Samtal um stöðugleika

Þorsteinn Pálsson

Með inngöngu þingmanns Miðflokksins í Sjálfstæðisflokkinn á dögunum er hluti Miðflokksins sjálfkrafa kominn með aðild að stjórnarsamstarfinu.

Það mun þó ekki hafa merkjanleg áhrif á samtal stjórnarflokkanna um framhald á samstarfinu.

Vægi frjálslyndra hugmynda minnkar

Hitt er annað að þessi vistaskipti styrkja til muna íhaldssamari væng Sjálfstæðisflokksins. Vægi frjálslyndra viðhorfa léttist að sama skapi. Eins veikir þetta siðferðilega ímynd Sjálfstæðisflokksins því engum getur dulist að þingmaðurinn, sem í hlut á, villti á sér heimildir í kosningunum.

Þó að þessi sérstaki pólitíski viðburður hafi ekki áhrif á viðræður um framhald stjórnarsamstarfsins er líklegt að aukinn styrkur íhaldssamrar hugmyndafræði muni hafa áhrif á framkvæmd þess, sem um verður samið og lausn þeirra viðfangsefna, sem upp koma.

Það sem tengt hefur stjórnarflokkana þrjá eru íhaldssöm viðhorf í þeim öllum gegn hvers kyns breytingum á ákveðnum sviðum. Að því leyti styrkist grundvöllur samstarfsins.

Samstaða um að vera á móti

Vandi stjórnarflokkanna hefur hins vegar falist í hinu, að undirstaða þeirra byggir á ólíkri hugmyndafræði. Þeir geta því ekki komið sér saman um heilsteypta og markvissa stjórnarstefnu nema um þá hluti, sem þeir eru á móti.

Þetta kom ekki verulega að sök fyrir fjórum árum. Þegar ríkisstjórnin tók við hafði samkeppnisstaða útflutningsgreina verið bætt talsvert. Hagvöxtur var umtalsverður. Að auki hafði ríkissjóður skömmu áður tekið við gífurlegum fjárhæðum frá erlendum kröfuhöfum.

Við þessar aðstæður var unnt að mynda ríkisstjórn án þess að fylgja markvissri efnahagsstefnu. Kjósendur vildu pólitískan stöðugleika. Og stjórnin svaraði því kalli. Úrslit kosninganna 2017 gáfu ekki kost á öðrum raunhæfum möguleikum.

Fleiri möguleikar

Núna eru möguleikarnir fleiri. Það er unnt að mynda ríkisstjórnir, sem eiga ríkari hugmyndafræðilega samleið. En pólitískar aðstæður af ýmsu tagi eru Þrándur í Götu þess.

Fyrir kosningar lá til að mynda í loftinu að VG og Framsókn myndu eiga áframhaldandi samleið, hvort sem stjórnin héldi velli eða ekki. Sigur Framsóknar virðist ekki hafa breytt þessari stöðu.

Ein afleiðing af því er sú að Sjálfstæðisflokkurinn á ekki möguleika á að komast í ríkisstjórn nema með VG.

Sé þetta mat rétt hefur forsætisráðherra alla þræði í hendi sinni í þeim samtölum sem nú fara fram. Fróðlegt verður að sjá hvort það hefur meiri áhrif á skiptingu verkefna eða stefnumótun.

Breyttar aðstæður

Það verður tiltölulega auðvelt fyrir stjórnarflokkana að ná saman um áframhaldandi pólitískan stöðugleika. Aftur á móti verður miklu snúnara að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Aðstæður til þess eru með allt öðru móti nú en fyrir fjórum árum.

Strax árið 2019 var kominn halli á ríkissjóð. Sá slaki breyttist svo í gríðarlegan skuldavanda í heimsfaraldrinum. Hjá því var ekki komist.

Verðbólgan er nærri tvöfalt meiri en viðmið stjórnvalda gerir ráð fyrir.

Viðspyrna efnahagslífsins hefur verið heldur slakari en hjá helstu samkeppnislöndunum. Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja er einfaldlega ekki nógu sterk.

Stjórnarflokkarnir ræddu ekki ríkisfjármál og efnahagsmál í kosningabaráttunni. En nú þarf að móta mjög skýra stefnu, sem líkleg er til að styrkja samkeppnishæfni atvinnulífsins. Eins þarf að móta skýra og trúverðuga stefnu í ríkisfjármálum.

Pólitískur stöðugleiki án efnahagslegs stöðugleika?

Efnahagslegur stöðugleiki verður heldur ekki tryggður nema ríkisstjórnin geri strax í upphafi grein fyrir launastefnu sinni. Stefnumótun á því sviði mun hafa afgerandi þýðingu fyrir framhaldið.

Formaður BHM vakti athygli á því nýlega að laun þyrftu að hækka um allt að níu prósent til þess eins að halda óbreyttum kaupmætti þegar samningar þess renna út eftir rúma fjórtán mánuði. Stjórnarsáttmáli þarf að geyma svar við því hvort það er mögulegt og þá með hvaða ráðum, ef ekki á að raska stöðugleikanum.

Fram til þessa virðast viðræður stjórnarflokkanna mest snúast um liðna tíð; þau mál, sem þeir gátu ekki leyst á síðasta kjörtímabili. Litlar fréttir hafa enn verið sagðar um mótun heildstæðrar efnahagsstefnu fyrir framtíðina.

Svo gæti því farið að þjóðin fái framhald á pólitískum stöðugleika án efnahagslegs stöðugleika.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. október 2021