Menntun, menntun, menntun

Fjárhagsáætlun næsta árs sýnir berlega áherslur núverandi meirihluta í Reykjavík. Við ætlum að fjárfesta í börnunum okkar og unglingum með því að veita fjármunum í auknum mæli í menntun barna, skólaumhverfi þeirra og aðstöðu. Nám er ekki bara skrifborð og stóll, heldur þarf námsumhverfið allt að vera hvetjandi á mörgum sviðum.

Ég fékk nýlega þann heiður að veita Árbæjarskóla verðlaun fyrir sigur í Skrekk, árlegri hæfileikakeppni grunnskólanemenda í Reykjavík. Ég vil óska þeim nemendum innilega til hamingju með sinn árangur. En þarna á sviðinu sá ég hvað við eigum ótrúlega hæfileikarík börn, með hjartað á réttum stað, sem munu svo sannarlega eiga eftir að ná langt. Ekki bara í Árbæjarskóla heldur í skólum um alla borg. Við þurfum að rækta hæfileika hvers barns í skólunum.

Stórátak í viðhaldi

Í kjölfar efnahagshrunsins var ákveðið að spara í viðhaldi og fjárfestingum skólabygginga og fjárfesta frekar í mannauði og skólastarfi. Það hefur tekið langan tíma að vinda ofan af þeirri viðhaldsskuld sem myndaðist og nú þarf að taka skrefinu lengra. Reykjavíkurborg hefur því látið meta ástand allra skólabygginga í borginni, leikskóla, grunnskóla og frístund, og greint hvar viðhalds er þörf. Hægt er að skoða niðurstöður fyrir hverja skólabyggingu á vef Reykjavíkurborgar.

Þessar niðurstöður verða notaðar til að ráðast í risastórt viðhaldsátak, þar sem viðhaldsskuld undanfarinna ára verður greidd. Til að nýta tíma, mannafla og fjármagn með sem bestum hætti verður viðhaldinu forgangsraðað eftir ástandi húsnæðis, þar sem horft verður, í þessari röð, á öryggi; rakamál; ytra byrði, klæðningar, þök og glugga; loftræstingu; hljóðvist, ljósvist o.fl.; og aðgengismál. Með því að leggja 25-30 milljarða í viðhald á næstu fimm árum vonumst við til að standa á jöfnu í viðhaldi skólabygginga og að börnin okkar muni búa við mun meira öryggi og heilnæmara húsnæði í öllum skólabyggingum.

Fjárfestum í leikskólum og stafrænni tækni

Við ætlum að verja 4 milljörðum í að fjölga leikskóladeildum, til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólavistunar fyrir enn fleiri börn og í þeim hverfum þar sem biðlistar eru lengstir.

Stafræna byltingin mun ná til skólanna því við ætlum að fjárfesta í tölvum og stafrænni tækni fyrir leikskóla, grunnskóla og frístund til að bæta námsumhverfið.

Við ætlum líka í stafræna umbreytingu fyrir foreldra, með umbyltingu á innritun í leikskóla og frístund barna og í umsókn um skólaþjónustu, á forsendum notenda.

Fjárfestum til að mæta fjölbreyttum þörfum

Við þurfum líka að horfa á innra starf skólanna og rekstur. Því ætlum vð að bæta við 1,5 milljarði á hverju ári í rekstur grunnskóla. Það er sú upphæð sem nýtt úthlutunarlíkan grunnskóla Reykjavíkur segir að þurfi til að fullfjármagna grunnskólana okkar. Ég fékk þann heiður að leiða gerð þessa nýja úthlutunarlíkans og fá þannig innsýn inn í þau fjölbreyttu verkefni sem mæta grunnskólakennurum á hverjum degi.

Nýr formaður Kennarasambands Íslands, Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla átti stóran þátt í að koma þessu nýja líkani á og áttum við þar gott samstarf. Með úthlutunarlíkaninu munu skólastjórnendur fá aukið faglegt frelsi, og ábyrgð, til að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda með teymisstarfi fagfólk á sviðum velferðar, heilbrigðis og skóla. Þannig verður þörfum hvers skóla og skólaumhverfis betur mætt, og dregið er úr aðstöðumun á milli skóla.

Það er því bjart yfir skólastarfi í Reykjavík og námsumhverfi barnanna.

Greinin birtist fyrst í hverfablöðum Reykjavíkur í nóvember 2021