Brekkan verður brattari

Þorsteinn Pálsson

Stærstu efnahagsákvarðanir þessa árs birtast í fjárlögum ríkisstjórnarinnar, sem búið er að samþykkja, væntanlegum vaxtaákvörðunum Seðlabankans og kjarasamningum í haust.

Samtök launafólks segja að nóg sé til. Þau benda á margföldun eigna á hlutabréfamarkaði, methagnað banka og góða afkomu sjávarútvegs. Eigi að síður ætla þau að beina mikilvægustu kröfum sínum að ríkissjóði, sem rekinn er með miklum halla og var orðinn ósjálfbær fyrir faraldurinn. Samtök atvinnulífsins staðhæfa aftur á móti að svigrúm til launabreytinga sé takmarkað. Sú afstaða er rökstudd með því að samkeppnisstaða þeirra útflutningsgreina, sem bera eiga uppi hagvöxtinn, sé nú verri en áður. Það á ekki síst við um ferðaþjónustuna.

Svarið er: Aukin framleiðni

Báðir aðilar hafa sem sagt klár markmið. Og það sem meira er: Röksemdir beggja byggja á tölum, sem ekki verða véfengdar.
Spurningin er bara þessi: Hvaða hagtölur segja mest um það hvert svigrúmið er?

Fjármálaráð er skipað sjálfstæðum sérfræðingum, sem leggja mat á fjármálastefnu stjórnvalda.Í umsögn fjármálaráðs um fjárlögin, segir að verkefnið sé „að skapa umgjörð og búa til hvata, sem leiða til aukinnar framleiðni í hagkerfinu. Aukin framleiðni mun að óbreyttu standa undir aukinni velsæld óháð pólitískum stefnum og áherslum.“

Þetta er kjarni málsins. Það er framleiðni atvinnulífsins sem ræður svigrúminu. Sá veruleiki nær jafnt til sósíalista og kapítalista og allra hinna, sem standa þar á milli.

Stefnuleysið þýðir: Minni framleiðni

Pólitíski vandinn er sá að í fjárlögunum er ekki að finna nægjanlega mikla hvata til aukinnar framleiðni. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Seðlabankinn hefur ljósa stefnu í peningamálum. Aðilar vinnumarkaðarins hafa ákveðin markmið varðandi kjarasamninga. En þær ákvarðanir, sem ríkisstjórnin er búin að taka, virðast vera teknar án tengsla við skýr efnahagsleg markmið og nokkra stefnu í vinnumarkaðsmálum.

Stærsta pólitíska ákvörðun ríkisstjórnarinnar er að taka ekki á skuldavanda ríkissjóðs á þessu kjörtímabili. Það þýðir fjögurra ára bið eftir markvissri efnahagsstefnu.Afleiðingin er sú að fjárlögin kynda undir verðbólgu í stað þess að draga úr henni. Það eykur aftur þrýsting á Seðlabankann til að hækka vexti. Fyrir vikið verður svo samkeppnisstaða útflutningsgreina lakari og framleiðni þeirra minni.

Vandanum velt á næstu stjórn

Skuldir ríkisins hafa aukist minna en margir óttuðust í byrjun faraldursins. „Því verður ekki séð hvers vegna vandanum er velt yfir á næstu ríkisstjórn,“ segir í harðri gagnrýni Samtaka atvinnulífsins, á þessa veigamestu ákvörðun sem ríkisstjórnin hefur tekið.

Þau hnykkja á ádeilunni með því að staðhæfa að fyrir vikið verði brekkan brattari.

Þessi gagnrýni kemur frá þeim hagsmunasamtökum, sem áttu einna mestan þátt í að tryggja endurkjör ríkisstjórnarinnar með vel úthugsaðri kosningabaráttu.

Það leiðir af sjálfu sér að ríkisstjórn, sem hefur ekki skoðun á því hvort samkeppnisstaða útflutningsgreina er viðunandi, getur heldur ekki tekið afstöðu til þess hvaða svigrúm er til launabreytinga.Klípan er að ríkisstjórnin er stærsti launagreiðandinn og launþegaforystan ætlar henni stærsta hlutverkið við lausn kjarasamninga á almennum markaði.

Froða og verðmætasköpun

Margföldun á verðmæti hlutabréfa er í engu samræmi við hagvöxt. Að hluta til er hún froða, sem ekki byggir á raunverulegri verðmætasköpun í þjóðarbúskapnum.

Stefnuleysi ríkisstjórnarinnar þýðir að hún gerir ekki greinarmun á froðu og verðmætasköpun í hagkerfinu. Það auðveldar verkalýðsfélögunum að nota froðumyndunina sem viðmið og veikir að sama skapi samningsstöðu Samtaka atvinnulífsins.

Veruleikinn er eftir sem áður sá, sem sérfræðingarnir í fjármálaráði bentu á: Án framleiðniaukningar verða launahækkanir að froðu, en ekki raunverulegum kjarabótum.

Kaus þjóðin þetta stefnuleysi?

Viðspyrna Íslands rétt nær meðaltali OECD-ríkjanna. Það er ekki slæmt. En önnur Norðurlönd hlaupa þó hraðar en við. Vaxtabyrði ríkissjóðs er meira en þrefalt þyngri en þeirra. Þess vegna þarf hagvöxtur að vera til muna meiri hér, til þess að við getum vaxið út úr vandanum eins og þau. Það er ekki að gerast.

Spurningin er: Telur ríkisstjórnin í alvöru að þjóðin hafi kosið þetta stefnuleysi með svo augljósri áhættu fyrir launafólk og atvinnulíf?