Sundabraut er á dagskrá

Við nálgumst Sundabraut. Félagshagfræðigreining sem nú hefur verið birt sýnir að Sundabraut verður samfélagslega hagkvæmt verkefni, hvort sem farið verður í brú eða göng.

Um það á eftir að taka ákvörðun. Skipulagið þarf auðvitað að taka tillit til þeirrar byggðar sem er í Reykjavík, bæði hvað varðar Vogana en ekki síður Grafarvog, þannig að Grafarvogsbúar hafi áfram gott aðgengi að útivistarsvæði sínu við ströndina.

Verði brú fyrir valinu þarf einnig að huga að því að brúin verði falleg og verði eitt einkenni borgarlandsins.

Samgöngur fyrir okkur öll eru mikilvægar. Umferð eykst með sístækkandi borg. Frá síðustu sveitarstjórnarkosningum hefur íbúum Reykjavíkur fjölgað um 10.000 og samhliða hefur bílum fjölgað.

Þess vegna er breytt samgönguskipulag, sem gerir ráð fyrir samgöngum hjólandi, gangandi og almenningssamgöngum með Borgarlínu, mikilvægt skref til að eini valkostur fólks verði ekki að ferðast með bílum.

Við þurfum að fjölga valkostum og auka frelsi borgarbúa til að velja sér þær samgöngur sem þeim hentar besta. Við þurfum margar fjölbreyttar lausnir en ekki eina töfralausn.

Sundabraut ekki andstæða Borgarlínu

Sundabraut og Borgarlína eru ekki andstæður í samgöngum. Við þurfum ekki að velja þar á milli, eins og stundum er talað um. Báðar þessar framkvæmdir eru mikilvægar. Umferð inn í og út úr borginni þarf að vera greið.

Þess vegna er það mikilvægt að þegar kemur að framkvæmdum við Sundabraut, að hún muni strax fara alla leið upp á Kjalarnes, í stað þess að framkvæmdin verði tekin í tveimur lotum. Slíkt myndi færa umferðarþunga um langa hríð upp í Grafarvog.

Næstu skref er að vinna umhverfismat og víðtækt samráð við íbúa í nærumhverfinu og aðra hagaðila.

Einnig þarf að vanda til verka við að hanna jafnmikið mannvirki og Sundabraut verður, með það að markmiði að sem flest okkar geti nýtt hana með fjölbreyttum ferðamátum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. janúar 2022