Eru loforð stjórnarsáttmálans fyrir öll börn?

Það er alltaf betra þegar lagt er af stað með góðum hug. Þann góða hug má víða sjá í stjórn­arsátt­mála nýrr­ar rík­is­stjórn­ar. Stefnt er að því að gera sam­fé­lagið okk­ar enn betra, þó óljós­ara sé hvernig rík­is­stjórn­in ætli að fram­kvæma það sem stefnt er að. Á stjórn­arsátt­mál­an­um má sjá að stjórn­in ger­ir sér grein fyr­ir að mörg þeirra verk­efna eru í raun á könnu sveit­ar­fé­laga og verða ekki að veru­leika nema í nánu sam­starfi við þau.

Fjöl­breytni sam­fé­lags efl­ir það og styrk­ir

Við í Viðreisn erum sam­mála rík­is­stjórn­inni þegar hún seg­ir að þátt­taka fólks af er­lend­um upp­runa auki fjöl­breyti­leika, efli ís­lenskt sam­fé­lag og menn­ingu og sé ein for­senda fyr­ir vexti efna­hags­lífs­ins. Það þarf að tryggja rétt­indi þeirra sem hingað vilja flytja, til þjón­ustu, náms og vinnu og leyfa þeim að búa sér til betra líf og taka virk­an þátt í sam­fé­lag­inu. Þannig verður allt sam­fé­lagið betra.

Það á að móta stefnu í mál­efn­um út­lend­inga sem miðar að því að fólk sem hér sest að hafi tæki­færi til aðlög­un­ar og virkr­ar þátt­töku í sam­fé­lag­inu og á vinnu­markaði. Sveit­ar­fé­lög­in hagn­ast öll á því að huga að inn­gild­ingu allra íbúa sinna, sama hver upp­runi þeirra er. Það að há­marka þátt­töku allra íbúa í sam­fé­lag­inu skipt­ir alls staðar máli. En til þess að sveit­ar­fé­lög­in geti stuðlað að virkri þátt­töku og inn­gild­ingu í sam­fé­lagið verða þau að hafa burði til þess. Það þarf bæði fjár­muni og fag­lega starfs­krafta með mik­inn stuðning til að sinna nauðsyn­leg­um verk­efn­um sem eiga að leysa úr læðingi það afl sem felst í íbú­um af er­lend­um upp­runa í þágu sam­fé­lags­ins alls.

Það á sér­stak­lega að styðja börn af er­lend­um upp­runa

Stjórn­arsátt­mál­inn til­tek­ur sér­stak­lega að rík áhersla verði lögð á stuðning til aðlög­un­ar við börn af er­lend­um upp­runa og fjöl­skyld­ur þeirra. Þar verði sér­stak­lega horft til skóla- og frí­stund­a­starfs og aðgengi aukið að ís­lensku- og sam­fé­lags­fræðslu. Við vit­um hversu mik­il­vægt það er fyr­ir börn­in, ef þau eiga að fá sömu tæki­færi og aðrir til mennt­un­ar, að fá stuðning í skól­um. Þetta er mik­il­væg stoð inn­gild­ing­ar í ís­lenskt sam­fé­lag. Þarna erum við al­veg sam­mála í orði. En eft­ir á að koma í ljós hvort það eigi líka við á borði.

Á bara að styðja helm­ing barn­anna?

Reykja­vík­ur­borg hef­ur þurft að höfða dóms­mál gegn ís­lenska rík­inu, því rík­is­valdið ákvað án laga­stoðar að Reykja­vík, eitt sveit­ar­fé­laga, gæti ekki fengið greiðslur úr Jöfn­un­ar­sjóði vegna skóla­starfs og kennslu barna af er­lend­um upp­runa. Ríkið hef­ur ennþá tæki­færi til að semja við Reykja­vík­ur­borg til að jafna stöðu barna af er­lend­um upp­runa um allt land. Þá samþykktu þess­ir rík­is­stjórn­ar­flokk­ar árið 2019 að breyta lög­um um Jöfn­un­ar­sjóð til þess eins að Reykja­vík­ur­borg geti ekki verið met­in á sömu for­send­um og önn­ur sveit­ar­fé­lög. Á fyrra kjör­tíma­bili þess­ar­ar rík­is­stjórn­ar virt­ist það því vera sér­stakt mark­mið henn­ar að tryggja börn­um í þessu eina sveit­ar­fé­lagi ekki sama stuðning og hún vildi tryggja börn­um í öll­um öðrum sveit­ar­fé­lög­um.

Helm­ing­ur allra inn­flytj­enda á Íslandi býr í Reykja­vík og tæp­lega helm­ing­ur allra barna á grunn­skóla­aldri, frá 6-16 ára. Þegar stjórn­arsátt­mál­inn til­tek­ur sér­stak­lega að styðja þurfi börn af er­lend­um upp­runa í skóla­kerf­inu, þá á þessi rík­is­stjórn Vinstri grænna, Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar­flokks von­andi við að styðja þurfi öll börn af er­lend­um upp­runa en ekki bara þann helm­ing barna sem býr utan Reykja­vík­ur.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. desember 2021