Reglur um röðun á framboðslista Viðreisnar

Stjórn Viðreisnar samþykkti í lok desember reglur um röðun á framboðslista Viðreisnar. Í reglum þessum er fjallað um hvernig tekin er ákvörðun um hvaða leið skuli farin við að raða á framboðslista Viðreisnar, hvort sem er til alþingis- eða sveitarstjórnarkosninga. Í samræmi við skipulags- og starfsreglur landshlutaráða er uppstilling meginregla við skipan framboðslista Viðreisnar en aðrar aðferðir, s.s. prófkjör, eru heimilar. Fjallað er um prófkjör í þessum nýju reglum.

Fyrir sveitarstjórnarkosningar í maí 2022 eru þessar reglur leiðbeinandi fyrir svæðafélög Viðreisnar sem sjá um framboð til kosninga, að því leyti er reglurnar ganga lengra en samþykkir þeirra félaga segja til um. Unnið verður að því að samræma reglur og samþykktir.

Samkvæmt reglunum er lagt til að ákveðið verði á félagsfundi hvaða aðferð verði fyrir valinu, við röðun á framboðslista. Þá verði uppstillinganefnd, og ef til kemur kjörstjórn, einnig kjörin á félagsfundi.

Verði prófkjör fyrir valinu skuli það auglýst a.m.k. 30 dögum fyrir prófkjörsdag.  Framboðstilkynningu skuli skilað til kjörstjórnar eigi síðar en kl. 12. á hádegi 15 dögum fyrir prófkjörsdag.

Kosningarétt hafi allir 16 ár og eldri sem hafa lögheimili í viðkomandi kjördæmi/sveitarfélagi og verið skráðir félagsmenn í Viðreisn í a.m.k. 3 daga fyrir prófkjörsdag.

Kjörgengir eru þeir félagsmenn í Viðreisn sem náð hafa 18 ára aldri og hafa verið skráðir félagsmenn í a.m.k. 15 daga fyrir prófkjörsdag. Í sveitarstjórnarkosningum þarf frambjóðandi að hafa lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi.

Nánar má lesa um reglurnar á vef Viðreisnar hér.