Það er alltaf bjart framundan

Það er alltaf bjart framundan. Framtíðin er tækifæri til góðra verka. Það eru kosningar í vor og það er sannarlega bjart framundan í Hafnarfirði. Það var líka bjart framundan fyrir kosningarnar 2018 og það var líka bjart framundan fyrir kosningarnar 2014. Framtíðin er nú sem endranær björt og ber með sér fræ endalausra tækifæra og möguleika.

Tækifærin eru þeirra sem grípa þau, þeirra sem láta ekkert stöðva sig, þeirra sem með dugnaði, elju og útsjónarsemi láta verkin tala en skýla sér ekki á bak við afsakanir, útúrsnúninga og ákvarðanafælni dulbúna í orðum eins og skynsemi og vandvirkni.

Það er því allt að því kómískt að hlusta á Sjálfstæðiskórinn syngja enn og aftur söng sinn um tækifæri framtíðarinnar í dúr og moll, sömu tækifærin sem þessi ágæti kór hefur ekki gripið, stokkið á eða látið raungerast vegna ákvarðanafælni, vanmáttar síns við að beita þrýstingi eða semja um erfið og flókin úrlausnarefni.

Næsti áratugur verður tímabil uppbyggingar. Síðasti áratugur hefur verið valdatími stjórnvalda sem láta allt stöðva sig. Þetta tímabil hefur einkennst af forystuleysi, skorti á framtíðarsýn, skorti á áræðni, dug og þori. Síðustu tvö kjörtímabil hafa einkennst af heimatilbúinni biðstöðu.

Besta vísbendingin um hegðun fólks í náinni framtíð er hegðun þess úr nýliðinni fortíð. Hinn skynsami kjósandi myndi álykta sem svo að nú sé rétti tími til breytinga.

Það er bjart framundan eins og alltaf. Verkefnið er að umbreyta birtu og bjartsýni í velmegun og lífsgæði íbúum Hafnarfjarðar til heilla. Til þess þarf að skipta út kjarkleysi og ákvarðanafælni fyrir áræðni, staðfestu og þor.

Það skiptir nefnilega máli hverjir stjórna.

Greinin birtist í Fjarðarfréttum 10. febrúar 2022