Fjárfest í framtíðinni

Í gær lögðum við fram í fjórða sinn fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar. Við höfum áfram þá skýru langtímasýn að fjármál borgarinnar eigi að einkennast af sjálfbærni og varfærni. Hættan var að bregðast við Covid-vandanum einungis með niðurskurði og baklás og draga þannig úr þjónustu við íbúa Reykjavíkur.

Meirihlutinn í borginni kaus að fara aðra leið, sem byggir á því að efla þjónustuna og bæta, með hagsmuni borgarbúa í fyrirrúmi. Í fjárhagsáætlun næsta árs ætlum við sérstaklega að fjárfesta í grænum verkefnum, skólum og velferð.

Við ætlum að fjárfesta um 25 milljörðum í grænar fjárfestingar á öllum sviðum borgarinnar, til að stuðla að markmiði Reykjavíkurborgar um kolefnishlutleysi.

Fjárfesting í skólum

Við ætlum líka að fjárfesta í menntun barnanna okkar og unglinga. Við boðum stórátak í fjárfestingu í viðhaldi skólabygginga, í viðbyggingar og endurbætur á skólum, skólalóðum og mötuneytum skóla.

Við höfum séð hversu alvarlegt það er að safna upp viðhaldsskuld og þangað viljum við ekki stefna. Við ætlum að verja 4 milljörðum í að fjölga leikskóladeildum, til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólavistunar fyrir enn fleiri börn og í þeim hverfum þar sem biðlistar eru lengstir.

Við ætlum að fjárfesta í tölvum og stafrænni tækni fyrir leikskóla, grunnskóla og frístund. Við ætlum í stafræna umbreytingu á innritun í leikskóla og frístund barna og í umsókn um skólaþjónustu, á forsendum notenda.

Við ætlum líka að setja 1,5 milljarða í rekstur grunnskóla, sem er sú upphæð sem nýtt úthlutunarlíkan grunnskóla Reykjavíkur segir að þurfi til að fullfjármagna grunnskólana okkar.

Með úthlutunarlíkaninu munu skólastjórnendur fá aukið faglegt frelsi, og ábyrgð til að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda með teymisstarfi fagfólks á sviðum velferðar, heilbrigðis og skóla.

Þannig verður þörfum hvers skóla og skólaumhverfis betur mætt og dregið er úr aðstöðumun á milli skóla.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. nóvember 2021