fyrirbyggjum frekari skaða

Við verðum líka að spyrja okkur hvað erum við tilbúin að fórna miklu fyrir krónuna. Það er mín skoðun að í því alþjóðaumhverfi sem við erum í dag þá sé tími sjálfstæðs gjaldmiðils liðinn og ef við horfumst ekki í augu við þá staðreynd mun það valda okkur ómældum skaða. Við þurfum að takast á við ýmis stór verkefni, eins og að reka samfélagið, viðhalda kaupmætti launafólks og auka fjölbreytni atvinnulífsins og það er ljóst að það verður ekki gert með krónuna sem gjaldmiðil. Það er full reynt. Ef við förum ekki að viðurkenna það þá blasir ekkert við nema stöðnun, einangrun og rýrnun lífskjara.

Kjósum betri lífskjör

Það er samfæring mín að fyrir launafólk og almenning yrði það mikill kjarabót að tengja krónuna við evru. Það myndi ekki aðeins bæta lífskjör allra heldur skapa fyrirsjáanleika og stöðugleika sem við þráum að fá í fjármál okkar. Það er nefnilega þannig að rekstrarumhverfi heimila og fyrirtækja haldast í hendur og þau hafa sömu hagsmuni af breytingunni. Allir munu græða á henni.

Eins eigum við að ljúka aðildarviðræðunum við Evrópusambandið og fá að kjósa um þann samning. Ekki gleyma því að það er okkar val að segja já eða nei við honum. Við fáum þá loksins að sjá hvað er rétt eða rangt varðandi það sem hefur verið fullyrt í umræðunni um aðild að sambandinu.

 

Sköpum nýja framtíð

Það er löngu orðið tímabært að við förum að hugsa til framtíðar og finna leiðir sem geta aukið samkeppnishæfni og fjölbreytni atvinnulífsins og um leið aukið kaupmátt launa með lægri vöxtum, lækkun matvæla, losað okkur við fákeppnina  auk margra annarra þátta sem hafa áhrif á lífskjör okkar.

Þá verður miklu léttara fyrir okkur að vinna okkur út úr vandamálunum samfélagsins, ekki vantar verkefnin sem þarf að leysa en til þess þarf aukið fjármagn í aðþrengdan ríkissjóð og fjárvana sveitarfélög.

Viljum við ekki nýja framtíðarsýn þar sem við sem samfélag stöndum jafnfætis eða jafnvel framar öðrum þjóðum með samkeppnishæft fjölbreytt atvinnulíf, betri lífskjör, gott heilbrigðiskerfi fyrir alla og til fyrirmyndar í umhverfismálum?

Við hjá Viðreisn erum með skýra stefnu inn í framtíðina og um leið lausnir sem virka og munu auka hagsæld allra.

Tökum skrefið inn í nýja framtíð og kjósum Viðreisn.

Höfundur skipar fjórða sæti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 2. september 2021