Stundaglasið er tómt

Þorsteinn Pálsson

Ríkisstjórnin hefur heitið þjóðinni og umheiminum því að Ísland verði kolefnishlutlaust og hafi náð fullum orkuskiptum árið 2040. Ísland á þá að vera óháð jarðefnaeldsneyti fyrst allra ríkja í heiminum.

Við höfum aðeins átján ár til þess að ná þessu risastóra markmiði.

Enginn teljandi pólitískur ágreiningur virðist vera um þessa skýru og afdráttarlausu stefnu.

Kyrrstöðupólitíkin hefur tafið

Árum saman hefur legið fyrir hvað þarf að gera í orkumálum til þess að markinu verði náð.

Eigi að síður ákvað ríkisstjórnin að sitja aðgerðalaus allt síðasta kjörtímabil. Kyrrstöðupólitíkin náði líka til orkumálanna þó að þá þegar hafi legið fyrir að ekki mátti draga stundinni lengur að hefjast handa við virkjanir til að mæta tímasettum markmiðum um orkuskipti.

Þegar stjórnarflokkarnir ákváðu í nóvember að framlengja samstarfið var enn hert á markmiðum í loftslagsmálum.

Á hinn bóginn veitti stjórnarsáttmálinn lítil svör við hinu, hvort kyrrstöðupólitíkin í virkjanamálum yrði rofin.

Hvað þýðir græn skýrsla?

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði í vikunni starfshóp, sem á að taka saman þær upplýsingar, sem þegar liggja fyrir um þessi efni, og setja í græna bók. Verkið er einfalt enda á því að ljúka innan sex vikna með tillögum.

Tilgangurinn með því að skrifa nýja skýrslu getur verið tvenns konar. Hugsanlega er þetta bara leikur til þess að geta haldið kyrrstöðupólitíkinni áfram. En skammur tímafrestur gæti bent til hins, að orkuráðherra ætli í raun að losa um þá bóndabeygju, sem VG hefur haldið flokki hans í á þessu sviði.

Tíminn einn getur svarað þessari spurningu. En hitt er ljóst að kyrrstöðupólitíkin gildir þangað til annað verður ákveðið.

Neitunarvald VG

Á undanförnum árum hefur ekki einasta verið góð pólitísk sátt um að Ísland fylgdi róttækustu markmiðum í heimi í loftslagsmálum. Það hefur líka verið einhugur um róttæka stefnu í landvernd. Fáar þjóðir hafa verndað og friðað hlutfallslega jafn stór landsvæði og við.

En nú er svo komið að róttækustu markmið í landvernd og róttækustu markmið í loftslagsvernd skarast. Þá þarf pólitíkin að taka erfiðar ákvarðanir. Það gat ríkisstjórnin ekki á síðasta kjörtímabili.

Pólitíska ástæðan fyrir kyrrstöðu í virkjunarmálum allt síðasta kjörtímabil er ekki sú að meirihluti hafi ekki verið fyrir hendi á Alþingi til þess að koma hreyfingu á málin. Ástæðan er fyrst og fremst neitunarvald VG.

Þrjár leiðir

Nú þarf hins vegar að taka ákvarðanir. Þær snúast um stór pólitísk markmið og fram hjá því verður ekki horft að þau tengjast líka ríkum tilfinningum. Þrír megin kostir blasa við í þessu mikla pólitíska uppgjöri:

Í fyrsta lagi að fara strax á þessu ári af stað með virkjanir og auka orkuframleiðslu um fimmtíu prósent á næstu tveimur áratugum. Það þýðir að gefa þarf eftir ítrustu kröfur í landvernd.

Í öðru lagi er hægt að halda ítrustu kröfum um landvernd og gefa eftir í loftslagsmálum.

Í þriðja lagi er unnt að halda ítrustu markmiðum á báðum sviðum og gefa eftir í lífskjörum. Bent hefur verið á að takmarka mætti eða skammta ferðir til útlanda og almennt draga úr neyslu. Þá yrði heldur ekki þörf fyrir jafn há laun.

Kyrrstöðupólitíkin hefur í reynd þýtt að ríkisstjórnin hefur fram til þessa stefnt á þriðja kostinn.

Sex vikur í ákvörðun

Flest bendir til þess að á Alþingi sé samt sem áður meirihluti fyrir fyrsta kostinum.

Það merkir að við tökum ítrustu loftslagsmarkmið fram yfir ítrustu kröfur um landvernd og fylgjum öðrum þjóðum eftir í hagvexti og lífskjörum. Eigi að síður getum við státað af metnaðarfullri náttúruverndarstefnu.

Mjög ósennilegt er að nokkur vilji gefa eftir af ítrustu kröfum um loftslagsvernd.

Í ljósi þessa stöðumats veltur framhaldið á vilja eða getu VG til að forgangsraða markmiðum. Stundaglasið er tómt.

Tíminn til að svara þessari stóru spurningu er sannarlega ekki lengri en orkuráðherra gaf starfshópnum. Sex vikur til ákvarðana og átján ár til framkvæmda.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. janúar 2022