Lóðir, vextir og pólitík

Hækkaði Seðlabankinn vexti um daginn af því að skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa ekki verið nógu dugleg að útvega lóðir undir húsnæði? Það ætti ekki að vera flókið að fá svar við þessari spurningu. Svar sem ekki er litað af pólitík og þeirri staðreynd að sveitastjórnarkosningar eru á næsta leiti.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur haldið því fram að ákvörðun Reykjavíkurborgar um að byggja ekki íbúðahverfi á nýju landi sé ástæða hækkandi fasteignaverðs sem sé síðan helsta orsök hækkandi verðbólgu. Vaxtahækkanir séu svo nauðsynlegar til að hafa hemil á verðbólgunni.

Hér vantar stóran kafla í söguna. Líkt og flest önnur vestræn hagkerfi brást hið íslenska við með vaxtalækkunum þegar hér fór allt í lás í upphafi síðasta árs vegna Covid. Eins og annars staðar höfðu þær vaxtalækkanir áhrif til hækkunar á húsnæðisverði. Til viðbótar við vexti í sögulegu lágmarki var hér kaupmáttur í sögulegu hámarki og aukinn stuðningur við fyrstu íbúðakaup. Þessar aðstæður leiddu m.a. til hliðrunar á eftirspurn frá leiguhúsnæði yfir í eignahúsnæði. Vaxtalækkanir og breytt neysluhegðun leiddu þannig hækkun á húsnæðisverði.

Byggingamarkaður verður aldrei mjög skilvirkt hagstjórnartæki. Það fer auðvitað best á því að sem mestur stöðugleiki ríki enda tekur skipulags- og byggingartími nýrra hverfa langan tíma og ekki auðvelt að bregðast hratt við örum sveiflum í eftirspurn. Seðlabankinn getur því ekki vísað ábyrgð á viðbrögðum við áhrifum vaxtalækkana á sveitarfélögin. Það að skipulagsyfirvöld í Reykjavík vilji til dæmis stýra uppbyggingu húsnæðis og nýrra hverfa er ekki áhyggjuefni. Það er hins vegar áhyggjuefni að frá því fyrir tíma Covid hefur verðbólga hér mælst yfir verðbólgumarkmiðum eða í 32 af síðustu 36 mánuðum.

Vaxtalækkanirnar í fyrra voru því miður ekki vegna hagstæðra verðbólguhorfa heldur vegna niðursveiflu í hagkerfinu í boði Covid. Nú þegar aftur sér til sólar þar er rétt að hækka vexti aftur því blessuð verðbólgan okkar er enn í fullu fjöri. Peningastefnan sem örvaði hagkerfið á tímum faraldursins á ekki lengur við. Nú þarf aftur að takast á við að ná settum verðbólgumarkmiðum. Það er verkefni Seðlabankans.

Undanfarið hafa fullyrðingar og upphrópanir ýmissa hagsmunaaðila í tengslum við húsnæðismál og vaxtaákvarðanir ekki allar verið sérstaklega málefnalegar. Að halda sig við að meintur lóðaskortur í Reykjavík sé ástæða verðbólgu og vaxtahækkana er vægast sagt einföld söguskýring sem vekur einfaldlega upp spurningar um hvað liggi þar að baki. Kannski má finna svarið í einhvers konar Reykjavíkurheilkenni í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga frekar en málefnalegri hagsmunagæslu?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. október 2021