Hvað með að hringja í vin?

Enn einn hnullungur var lagður að þéttum varnargarði ríkisstjórnarinnar um sérhagsmuni stórútgerðarinnar þegar Svandís Svavarsdóttir sjávarútvegsráðherra skilaði auðu við spurningum mínum um skýrslu sem forveri hennar í starfi, Kristján Þór Júlíusson, lét vinna. Þar með fer að verða útséð um að ríkisstjórn Íslands ætli sér að upplýsa um þau ítök sem stórútgerðin hefur í íslensku samfélagi í skjóli pólitískra ákvarðana.

Fyrir rúmu ári hafði ég frumkvæði að því að Alþingi fæli sjávarútvegsráðherra að vinna skýrslu um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins í íslensku atvinnulífi utan sjávarútvegs. Markmiðið var að veita almenningi mikilvægar upplýsingar um ítök stórútgerða í íslensku samfélagi í krafti nýtingar þeirra á fiskveiðiauðlindinni. Nýtingar sem ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar berst með kjafti og klóm gegn að verði tímabundin, þvert á vilja yfirgnæfandi meirihluta almennings. Hvað þá að markaðurinn fái að ráða verðinu fyrir aðgang útgerðanna að auðlindinni okkar með sölu heimilda á uppboði.

Vinnan fór vissulega af stað en af einhverjum ástæðum var stigið á bremsuna innan ráðuneytisins, málið tafið og þegar skýrslan loks birtist um hálfu ári eftir að skilafrestur rann út, var lítið bitastætt að finna í henni. Þar var ekki kortlagt hvernig gróðinn af stórútgerðinni hefur verið nýttur í að fjárfesta í flutningafyrirtækjum og fjölmiðlum, fasteignum og tryggingafélögum, í heilbrigðisgeiranum og matvælamarkaði, í ferðaþjónustu og veitingastöðum svo eitthvað sé tínt til.

Þessi leyndarhyggja vakti furðu flestra og því ákvað ég að forvitnast um það hjá nýjum ráðherra sjávarútvegsmála hvað hefði eiginlega gerst. Hvers vegna upplýsingar um fjárfestingar 20 stærstu útgerðarfélaganna sem voru í upphaflegum skýrsludrögum hefðu verið felldar út, á grundvelli hvaða ráðgjafar ráðuneytið hafi talið óheimilt að birta umbeðnar upplýsingar og hvort nýi ráðherrann væri sammála því mati.

Ráðherra sagðist ekki geta svarað þessum spurningum. Ekki einu sinni því hvort hún væri sammála mati fyrrverandi ráðherra.

Það er auðvitað leitt hvað nýi sjávarútvegsráðherrann er ráðalaus. Mér er það því ljúft að minna á að þegar hún tók við lyklunum sem nýr sjávarútvegsráðherra spurði hún fráfarandi ráðherra hvort hún mætti hringja í vin. Sá möguleiki virðist því miður hafa gleymst. Það getur þó verið að einhverjum þyki það huggun að í svarinu frá nýja ráðherranum er upplýst að til standi að skipa nefnd um aukið gegnsæi í rekstri stærstu fyrirtækja í sjávarútvegi. Sennilega munu þó fleiri taka eftir kaldhæðninni í þessu leikriti.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. janúar 2022