Járn­tjaldið rís á ný

Ígærmorgun vaknaði heimsbyggðin við vondan draum. Rússland hafði í skjóli nætur ráðist inn í Úkraínu með vopnaðri árás. Um var að ræða ógnvekjandi árás á gildi okkar og atlögu að lýðræðinu. Gærdagsins verður líklega minnst í sögubókum framtíðar sem dagsins þar sem járntjaldið reis aftur. Einn af myrku dögum Evrópu.

Yfirgangur Rússa gagnvart frjálsri og fullvalda þjóð er ein mesta ógn vestrænna lýðræðisríkja og Evrópu í langan tíma. Við Íslendingar verðum að standa vörð um hagsmuni okkar sem þjóðar. Það gerum við meðal annars með því að verja af fullum þunga þau gildi sem mesta þýðingu hafa fyrir okkur. Frelsi, mannréttindi, lýðræði. Þá skiptir máli að við séum skýr í okkar afstöðu. Að samstaðan haldi. Að við tökum afdráttarlaust þátt í aðgerðum lýðræðis- og vinaþjóða okkar.

Nú reynir á alþjóðasamvinnu með vestræn gildi að leiðarljósi. Það þýðir að við þurfum af fullum þunga að taka þátt í samstarfi með ESB-þjóðum, við verðum að einbeita okkur að NATO og taka einarða afstöðu með vinaþjóðum okkar. Samhliða þurfum við að skerpa á sýn okkar og stefnu í utanríkis- og varnarmálum.

Við verðum að byggja enn frekar upp samband okkar við Bandaríkin í ljósi varnar- og öryggishagsmuna Íslands. Líka með tilliti til norðurslóða og almenns þjóðaröryggis, eins og að verjast netárásum eða falsfréttum.

Núverandi ástand er viss áskorun í ríkisstjórn sem er í grunninn klofin í afstöðu sinni gagnvart NATO þó svo að þau séu sammála um tortryggni sína í garð ESB. En við sem þjóð höfum ekki um annað að velja en að rækta af fullum krafti þetta dýrmæta alþjóðasamstarf.

Nú verðum við að sýna afdráttarlausa samstöðu. Það veit enginn hvert atburðarásin þróast. Ég vona að alþjóðasamfélaginu takist að tryggja friðsamlega lendingu og róa stöðuna. En Pútín þarf að mæta af fyllstu hörku. Um er að ræða stærsta prófstein á NATO hingað til. Kalda stríðið kann að falla í skuggann af því sem koma skal.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. febrúar 2022