10 des Eru íþróttir besta forvörnin?
Við fáum oft að heyra að íþróttir séu besta forvörnin, en er það svo? Við getum aðeins treyst á forvarnargildi íþróttaástundunar þegar jafnrétti ríkir í allri sinni dýrð. Aðeins þá.
Eðli forvarna er að sporna við hvers konar áhættuhegðun, eða hegðun sem gæti dregið úr lífsgæðum og hamingju. Áföll og andlegt álag á borð við viðvarandi misrétti og ofbeldi geta stuðlað að áhættuhegðun og ýtt undir aðra kvilla á borð við kvíða, brotna sjálfsmynd og þunglyndi.
Á meðan #MeToo-bylgjan stóð sem hæst var það álit fólks að frásagnir af upplifun stúlkna og kvenna í íþróttum væru hvað mest sláandi. Þar afhjúpaðist hversu mikið kynjamisréttið hefur verið í gegnum tíðina.
En átakanlegast fannst mér að lesa um það kynferðisofbeldi sem hefur verið beitt og svo þaggað niður. Líkt og fram kemur hér að ofan geta slík áföll orðið algjör andhverfa þess sem forvarnir standa fyrir.
Í vikunni kom út skýrsla um kynferðislega áreitni og ofbeldi innan KSÍ og tillögur starfshóps til úrbóta innan hreyfingarinnar. Í skýrslunni blasir vandinn skýrt við og það er ósk mín að þessar tillögur marki tímabær tímamót í sögu íþrótta á Íslandi.
Í dag, 10.desember, er alþjóðlegur dagur mannréttinda og af því tilefni stendur Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar fyrir opinni málstofu um jafnrétti í íþróttum í Ráðhúsinu kl.9 – 10.30. Þar verða kynntar niðurstöður jafnréttisúttektar hverfisíþróttafélaga í Reykjavík, rætt um hinsegin fólk og íþróttir, aðgengi fólks af erlendum uppruna að íþróttum og fyrrnefnda skýrslu um KSÍ.
Við verðum að nýta þann mikla kraft sem umræða um kynjamisrétti í íþróttum hefur gefið okkur til að efla enn frekar forvarnagildi íþrótta, til að við öll getum stundað þær með þeirri vissu að jafnrétti ríki þar í öllum birtingarmyndum.