Þetta þarf ekki að vera svona

Efnahagslegur stöðugleiki er eitt stærsta hagsmunamál almennings á Íslandi. Það er staðreynd að við búum ekki við slíkan stöðugleika í dag með vaxtastigið á fleygiferð og verðbólguna sömuleiðis. Eins og svo oft áður. Fyrirsjáanleikinn í heimilisbókhaldi landsmanna er enginn.

Þetta þarf þó ekki endilega að vera svona. Efnahagslegur stöðugleiki er ekki útópískur draumur heldur markmið sem við í Viðreisn teljum að verði best náð með inngöngu Íslands í Evrópusambandið og upptöku evru í kjölfarið.

Það er engum blöðum um það að fletta að margháttaður ávinningur er nú þegar af samstarfi við Evrópuþjóðir með EES-samningnum. Hins vegar bendir allt til þess að ávinningur bæði almennings og fyrirtækja í landinu yrði mun meiri með fullri aðild að ESB og upptöku evru þar sem efnahagslegur stöðugleiki yrði tryggður til frambúðar.

Andstaða við að hér verði komið á stöðugri gjaldmiðli birtist fyrst og fremst í því að bera á borð sem staðreyndir gamalkunnar tuggur um að vextir muni bara ekkert lækka við það og að viðskiptafrelsi Íslands muni tapast. Tilgangurinn er sá einn að slá ryki í augu almennings. Og tuggurnar koma aldrei oftar en einmitt þegar almenningur er að sligast undan afleiðingum óstöðugleikans.

Samanburðurinn er okkur ekki í hag

Lítum á nokkrar staðreyndir í þessu samhengi, annars vegar um vaxtakjör í nokkrum löndum á evrusvæðinu og hins vegar um hagvöxt, og berum saman við Ísland.

Þegar litið er til vaxta á húsnæðislánum eru óverðtryggðir vextir á Íslandi á bilinu 4,05% til 5,30%, allt eftir því hvar lántakinn tekur lán og hvort um sé að ræða breytilega vexti eða fasta.

Í desember 2021 voru vextir á húsnæðislánum í Austurríki 0,94% til 1,38%, í Finnlandi voru þeir 0,78% til 1,40%, á Írlandi voru vextirnir 2,62% til 3,07%, á Spáni 1,31% til 3,13% og á Möltu voru vextir á húsnæðislánum 1,78% til 2,22%.[1]

Þessir vextir komast auðvitað ekki með tærnar að hælum vaxtastigs hér á landi og myndin skánar ekki mikið þótt verðtryggðir vextir séu teknir með. Þeir eru nú á bilinu 1,20% til 3,60% hér á landi, sem er bæði hærra en óverðtryggðir vextir í flestum samanburðarlöndum auk þess sem verðtryggingin hefur í för með sér að höfuðstóll lánsins hækkar með verðbólgunni. Eitthvað sem þekkist ekki í löndum sem búa við stöðugra gengi.

Við skulum síðan taka árið 2019 sem dæmi þegar við lítum á hagvöxtinn (tölur fyrir 2021 liggja ekki fyrir og árið 2020 var fordæmalaus samdráttur um allan heim). Árið 2019 var hagvöxtur á Íslandi 2,4%. Á öllu evrusvæðinu var hagvöxtur 1,6% en mismikill eftir löndum. Sem dæmi má nefna að á Írlandi var hagvöxturinn 4,9%, á Spáni var hann 2,1%, í Austurríki var hann 1,5%, á Möltu 5,9% og í Finnlandi 1,2%.[2] Það er því alls ekki hægt að halda því fram að aðild að evrunni sé áskrift að minni hagvexti en við búum við á Íslandi. Þvert á móti styður samanburður á hagvexti á evrusvæðinu og á Íslandi við málflutning aðildarsinna. Hagvöxtur í Noregi, sem er líkt og Ísland utan ESB og hluti af EES, var síðan 0,7% árið 2020–19 til frekari samanburðar.

Hlægilegar fullyrðingar

Það er vissulega svo að Ísland er útflutningsdrifið hagkerfi og útflutningsverðmætin eru meiri í dollurum talið en evrum. Það er hins vegar ekki aðalpunkturinn þegar litið er á heildarmyndina því almennt er evran stöðugri gagnvart dollaranum heldur en íslenska krónan.

Þá reiðir íslenskt samfélag sig mikið á innflutning en samkvæmt tölum Hagstofunnar er innflutningur hingað til lands langtum meiri í evrum heldur en dollurum. Meirihluti viðskipta með vörur sem skipta almenning máli er þannig í evrum. Auk alls þessa er evran í eðli sínu samvinnuverkefni margra þjóða, sem dollarinn er ekki, og það vill svo til að við deilum innri markaði með þessum sömu þjóðum.

Það er svo ekkert annað en hlægilegt þegar fullyrt er að með inngöngu Íslands í Evrópusambandið og upptöku evru muni viðskiptafrelsi okkar hverfa eins og dögg fyrir sólu. Þessi vitleysa er auðvitað bara tilraun til að slá ryki í augu fólks enda heldur enginn því fram í fullri alvöru að lönd á borð við Svíþjóð, Danmörku, Spán eða Þýskaland búi við skert viðskiptafrelsi vegna veru þeirra í ESB. Sér í lagi þar sem þessar þjóðir eru aðilar að töluvert fleiri fríverslunarsamningum á heimsvísu en Íslendingar.

Allt bendir til þess að með inngöngu Íslands í Evrópusambandið og upptöku evru muni lífskjör hér á landi batna til muna. Vextir myndu lækka, vöruverð lækka, samheppnishæfni íslenskra fyrirtækja myndi aukast og fyrirsjáanleiki í bókhaldi bæði heimila og fyrirtækja myndi verða mun meiri en hann er í dag. Efnahagslegum stöðugleika yrði náð. Það er því ljóst að það er til mikils að vinna. Þau sem enn japla á gömlu tuggunum eru að gæta einhverra annarra hagsmuna.

Greinin birtist fyrst á Vísi 23. febrúar 2022


[1] Sjá samanburð á gengi: https://www.euro-area-statistics.org/bank-interest-rates-loans?cr=aut&lg=en&page=0&charts=M..B.A2C.P.R.A.2250.EUR.N+M..B.A2B.F.R.A.2250.EUR.N+M..B.A2B.I.R.A.2250.EUR.N&template=1)

[2] Sjá samanburð á hagvexti: https://ec.europa.eu/eurostat/databrowser/view/tec00115/default/table?lang=en&fbclid=IwAR1t0EfV6aJqyB5_8qry4FyGoizYi0WN7w__Hg70IkSa3xiCb0EnxoxgDuk)