Viðreisn í Rangárvallasýslu stofnað

Stofnfundur Viðreisnar í Rangárvallasýslu var haldinn í dag á Hellu. „Þetta er kærkomin viðbót í stjórnmálaflóru Rangárvallasýslu sem vonandi glæðir lífi og litum í sveitarstjórnarmálin á svæðinu. Hér er þörf og rými fyrir frjálslynt stjórnmálaafl á svæðinu,“ segir Bjarki Eiríksson, sem kjörinn var formaður félagsins á fundinum. Einnig voru Azfar Karim og Erla Sigríður Sigurðardóttir kjörin í undirbúningsstjórn.

„Við megum fagna því að loksins hefur frjálslyndið vaknað á svæðinu með stofnun Viðreisnar í Rangárvallasýslu, svæði sem þekktara hefur verið fyrir íhaldssemi og kyrrstöðustjórnmál. Með málefnalegri orðræðu, áherslu á gagnsæi í stjórnsýslunni og aga í opinberum fjármálum að vopni mun Viðreisn í Rangárvallasýslu skapa sér stóran sess í stjórnmálaflóru svæðisins.“

Viðreisn í Rangárvallasýslu nær til Rangarþings Ytra, Rangárþings Eystra og Ásahrepps og mun annast framboð Viðreisnar í sveitarstjórnarkosningunum á starfssvæðinu. Fólk sem áhugasamt er um að starfa með félaginu, getur sent tölvupóst á rangarthing@vidreisn.is