Bentu á það sem er þér fyrir bestu

Skólasund verður gert að valfagi á unglingastigi í grunnskólum Reykjavíkur, að því gefnu að nemendur hafi lokið hæfniviðmiðum skólasunds í upphafi 9. bekkjar. Þessa tillögu samþykktum við, í Skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar, á fundi okkar sl. þriðudag. Tillagan kemur upphaflega frá ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, á sérstökum fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna. Slíkur samráðsfundur fer fram í borgarstjórn að jafnaði einu sinni á ári og fjölmargar áhugaverðar tillögur sem þar hafa komið fram. Sjálfri finnst mér gífurlega mikilvægt að hlusta á rödd ungmenna og treysta þeirra dómgreind um sinn eigin reynsluheim.

Viðmið sköpuð í heimi filtera

Fyrir einhverjum kann þetta að hljóma eins og áhrifalítil tillaga og jafnvel borðleggjandi fyrirkomulag í aðalnámskrá grunnskóla. Í mínum huga hefur þetta samt sem áður mun víðtækari áhrif en hvernig stundaskráin lítur út frá degi til dags. Við lifum á tímum þar sem heilbrigð líkamsvitund á undir högg að sækja og viðmið útlitskrafna eru sköpuð í heimi filtera og læka á samfélagsmiðlum. Á sama tíma er sístækkandi hópur barna og ungmenna sem er trans, þar með talin kynsegin og skilgreinir sig út fyrir hina hefðbundnu kynjatvíhyggju.

Valfrelsi er streituminnkandi

Það að þurfa að fara í sturtu og út í laugina í sundklæðnaði er hér oft orðið að stórum kvíðavaldandi þætti hjá fjöldanum öllum af ungmennum á hverjum virkum degi. Mörg hafa upplifað kvíða í aðdraganda sundtíma með mikla vanlíðan og jafnvel skömm eftir tímana. Sum einfaldlega sleppa því að mæta í skólasund með tilheyrandi fjarvistum í kladdann. Það að samþykkja þessa tillögu gæti því stuðlað að streituminnkandi hversdagsleika hjá þeim sem þurfa mest á því að halda.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. janúar 2022