Við­sjár og veik­leiki Ís­lands

Þorsteinn Pálsson

Hugsan­leg aðild Úkraínu að At­lants­hafs­banda­laginu er á­tylla fyrir inn­rás Pútíns. Raun­veru­leg á­stæða er ótti hans við á­hrif lýð­ræðis­þróunar í grann­landi.

Leið­togar At­lants­hafs­banda­lagsins og Evrópu­sam­bandsins hafa rétti­lega for­dæmt inn­rásina.

Við­skipta­þvinganir

Frá upp­hafi hefur legið fyrir að lýð­ræðis­þjóðirnar myndu ekki beita her­valdi til að verja full­veldi Úkraínu. Skuld­bindingar At­lants­hafs­banda­lagsins ná ekki til þess.

Veru­leikinn er eigi að síður sá að Úkraínu verður ekki bjargað nema með her­valdi. Í stöðunni eru við­skipta­þvinganir þó eini mögu­legi mót­leikur lýð­ræðis­ríkjanna. Þær stöðva ekki Pútín en geta samt sem áður orðið honum þungar í skauti heima fyrir.

Aflið til að beita við­skipta­þvingunum skortir ekki. En hikið hefur verið of mikið. Þannig vildu vestur­veldin ekki segja fyrir fram til hvaða þvingana yrði gripið. Það hefði verið sterkara.

Í heild hefðu við­brögðin mátt vera öflugri. En senni­lega hefur það komið Pútín mest á ó­vart að meiri þungi var í fyrsta mót­leik Þjóð­verja en Banda­ríkjanna.

Þrátt fyrir þessa var­færni hafa þvinganirnar mikla þýðingu og reyndar allur stuðningur, fjár­hags­legur og hernaðar­legur. Ís­land hefur skyldum að gegna í því sam­hengi.

Þátt­taka Ís­lands

Utan­ríkis­ráð­herra hefur í­trekað lýst því yfir að Ís­land muni fylgja banda­lags­þjóðunum í við­skipta­þvingunum gagn­vart Rúss­landi.

Það er mikil­vægt til að sýna sam­stöðu með full­valda Evrópu­þjóð. En hitt skiptir líka máli fyrir al­þjóð­lega stöðu okkar að skerast ekki úr leik.

Þegar Rússar inn­limuðu Krím­skaga tók þá­verandi utan­ríkis­ráð­herra einnig ein­dregna af­stöðu. En Rússar svöruðu með inn­flutnings­banni, sem Ís­land hefur vissu­lega fundið fyrir.

Á þeim tíma var bak­land utan­ríkis­ráð­herra veikara því að for­menn þá­verandi stjórnar­flokka, Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sóknar, lýstu báðir efa­semdum um við­skipta­þvinganir vegna gagn­ráð­stafana Rússa. Og þá­verandi for­seti Ís­lands vann bein­línis gegn stefnu utan­ríkis­ráð­herra.

Sem betur fer hefur engin tvö­feldni af þessu tagi komið fram nú.

Breytt heims­mynd

Evrópa er á allt öðrum stað en í kalda stríðinu. Heims­myndin hefur breyst.

Sam­band Rússa og Kín­verja er orðið þéttara. Áður veikti spennan þar á milli á­hrifa­mátt Rúss­lands. Um leið hjálpaði hún Banda­ríkjunum og Evrópu að við­halda valda­jafn­væginu.

Við þessa breytingu bætist að nú ríkir veru­leg við­skipta­leg og hernaðar­leg spenna milli Banda­ríkjanna og Kína. Áður þurftu Banda­ríkin ekki að hafa á­hyggjur af Kína. Nú er Kína á hrað­ferð fram úr Banda­ríkjunum.

Allt hefur þetta á­hrif á stöðu minni ríkja og Evrópu­landa í heild. Þau verða því að skoða hags­muni sína í nýju ljósi. Það á líka við um Ís­land. Við höfum ekki tekið nein ný skref í fjöl­þjóða­sam­vinnu í þrjá ára­tugi.

Á dögunum kynnti danska ríkis­stjórnin nýjar á­herslur í utan­ríkis- og varnar­málum. Þetta var við­bragð við breyttri heims­mynd og nýjum ógnum. Mest á­hersla verður lögð á að auka og dýpka sam­starfið innan Evrópu­sam­bandsins, At­lants­hafs­banda­lagsins og við Banda­ríkin.

Ný­lega óskaði lands­stjórn Fær­eyja einnig eftir auknu sam­starfi við Evrópu­sam­bandið.

Staða smá­ríkja

Í megin­at­riðum hefur utan­ríkis­stefna Ís­lands byggt á sömu stoðum og utan­ríkis­stefna Dan­merkur. Munurinn liggur ein­göngu í fullri aðild Dana að Evrópu­sam­bandinu á meðan aðild okkar tak­markast enn við innri markað þess og Schen­gen.

Við þurfum rétt eins og Danir og aðrar minni þjóðir að styrkja stöðu okkar í fjöl­þjóða­sam­fé­laginu í ljósi nýrra að­stæðna og ógna. Hagur Ís­lands er að efla sam­starf lýð­ræðis­ríkjanna í Evrópu.

Eðli­legast er að stíga ný skref á þeim grunni, sem við höfum byggt á og sækja þangað aukið efna­hags­legt og pólitískt skjól og styrk.

Hættu­legur veik­leiki

Innri pólitískur veik­leiki hamlar því aftur á móti að Ís­land geti brugðist við nýrri og breyttri heims­mynd og sótt fram til að styrkja stöðu Ís­lands eins og Danir gera innan Evrópu og yfir At­lants­hafið.

Á­stæðurnar eru tvær:

Sú fyrri er að það er of við­kvæmt að nefna aðild Ís­lands að At­lants­hafs­banda­laginu vegna gamallar bá­bilju í for­ystu­flokki ríkis­stjórnarinnar.

Sú seinni lýtur að hinni megin­stoð utan­ríkis­stefnunnar, aðildinni að innri markaði Evrópu­sam­bandsins. Hana má heldur ekki nefna vegna nýrrar innan­búðar bá­bilju í tveimur stærri flokkum stjórnar­sam­starfsins.

Á við­sjár­verðum tímum er þetta hættu­legur veik­leiki.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. febrúar 2022