Kröftug sveitarfélög veita betri þjónustu

Sveit­ar­fé­lög sinna mik­il­vægri grunnþjón­ustu fyr­ir íbúa sína. Í flest­um sveit­ar­fé­lög­um veg­ur rekst­ur grunn- og leik­skóla þyngst, um 40-60% af út­svar­s­tekj­um. Einnig eru ýmis vel­ferðar­mál, sér­stak­lega þau sem snúa að fötluðum, öldruðum og fólki af er­lend­um upp­runa. Sveit­ar­fé­lög­in eru nær íbú­um en ríkið og því eðli­legt að þau taki að sér nærþjón­ust­una, þá þjón­ustu sem fólk þarf í sínu dag­lega lífi, og miðast að þeirri bú­setu sem fólk hef­ur valið sér.

Samþætt­um heimaþjón­ustu aldraðra

Skipt­ing þjón­ustu milli rík­is og sveit­ar­fé­laga get­ur verið flók­in fyr­ir þeim sem þurfa á þjón­ust­unni að halda. Sér­stak­lega á þetta við þegar þörf­in er á mörk­um heil­brigðisþjón­ustu, sem ríkið veit­ir, og vel­ferðarþjón­ustu sveit­ar­fé­laga.

Sem dæmi má nefna fé­lagsþjón­ustu og heima­hjúkr­un aldraðra og fatlaðra, þar sem ríki og sveit­ar­fé­lag geta mæst í dyra­gætt­inni án þess að tala sam­an. Einnig er það ýmis þjón­usta við börn sem ým­ist er veitt af sveit­ar­fé­lagi eða ríki. Þessi skipt­ing get­ur leitt til þess að ákveðna yf­ir­sýn yfir þarf­ir ein­stak­lings­ins sem á að njóta þess­ar­ar þjón­ustu skort­ir.

Við þessu hef­ur verið brugðist í Reykja­vík með sam­starfi og samn­ingi við ríkið um samþætt­ingu fé­lagsþjón­ustu og heima­hjúkr­un­ar fyr­ir aldraða. Þessa þjón­ustu, sem mik­il ánægja er með, er hægt að veita í öfl­ugu sveit­ar­fé­lagi, sem er í stakk búið að tak­ast á við meira en lög­bund­in verk­efni krefjast, í þágu aldraðra íbúa.

Auk­in þjón­usta heima­hjúkr­un­ar fyr­ir aldraða

Í vik­unni fékk borg­ar­ráð til um­fjöll­un­ar breyt­ingu á sam­komu­lagi við Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands um að út­víkka þjón­ustu öldrun­art­eym­is í heima­hjúkr­un, svo hún verði í boði alla daga vik­unn­ar og fram til kl. 20.00 um helg­ar. Áhugi er fyr­ir því að út­víkka þetta sam­starf Reykja­vík­ur­borg­ar og Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins á samþættri heimaþjón­ustu, með það að mark­miði að hún nái til allra íbúa höfuðborg­ar­svæðis­ins. Komi til slíks, þarf að und­ir­búa slíkt sam­starf vel og sjá til þess að hún leiði ekki til verri þjón­ustu til þeirra sem þegar njóta henn­ar.

Styrkj­um sveit­ar­stjórn­arstigið til að veita betri þjón­ustu

Um land allt þarf að styrkja sveit­ar­stjórn­arstigið, með sam­ein­ingu og sam­vinnu sveit­ar­fé­laga til að þau verði nógu kröft­ug til að geta veitt þá þjón­ustu sem nú­tím­inn krefst. Í for­grunni þarf að vera þjón­usta við íbúa og hvernig hægt sé að tryggja inn­gild­ingu allra íbúa í sam­fé­lagið. Í því verk­efni þurfa sveit­ar­fé­lög­in að teygja sig aðeins lengra til að tryggja inn­gild­ingu fatlaðra og fólks af er­lend­um upp­runa og viðhalda virkni aldraðra í sam­fé­lag­inu.

Mjög lít­il sveit­ar­fé­lög hafa ekki, sem stjórn­sýslu­ein­ing, burði til að veita þessa þjón­ustu. Þrír kost­ir geta þá verið í stöðunni: Að sveit­ar­fé­lagið kaupi þjón­ust­una af stærra sveit­ar­fé­lagi eða byggðasam­lagi; að íbú­arn­ir sem þurfa þjón­ust­una og fjöl­skyld­ur þeirra flytji burt; eða að íbú­arn­ir sætti sig við að fá minni þjón­ustu en þeir eiga rétt á og geta fengið ann­ars staðar.

Skuld­in verður alltaf ein­hvers staðar til

Með því að gera vel frá upp­hafi get­um við búið til heil­brigðari um­gjörð til að gefa öll­um auk­in tæki­færi. En ef við rek­um þessi vel­ferðar­kerfi alltaf á tak­markaðri getu, þá erum við að búa til skuld og aukið álag ann­ars staðar í heild­ar­mynd­inni. Við þurf­um í þessu að taka til greina þjóðhags­legu áhrif­in þegar fjöl­skyld­ur fatlaðra barna þurfa að taka á sig aukið álag vegna þjón­ustu sem þau þurfa en eru ekki að fá. Sama má segja um fjöl­skyld­ur aldraðra ein­stak­linga sem taka að sér aukna umönn­un, því heimaþjón­ust­una skort­ir.

Reikn­um rétt

Í kosn­inga­bar­átt­unni í haust heyrðist öðru hvoru talað um mik­il­vægi þess að end­ur­skoða tekju­stofna sveit­ar­fé­laga. Um þetta eru flest­ir sam­mála enda al­mennt ljóst að tekju­stofn­arn­ir eru of grunn­ir í ljósi þeirra um­fangs­miklu verk­efna sem flutt hafa verið frá ríki til sveit­ar­fé­laga, án þess að fjár­mun­ir hafi fylgt. Af því leiðir að vel­ferðar­kerfið um allt land er rekið af tak­markaðri getu.

Við vit­um að sveit­ar­fé­lög­in vant­ar veru­lega upp á, frá rík­inu við fjár­mögn­un þjón­ustu við fatlaða. Það eru ný­leg­ar skýrsl­ur sem sýna að hjúkr­un­ar­heim­ili geta ómögu­lega veitt þá þjón­ustu sem ríkið kref­ur þau um, með því fjár­magni sem ríkið veit­ir til þeirra. Niðurstaðan hef­ur verið að sveit­ar­fé­lög víða um land eru að gefa frá sér rekst­ur hjúkr­un­ar­heim­ila, því þau hafa ekki burði til að niður­greiða rekst­ur­inn sjálf þó svo þau vilji gjarn­an veita öldruðum íbú­um sín­um af­bragðsþjón­ustu.

Þörf­in fyr­ir aukið fé í þessa mála­flokka, sem aðra, mun aldrei deyja. En ef sú rík­is­stjórn sem nú er að ná sam­an um áfram­hald­andi sam­starf næstu fjög­ur árin tek­ur lepp­inn frá aug­anu get­um við von­andi sam­mælst um hvað þess­ir mála­flokk­ar kosta í raun. Það geng­ur ekki til lengd­ar að sveit­ar­fé­lög­um séu færð mik­il­væg verk­efni um nauðsyn­lega nærþjón­ustu án þess að rétt út­reiknað fjár­magn fylgi þeim.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. nóvember 2021