Nútímalegt lýðræði

Ábak við skemmti­legt og opið sam­fé­lag er heil­brigt lýð­ræði. Við viljum öll hafa eitt­hvað að segja um það hvernig sam­fé­lagi okkar er stýrt og hvernig hags­munum okkar er best varið. Með tímanum breytast kröfur til lýð­ræðisins, þótt grunnurinn sé alltaf sá sami. Lands­lagið í ís­lenskri pólitík hefur tekið stakka­skiptum síðan á seinustu öld og tel ég það vera í takt við þær kröfur sem nú­tíma­manneskjan hefur til stjórn­valda. Tími fjór­flokkanna er liðinn – við viljum margar raddir, við viljum sam­starf, skoðana­skipti og mála­miðlanir.

Meiri­hlutinn í borginni er gott dæmi um hvernig þetta getur virkað. Við unnum gott sam­komu­lag í upp­hafi kjör­tíma­bilsins sem byggir á skýrri sam­eigin­legri sýn á fram­tíð og þróun borgarinnar. Það þýðir ekki að við séum öll eins og sam­mála um allt, það er af og frá. Meiri­hlutinn saman stendur af ó­líkum flokkum með ó­líka ein­stak­linga inn­byrðis en í því felst ein­mitt styrkurinn okkar. Við ræðum opin­skátt saman um þau mál­efni sem að­greina okkur og komumst að sam­eigin­legri niður­stöðu. Við erum, hvert og eitt í meiri­hlutanum, sam­kvæm okkar gildum og ýtum á þau mál­efni sem við brennum fyrir. Og ná­kvæm­lega þannig er væn­legast að vinna að hags­munum borgar­búa.

Við í Við­reisn höfum verið ó­þreytandi að tala máli einka­fram­taksins og at­vinnu­lífsins, ýta á eftir því að bilið verði brúað milli fæðingar­or­lofs og leik­skóla og leitað leiða til að bæta þjónustu borgarinnar með staf­rænum skrefum. Allt þetta, og fleira, hefur verið á for­gangs­lista okkar á meðan við leggjum á­herslu á yfir­vegaða fjár­mála­stjórnun. Aðrir flokkar hafa haft aðrar á­herslur og hefur okkur tekist að stýra skútunni með sam­vinnuna að leiðar­ljósi.

Fram­tíðin leynist í sam­vinnu marga flokka og við sem leiðum þá vinnu verðum að búa yfir þeirri yfir­sýn sem þarf til að sú sam­vinna beri árangur. Með þekkingu og reynslu í far­teskinu langar mig að byggja frjálst og rétt­látt borgar­sam­fé­lag.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. febrúar 2022