Þétting styrkir innviði

Þola innviðirnir uppbygginguna?“ er gjarnan spurt þegar byggð er þétt.

Svörin eru auðvitað ólík eftir innviðum en sumir innviðir eru samt dálítið eins og vöðvar: þeir ekki bara þola aukið álag heldur þurfa beinlínis á álaginu að halda, annars hverfa þeir. Dæmi um slíka innviði eru verslun og þjónusta. Ef íbúum fækkar eða ef þeir hætta að versla í hverfinu þá deyr verslunin. Ef enginn vill mæta á kaffihúsið, þá deyr kaffihúsið. Ef engin börn eru eftir til að æfa handbolta, þá hættir handboltadeildin.

Færri búa í hverri íbúð

Flest hverfi ganga í gegnum svipaða hringrás lýðbreytinga. Hverfin verða oftast fjölmennust á sínum fyrstu árum. Síðan fækkar íbúum þeirra eftir því sem börn vaxa úr grasi og flytja að heiman. Oft kemur annar lítill toppur þegar ný kynslóð flytur inn í hverfið. Eftir það nær hverfið langtímajafnvægi.

Í kringum 1980 bjuggu 30 þúsund manns í Breiðholtinu. Nú eru Breiðhyltingar um 22 þúsund. Húsum hefur ekki fækkað og hafa íbúðir ekki horfið. Hverfið er einfaldlega orðið eldra og færri búa í hverri íbúð. Fleiri voru því að baki þjónustu hverfisins á upphafsdögum þess en eru í dag. Annað dæmi: Í Hvassaleitisskóla og Álftamýrarskóla eru nú samtals um 600 nemendur en voru um 1.700 árið 1970. Tímarnir eru auðvitað breyttir, skólarnir orðnir einsetnir og kröfur um húsnæði allt aðrar. En punkturinn er að mörg hverfi hafa séð talsvert meiri barnafjölda en þann sem myndi fylgja hóflegri þéttingu.

Sterkari og sjálfbærari hverfi

Borgarstjórn framlengdi nýlega gildistíma aðalskipulags til 2040. Með aðalskipulaginu er lögð áframhaldandi áhersla á þéttingu byggðar og grænar samgöngur. Áherslur hverfisskipulagsins, sem unnið er að að samþykkja í mörgum hverfum borgarinnar, eru samhljóma þeirri stefnu sem kemur fram í aðalskipulagi. Markmiðið er sterkari og sjálfbærari hverfi, með betra framboði af verslun og þjónustu, um alla borg.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. október 2021