Fyrir búskapinn allan

Þorsteinn Pálsson

“Þegar ég tala um verulega hærri laun, þá á ég við verulega hærri laun.“

Þetta er tilvitnun í viðtal við Davíð Scheving Thorsteinsson, þáverandi formann Félags íslenskra iðnrekenda, í Alþýðublaðinu 1977. Á iðnþingi skömmu áður sagði hann að iðnaðurinn væri reiðubúinn til að greiða hærri laun ef aðstaða hans batnaði.

Gamla kerfið

Það er sem sagt ekki nýtt að samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja tengist umræðu um kjarabætur. En iðnrekendur voru á þessum tíma að tala fyrir nýrri hugmynd um stjórn efnahagsmála.

Í tengslum við sjónvarpsþættina Verbúðina, fóru Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi í auglýsingaherferð með yfirskriftinni: „Það veltur margt á íslenskum sjávarútvegi.“ Það er sannarlega rétt. En sú var tíð að nánast allt valt á sjávarútvegi.

Á áttunda áratugnum var fiskverð ákveðið með miðstýrðri ákvörðun. Eftir samþykki ríkisstjórnar skráði Seðlabankinn síðan gengi krónunnar samkvæmt reiknilíkani, sem hélt rekstri sjávarútvegsins að meðaltali á núlli.

Markmið efnahagsstefnunnar var að halda sjávarútveginum gangandi, en koma í veg fyrir að þar myndaðist hagnaður og eigið fé. Gengi krónunnar var sem sagt stillt þannig af að höfuð­atvinnugreinin var í bóndabeygju, iðnaðurinn varðist í vök en milliliðirnir blómstruðu.

Á þessum tíma var iðnaðurinn í aðlögun að frjálsri samkeppni og vildi jafna innbyrðis samkeppnisstöðu atvinnugreinanna.

Ný hugmynd

Ein helsta tillaga þeirra var að taka gjald fyrir veiðileyfi. Síðan átti að bæta útveginum aukinn kostnað með lækkun á gengi krónunnar. Það hefði bætt samkeppnisstöðu iðnaðarins og auðveldað honum að greiða sambærileg laun.

Skekkjan milli atvinnuveganna var augljós. En efasemdir útvegsins voru skiljanlegar. Í þessu miðstýrða hagkerfi var lítil von til þess að sjávarútvegurinn yrði leystur úr bóndabeygju núllstefnunnar.

Með öðrum orðum: Kerfisbreytingin, sem iðnrekendur töluðu fyrir, var skynsamleg. En hún var kannski ekki raunhæf á þeim tímapunkti, nema samtímis yrði gengið enn lengra í breytingum á hagkerfinu.

Þetta var fyrir daga aflahlutdeildarkerfisins eða kvótans. Síðan kom einkarétturinn til veiða með aflahlutdeildinni. Svo kom frjálst framsal aflaheimilda. Þá var verðmyndun á fiski gefin frjáls. Og loks hætti ríkisstjórnin að ákveða gengið.

Hagræðing kom í stað miðstýrðra gengisfellinga. Þá fyrst var núllstefnan endanlega úr sögunni.

Köld rök og heit

Laust fyrir aldamót var sjávarútvegurinn farinn að skila arði og mynda eigið fé vegna þessara kerfisbreytinga. Það var og er heilbrigt.

En þá myndaðist nýtt ójafnvægi milli atvinnugreina. Ástæðan er sú að menn fóru ekki að ráðum auðlindanefndar Jóhannesar Nordal um aldamótin, sem lagði til gjaldtöku fyrir tímabundinn einkarétt til veiða úr sameiginlegri auðlind.

Fyrir aldamót var samkeppnisstaða innflutnings og milliliða betri en sjávarútvegs og iðnaðar. Nú stendur sjávarútvegurinn betur að vígi af því að hann nýtur einkaréttar á veiðum án teljandi greiðslu, en það hallar á ferðaþjónustu og þekkingargeirann.

Áður lágu bara köld efnahagsleg rök fyrir breytingum á hagkerfinu. En nú eru þau heitu siðferðilegu rök þyngri að gjald komi fyrir einkarétt að sameiginlegri auðlind.

Helsti munurinn er sá að sjávarútvegurinn hefur ekki jafn gildar ástæður nú til að andæfa breytingum, sem um leið miða að meiri jöfnuði milli atvinnugreina.

Á sínum tíma mátti ræða þennan vanda. En á síðustu árum hafa Samtök atvinnulífsins kosið að setja pottlok á þá umræðu. Meðan það nær yfir ríkisstjórnina heldur vandamálið áfram að dýpka.

Norræna vinnumarkaðsmódelið

Í aðdraganda kjarasamninga horfa margir til norræna vinnumarkaðsmódelsins. Þar liggja vissulega sameiginlegir hagsmunir launafólks og atvinnulífs. Það sést vel á því að önnur Norðurlönd vaxa nú hraðar út úr kreppunni en við.

En norræna vinnumarkaðsmódelið verður ekki að veruleika með því einu að biðja launafólk að miða launakröfurnar við lægsta punktinn í þjóðarbúskapnum. Fyrst þarf að ljúka breytingum á hagkerfinu.

Tvennt er þar mikilvægast: Að jafna samkeppnisstöðu milli atvinnugreina og tryggja sama gjaldmiðilsstöðugleika og önnur Norðurlönd njóta.

Þetta er ekki spurning um byltingu heldur óhjákvæmilega aðlögun.

Það veltur margt á sjávarútvegi en þó enn fleira á skynsamlegri efnahagsstefnu fyrir þjóðarbúskapinn allan.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. janúar 2022