Tím­a­bært að setj­a bann við bæl­ing­ar­með­ferð­um

Í sérstökum kafla íslenskra hegningarlaga er fjallað um brot gegn frjálsræði manna og viðurlög við slíkum brotum. Listinn er langur en ekki tæmandi, enda virðist hugmyndafluginu lítil takmörk sett þegar kemur að því að ganga á frelsi annarra. Eitt af því sem hegningarlögin ná ekki til eru svokallaðar bælingarmeðferðir á hinsegin fólki. Þar horfir nú vonandi til betri vegar, þar sem ég hef lagt fram á þingi frumvarp til að gera refsivert að neyða einstakling til að undirgangast meðferð í þeim tilgangi að bæla eða breyta kynhneigð sinni, kynvitund eða kyntjáningu. Breytingin leggur einnig bann við slíkum meðferðum á börnum, hvort sem þær eru framkvæmdar hér á landi eða barnið flutt úr landi í þeim tilgangi, og við því að framkvæma eða hvetja, með beinum eða óbeinum hætti, til slíkra meðferða.

Bælingarmeðferðir hafa víða verið framkvæmdar til þess að „lækna“ náttúrulega kynhneigð eða kynvitund fólks. Í slíkum meðferðum er samtali gjarnan beitt til þess að tengja upplifun þolandans á kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu sinni við sársauka og skömm. Í grófari tilvikum hefur þolandinn einnig verið látinn undirgangast inngripsmeiri meðferðir. Þessar meðferðir eru ekki studdar af vísindum, þær eru siðferðilega rangar og hafa oftar en ekki verulega neikvæð óafturkræf áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks. Börn eru eðlilega sérstaklega viðkvæm fyrir neikvæðum áhrifum bælingarmeðferða.

Það er því sannarlega ekki að ástæðulausu að bælingarmeðferðir hafa víða um heim verið bannaðar með lögum að viðlagðri refsingu. Enn víðar er nú í gangi vinna við að fylgja þeim fordæmum. Á alþjóðavettvangi hefur Ísland ítrekað lýst yfir andstöðu við slíkar meðferðir, t.d. á fundi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sumarið 2020, þar sem fjallað var um skýrslu ráðsins um alvarlegar afleiðingar bælingarmeðferða á hinsegin fólki. Það er tímabært að stíga skrefið til fulls, færa okkur til nútímans og festa í lög hér bann við svo skelfilegri aðför að frelsi og heilsu hinsegin fólks.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. janúar 2022