Aukahæðin borgar lyftu

Á þeim tíma sem Breiðholtið byggðist upp var í gildi bygg­ing­ar­reglu­gerð sem gerði kröfu um lyft­ur í þeim fjöl­býl­is­hús­um sem voru fimm hæðir eða fleiri. Niðurstaðan? Flest fjöl­býl­is­hús urðu akkúrat fjór­ar hæðir. Þannig mátti spara bygg­ing­ar­kostnað og ung­ir íbú­ar hús­anna létu sig hafa stig­ann.

Nú, ára­tug­um síðar, búa þúsund­ir Reyk­vík­inga í lyftu­laus­um fjög­urra hæða fjöl­býl­is­hús­um. Fólk eld­ist og stig­inn orðinn að hindr­un. Marg­ir kom­ast ekki auðveld­lega leiðar sinn­ar og þurfa að flytja af heim­il­um sín­um fyrr en þeir hefðu ann­ars þurft.

Þetta birt­ist líka í verðmæti íbúðanna. Út frá formúlu fyr­ir fast­eigna­mat má sjá að reiknað verðmæti íbúðar á 2. hæð eykst um 7% með aðgangi að lyftu. Á 3. hæð er hækk­un­in orðin 15% og 23% á þeirri fjórðu. Og þótt það sé kannski ekk­ert sér­stakt kapps­mál að hækka íbúðaverð þá end­ur­spegl­ar þessi verðmun­ur ein­fald­lega þann mun á gæðum sem kaup­end­ur telja að fel­ist í aðgangi að lyftu.

Með hverf­is­skipu­lag­inu sem hef­ur þegar verið samþykkt í Árbæ og er að klár­ast í Breiðholti eru veitt­ar heim­ild­ir til að bæta lyft­um við fjöl­býl­is­hús og fyr­ir því að bæta við inn­dregn­um hæðum ofan á blokk­irn­ar sem leið til að borga gerð lyft­unn­ar og mögu­lega gott bet­ur.

Margt þarf auðvitað að ganga upp til að þetta geti gengið upp. Íbú­arn­ir þurfa að sam­mæl­ast um slík­ar viðbæt­ur og mögu­lega semja sín á milli um ým­is­legt. Aug­ljóst er til dæm­is að þótt raskið af fram­kvæmd­un­um geti verið svipað fyr­ir alla er ávinn­ing­ur­inn mjög mis­jafn eft­ir því hve hátt fólk býr. Síðan þarf auðvitað að hanna, fjár­magna og fram­kvæma verkið sem get­ur allt verið flókið. En ef vel geng­ur munu verða til sér­hæfðir aðilar sem öðlast reynslu af svona verk­efn­um og munu bjóða hús­fé­lög­um þjón­ustu sína.

Bætt aðgengi að fleiri íbúðum er mark­mið sem Reykja­vík vill vinna að. Á end­an­um verður frum­kvæðið og áhug­inn auðvitað að koma frá sjálf­um íbú­un­um, án þeirra áhuga ger­ist ekk­ert. En borg­in mun sjá til þess að þar sem sá áhugi er fyr­ir hendi muni fólk ekki þurfa að ráðast í dýr­ar breyt­ing­ar á deili­skipu­lagi til að koma fyr­ir lyftu eða auka­hæð til að greiða fyr­ir hana. Heim­ild­in fyr­ir hvoru tveggja verður þegar kom­in í hverf­is­skipu­lag­inu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. nóvember 2021