Sýnum skattgreiðendum virðingu!

Ífyrstu ræðu minni á Alþingi nýlega hvatti ég þingmenn til að sýna skattgreiðendum þessa lands meiri virðingu.

Við skoðun fjárlagafrumvarpsins sést hvað rekstur ríkisins er orðinn umfangsmikill, flókinn og dýr. Í fjárlögum er lítið fjallað um hagræðingu og einföldun ríkisrekstrar, ekkert um fækkun ríkisstofnana, lítið um sparnað í ríkisrekstri og útvistun verkefna til einkaaðila er ekki á dagskrá.

Ísland er þegar orðið háskattaríki í alþjóðlegum samanburði. Við erum næst-skattpíndasta þjóðin í OECD samkvæmt nýlegri frétt. Skatttekjur hins opinbera voru um 33% af vergri þjóðarframleiðslu árið 2018. Miðað við núverandi launahlutfall þýðir það að launþegar eru í raun að vinna næstum hálfan daginn bara fyrir sköttum.

Ríkisreksturinn er orðinn ósjálfbær og var það áður en til heimsfaraldurs kom. Þá má benda á að stjórnvöld fengu nýlega falleinkunn í umsögn fjármálaráðs í tengslum við fjármálastefnuna til næstu fimm ára. Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim vanda sem við blasir er verulegt áhyggjuefni.

Skuldahlutfall ríkissjóðs fetar kunnuglegar slóðir í frumvarpinu og vextir af skuldum ríkisins eru nú orðnir fimmti stærsti kostnaðarliður ríkissjóðs og er það mikið áhyggjuefni.

Nauðsynlegt er að grípa til aðhaldsaðgerða og sparnaðar í ríkisrekstri og það strax.

Ef Ísland væri ehf.

Ef ríkisreksturinn væri fyrirtækið Ísland ehf. væri stöðugt verið að leita leiða til hagræðingar í rekstri, sameiningar rekstrareininga, minnkunar yfirbyggingar og útvistunar verkefna. Ekkert slíkt er að finna í fjárlögum fyrir árið 2022.

Rekstrargjöld og fjárfestingar fyrirtækja eru grundvölluð á ítarlegri þarfagreiningu og kostnaðarmati. Á Alþingi varð ég vitni að kæruleysi og lausatökum við ákvarðanir um ríkisútgjöld og fjalla ég um nokkur dæmi í þessari grein.

Til að gæta sanngirni þá eru nokkrar tillögur í fjárlögum um umbætur í opinberum rekstri en ekki er tekið á neinum kerfisbreytingum sem lækka óseðjandi skattaþörfina.

Í fjárlagafrumvarpinu er sagt að vaxa eigi út úr vandanum með öflugu atvinnulífi. En samfara því vex yfirbygging ríkisins áfram.

Ríkisstjórnin er kom­in langt frá ábyrgum rík­is­rekstri

Sérfræðingar efnahags- og fjármálaráðuneytis og Seðlabankans hafa varað við 7,2 milljarða útgjöldum vegna „Allir vinna“ verkefnisins. Samt er það samþykkt. Engin þarfagreining eða hagkvæmnismat fylgdi þessari ákvörðun. Um 1.000 heimili í landinu munu borga alla sína skatta í þetta verkefni á næsta ári. Þessi vinnubrögð eiga ekkert skylt við fagmennsku og aga.

Slæmt dæmi í fjárlögum er ráðstöfun um 500 milljóna króna í nýja streymisveitu ríkisins án nokkurs rökstuðnings eða greiningar. Verkefni sem einkaaðilar gætu hæglega tekið að sér.

Ríkisstjórnin sýnir versta fordæmið með því að bæta við tveimur ráðuneytum sem munu kosta yfir 300 milljónir á ári næstu fjögur árin. Þessi fjölgun ráðu­neyta hefur engan tilgang annan en þann að fjölga ráð­herrum svo valda­hlut­föllin milli stjórn­ar­flokk­anna hald­ist.

Þvílík sóun á skattpeningum almennings og virðingarleysi gagnvart skattgreiðendum!

Óþörf yfirbygging

Við erum að reka land sem er minna að íbúafjölda en fjöldi borga í Evrópu sem við þekkjum. Því er eðlilegt að spyrja hvort þörf sé fyrir alla þessa yfirbyggingu og stjórnunarkostnað við rekstur okkar litla lands.

Meginhlutverk hins opinbera er að veita íbúum landsins betri þjónustu og bæta rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja, enda byggist bati í ríkisfjármálum á því að fyrirtæki landsins hafi bolmagn til að vaxa, fjárfesta og skapa ný störf.

En ríkisstjórnin ætlar að reka áfram um 200 ríkisstofnanir og opinber hlutafélög. Mörg hundruð ráða og nefnda starfa áfram og á þriðja tug sendiráða um allan heim munu starfa óbreytt áfram. Fjöldi ríkisfyrirtækja mun áfram fá að standa í samkeppni við einkareksturinn, jafnvel með fjármuni frá ríkinu til að niðurgreiða samkeppni sína.

Ráðu­neytin blása út og sem dæmi stofn­aði þessi rík­is­stjórn á síð­asta kjör­tíma­bili 248 nýjar nefndir til við­bótar við allar þær sem þegar voru starf­andi.

Grunnþjónustan skiptir máli

Allir íbúar landsins eiga að hafa aðgang að grunnþjónustu ríkisins og að lágmarks lífsviðurværi, jafnræði, öryggi og heilsa allra sé tryggð með opinberum útgjöldum. Þetta er kjarnastarfsemi ríkisins og hana ber að verja. En ríkið hefur tekið að sér hlutverk sem er komið langt fram úr þessari grunnþjónustu.

Það þarf hugsanlega að kenna ráðamönnum þjóðarinnar að segja stundum nei við nýjum útgjöldum. Það virðist vera of auðvelt að sannfæra þingið um aukin útgjöld og skattheimtu.

Ábyrg ríkisfjármál er málefni dagsins í dag. Við sýnum ábyrgð með því gæta hófsemi í útgjöldum og velta hverri krónu fyrir okkur áður en hún er innheimt sem skattar og gjöld hjá fólkinu og fyrirtækjunum í landinu.

Við þingmenn Viðreisnar munum sýna þessari ríkisstjórn öflugt og nauðsynlegt aðhald og sýna þannig skattgreiðendum á Íslandi fulla virðingu.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. desember 2021