Hagsmunaöflin fá sviðið

Þorsteinn Pálsson

Stefna Besta flokksins er byggð á því besta úr öllum öðrum stefnum.

Við byggjum mest á stefnum sem lagt hafa grunninn að velferðarsamfélögum Norðurlandanna og Norður Evrópu. Það hljómar mjög vel núna …

Vegna þessa á Besti flokkurinn enn brýnna erindi en áður og mikilvægt að hann verði leiðarljósið við endurreisn efnahagslífs, stöðugleika, velferðar og bættra lífskjara, ljósberinn sem leiðir okkur úr myrkri fornalda og til framtíðar.

En við viljum líka viðhalda opnu markaðskerfi og frelsi í viðskiptum án afskipta hins opinbera.

Í raun erum við samt ekki með neina stefnu en við þykjumst vera með hana.“

Endurspeglun

Í fáum orðum er ekki unnt að endurspegla endurnýjaða stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar betur en með tilvitnun í þessa ellefu ára gömlu stefnuskrá Besta flokksins.

Hún leiddi þá til eins mesta stjórnmálasigurs á þessari öld. Komandi kjörtímabil getur í því ljósi heppnast vel. En það er háð heppni.

Á 57 blaðsíðum er allt upp talið, sem allir geta helst hugsað sér. Aftur á móti er hvergi sagt hvaða leið eigi að fara til að ná settum markmiðum. Þar sem markmiðin eru ósamrýmanleg er ekki mælt fyrir um forgang.

Niðurstaðan er þessi: Góður óskalisti, engin stefna, nema um þá hluti sem ekki má breyta.

Þau ráða

Hverjir munu þá fylla pólitíska tómarúmið og ráða för á kjörtímabilinu? Líklegt er að þrír kraftar togist helst á. Enginn þeirra hefur lýðræðislegt umboð.

Í fyrsta lagi verður Seðlabankinn, innan lögbundinna marka, eini opinberi aðilinn með skýra efnahagsstefnu. Peningastefna embættismanna verður miklu fyrirferðarmeiri þegar ríkisstjórnin er hlutlaus.

Í öðru lagi er hætt við að ytri áhrif eins og innflutt verðbólga verði ýktari en vera þyrfti, þegar ríkisstjórn fylgir engri mótaðri efnahagsstefnu.

Í þriðja lagi er ljóst að hagsmunaöfl á vinnumarkaði og í einstökum atvinnugreinum munu ráða mestu um framvindu mála. Næstu fjögur ár verður sviðið þeirra. Samkeppni þeirra um áhrif verður afar hörð.

Sigurvegarar

Óvenju stórtæk pólitísk kosningabarátta hagsmunasamtaka í haust var bara vísir að því sem koma skal.

Samtök atvinnulífsins eru sigurvegari nýja stjórnarsáttmálans.

Þau ná öllum þremur markmiðum sínum úr kosningabaráttunni: Óbreytt stjórn, skipt um heilbrigðisráðherra og pottlok á umræður um kerfisbreytingar.

Of lítill vöxtur

Í síðustu Vísbendingu skrifar aðalhagfræðingur Seðlabankans um nýjustu greiningu bankans. Þar kemur fram að hagvöxtur á næsta ári verður vel viðunandi. Vegna loðnu náum við þá aftur verðmætasköpun ársins 2019. Flest lönd á EES-svæðinu hafa þó verið heldur fyrri til.

Á árunum 2023 og 2024 reiknar bankinn hins vegar með meira en helmingi minni hagvexti. Það sem hættulegra er: Útlit er fyrir að utanríkisviðskiptin minnki hagvöxtinn. Við vöxum ekki út úr vandanum með því móti.

Vonin um að eitthvað betra gerist í raun sést ekki í stjórnarsáttmálanum. Hún ræðst alfarið af því hvaða hagsmunaöfl verða ríkjandi á næstunni eða hvað þau hugsanlega koma sér saman um.

Of mikil verðbólga

Aðalhagfræðingur Seðlabankans telur einnig að verðbólguhorfur eins og bankinn hefur lýst þeim geti verið of bjartsýnar.

Einn óvissuþáttur, sem hann nefnir í því sambandi eru ríkisfjármálin. Í stjórnarsáttmálanum er ekkert að finna, sem eyðir eða dregur úr þeirri óvissu.

Annar óvissuþáttur, sem aðalhagfræðingurinn bendir á, er framvinda kjaraviðræðna og þróun húsnæðisverðs. Í stjórnarsáttmálanum er engin launastefna. Að því leyti eykur hann verðbólguóvissuna.

Opnað fyrir höfrungahlaup

Hlutleysisstefna í efnahagsmálum galopnar dyr fyrir nýtt höfrungahlaup á vinnumarkaði.

Það er ekki þar með sagt að höfrungahlaup sé óumflýjanlegt. En það er fremur heppni, ef við sleppum við það.

Auðna okkar ræðst sem sagt ekki í lýðræðislegum kosningum heldur af hinu, hvaða hagsmunaöfl verða ofan á.

Hófsamar launahækkanir tryggja ekki einar og sér stöðugleika. Forsenda þeirra er stöðugur gjaldmiðill og skýr langtímastefna í húsnæðismálum, sem auðveldar ungu og efnalitlu fólki að eignast þak yfir höfuðið.

Ríkisstjórnin vill allt þetta. Hún eftirlætur bara öðrum að hafa forystu um hvort það gerist eða gerist ekki.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. desember 2012