Hinn ímyndaði andstæðingur

Það er þekkt aðferðafræði í heimi klækjastjórnmála að búa til ímyndaðan andstæðing til að beina athyglinni frá vandræðum heima fyrir. Nú veit ég ekki hvaða heimatilbúnu vandræði það eru að þessu sinni sem ríkisstjórnin þarf að fela ef það er málið, en hitt veit ég að þessi endurteknu ónot í garð Reykvíkinga eru orðin vandræðaleg í meira lagi.

Á yfirborðinu snýst þetta um skipulagsmál. Nánar tiltekið um flugvallarmál. Formaður Framsóknarflokksins og ráðherra innviðamála hefur lagt fram öðru sinni frumvarp sem felur í sér heimild ráðherrans til að svipta Reykjavík skipulagsvaldi á Reykjavíkurflugvelli, á þessu stóra og dýrmæta landsvæði í hjarta borgarinnar. Þetta er verulegt inngrip í skipulagsvald sem er einn af hornsteinum stjórnarskrárvarins sjálfstjórnarréttar sveitarfélaga. Nú hefur frumvarpið öðru sinni fengið samþykki þingflokka stjórnarflokkanna þriggja þar sem ekki einu sinni Reykjavíkurþingmenn þeirra virðast hafa fengið hiksta yfir þessari grundvallarbreytingu á skipulagsvaldi sveitarfélaga. Nei afsakið, á skipulagsvaldi Reykjavíkur. Staðreyndin er nefnilega sú að þessir sömu þingflokkar stöðvuðu eigin stjórnarmál á síðasta kjörtímabili þegar um var að ræða inngrip í skipulagsmál annarra sveitarfélaga. Svo merkilegt sem það nú er.

Það er nákvæmlega ekkert sem kallar á þessa stríðsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í garð Reykjavíkur. Tillaga innviðaráðherra gengur þvert á núgildandi samkomulag ríkis og borgar um framtíðarskipulag innanlandsflugsins. Á samkomulag sem er í fullu gildi. Ríkið, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin á Suðurnesjum eru í sameiningu að fullkanna kosti þess að flytja völl fyrir innanlandsflug, æfinga-, kennslu- og einkaflug í Hvassahraunið. Ákvörðun á að taka fyrir lok árs 2024. Reynist Hvassahraun ekki vænlegur kostur þarf að semja upp á nýtt en rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar er tryggt.

Skipulagsvald sveitarfélaga er vitaskuld ekki án takmarkana. Þessi hugmynd innviðaráðherra að fá Alþingi til að færa skipulagsvaldið frá íbúum sveitarfélaga er hins vegar fráleit. Skipulagsferlar sveitarfélaga með lögbundinni upplýsingamiðlun og samráði við íbúa eru hin formlega leið íbúa til að hafa áhrif á þróunina í nærumhverfi sínu. Tilfærsla valds frá þessum vettvangi og beint til ráðherra er einfaldlega slæm hugmynd út frá hagsmunum íbúa og tækifærum þeirra til að hafa áhrif á nærumhverfi sitt.

Þetta veit fólk auðvitað. Ekki síst innan stjórnarráðsins. Kannski er málið ekki flóknara en svo að það eru að koma kosningar og ríkisstjórnarflokkarnir stefna á landvinninga í Reykjavík. Það er hins vegar ekki auðskilið hvernig þeim getur þótt þetta inngrip í hagsmuni borgarbúa vera rétta leiðin til þess að ganga í augu þeirra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. febrúar 2022