Nýtt hverfisskipulag

Nýlega voru kynntar vinnutillögur fyrir hverfisskipulag Háaleitis- og Bústaðahverfis og var þeim fylgt eftir með hverfisgöngum og fjölmennum fundi í Réttarholtsskóla. Ég hef tekið þátt í umræddum viðburðum og jafnframt átt mörg ánægjuleg samtöl við íbúa hverfis sem hafa lýst sínum skoðunum sínum á tillögunum og öðru. Fyrir öll þau samtöl vil ég þakka.

Hverfisskipulagið á sér nokkuð langan aðdraganda en fyrsti fasi samráðsins, hugmyndaleitin hófst fyrir 5-6 árum síðan. Þótt hugmyndir íbúa hafi verið margar og ólíkar voru engu að síður nokkur stef sem endurtóku sig oft. Talsverð eftirspurn var eftir aukinni þjónustu inn í hverfið, margir íbúar lýstu áhyggjum af þungri umferð í nærumhverfi sínu, óskir komu fram um fjölbreyttari íbúðarkosti í hverfinu auk þess sem ákall var um að fá sundlaug í Fossvoginn.

Borgargata við Grímsbæ

Eftir birtingu vinnutillagnanna hefur mikil umræða spunnist um hugmyndir að nýjum húsum við Bústaðaveg hjá Grímsbæ sem hýst gætu íbúðir í bland við þjónustu. Vert er að taka fram að þótt það sé stefna borgarinnar að þétta byggð og fjölga íbúðum í grónum hverfum þá er það ekki í sjálfu sér meginmarkmið hverfisskipulagsins eða hugmyndanna við Grímsbæ.

Hugmyndirnar ganga fyrst og síðast út á það að skapa betri borgarbrag og mannvænna umhverfi með lægri umferðarhraða, minni hávaða og götu sem betra er fyrir gangandi vegfarendur að labba yfir. Í dag fer mikið rými á svæðinu undir götur og malbik og vel er hægt að nýta það betur með betra skipulagi jafnvel án þess að fækka endilega bílastæðum íbúa og annarra gesta.

Innviðir styrkjast

Það er þekkt að þjónusta styður gjarnan hver við aðra. Ef fullt er á veitingastaðnum sem við ætluðum á erum við líkleg til að prófa annan sem er nálægt. Fólk er líklegra að leggja leið sína í verslun ef að önnur vinsæl þjónusta er á svæðinu. Með fjölgun þjónusturýma við Bústaðarveg er hægt að styrkja þann hverfiskjarna sem fyrir er.

Í vinnutillögunum eru hugmyndir eru settar fram um rúmlega 140 íbúðir beggja vegna Bústaðarvegar. Þess má geta að margar íbúðir hafa bæst við í hverfinu á undanförnum árum og ýmislegt er í pípunum. Lokið hefur verið við byggingu hátt í 400 íbúða á RÚV-reit. Við fullbyggðan Skógarveg verða hátt í 300 íbúðir. Á Kringlusvæðinu eru áform um 500 íbúðir, og það einungis í fyrsta áfanga þess verkefnis.

Innviðir hverfisins, til dæmis skólar, geta vel borið þessar viðbætur en mun færri börn búa nú í hverfinu en þegar það var hvað fjölmennast. En líkt og áður sagði snúast tillögurnar við Bústaðaveg ekki um fjölgun íbúa í sjálfu sér því mörg svæði innan hverfis geta bætt við mun fleiri íbúum og eru skipulagslega einfaldari. Tillögurnar ganga fyrst og síðan út á bættan borgarbrag.

Sundlaug í Fossvogi

Þegar búið verður að taka í notkun nýja sundlaug í Úlfarsárdal verður Háaleitis- og Bústaðahverfi í raun eina hverfi borgarinnar án sérstaks sund- eða baðstaðar. Það stendur til að bæta úr því og búið er að efna til hönnunarsamkeppni um nýja Fossvogslaug í samstarfi við Kópavog. Reiknað er með að nýja laugin verði byggð samkvæmt grænum stöðlum og að staðsetning og hönnun hvetji til að þess að fólk heimsæki hana gangandi eða hjólandi. Fáir staðir henta betur til þess en einmitt Fossvogur sem er ein glæsilegasta græna samgönguæð á landinu öllu.

Að lokum

Hugmyndafræði hverfisskipulags gengur út á að skoða gróin hverfi heildstætt, og kortleggja tækifæri til að gera þau vistvænni og sjálfbærari. Samráð er lykilþáttur í hverfisskipulaginu og það er
mjög ánægjuleg hve mikil umræða hefur skapast um hverfisskipulag á hverjum stað. Ég hvet alla þá sem vilja lýsa skoðun sinni á vinnutillögum hverfisskipulagsins að senda athugasemdir á skipulag@ reykjavik.is. Umsagnarfrestur er til 26. nóvember og við fögnum jafnt lofi sem lasti. Til þess er leikurinn gerður!

Greinin birtist fyrst í Laugardal, Háaleiti & Bústaðir 20 nóvember 2021