Barnið vex – en brókin ekki

Það eru engin ný sannindi við fyrirsögn þessarar greinar en einföld lögmál gleymast gjarnan ef ekki er byggt á góðri stefnu, ef áætlun er óljós eða ef ekki er framkvæmt fyrr en vandinn er þegar orðinn að veruleika og því þarf að bregðast við í einhverjum flýti. Þannig virðist háttað um aðstöðu leikskólamála hjá okkur í Garðabæ.

Urriðaholtið hefur sýnt okkur að þessi skortur á stefnu, undirbúningi og framtíðarsýn er ekki vænleg til þess að fara vel með fjármuni skattgreiðenda eða tíma fjölskyldna. Hvoru tveggja verður að fara vel með, því hvorugt getum við endurunnið eða margnýtt. Það er annað lögmál. Foreldrar hafa þurft að keyra bæinn okkar á enda til þess að sækja leikskóla og dæmin eru um að börn í Urriðaholti hafi lengi verið keyrð út á Álftanes. Í þessu yngsta hverfi bæjarins þurfti því að bregðast við í flýti til að byggja upp leikskóla, sem tekur til starf eftir rúmt ár. Í millitíðinni er á dagskrá að koma upp tímabundnum leikskóla.

Urriðaholtið er nýjasta hverfið okkar, en það er ekki svo ungt. Fyrstu sérbýlin voru byggð 2008 og fjölbýlin tekin í notkun 2014. Allan þennan tíma hefði verið hægt að undirbúa hönnun lóðar og byggingar þar sem frá upphafi var gert ráð fyrir leikskóla. Hönnunarvinnan fór hins vegar ekki í gang fyrr en málið var komið í óefni.

Á að endurtaka mistökin í Hnoðraholti?

Í næsta holti, Hnoðraholti, mun næsta hverfið okkar byggjast upp. Þar er byrjað að feta sama veginn. Fyrsti áfangi hverfisins hefur verið teiknaður upp í deiliskipulagi en leikskólalóðin, sem liggur þó samsíða fyrirhuguðu svæði, er ekki tekið til deiluskipulags eða undirbúnings. Það stefnir í önnur vandræði vegna fyrirhyggjuleysis og skorti á undirbúningi. Að hvorki lóðin né teikningar að húsnæði verði tilbúin þegar að hverfið fyllist af börnum. Og þá á líka eftir að ráða starfsfólk til að vinna á leikskólunum. Til þess þarf að bjóða upp á aðlaðandi vinnuumhverfi.

Viðreisn vill fara betur með fjármunina og undirbúa ný hverfi bæjarins betur. Við viljum ekki grípa til örþrifaráða þegar illa horfir, heldur læra af reynslunni. Við viljum fara betur með tíma fjölskyldna til þess að ekki þurfi að keyra hverfanna á milli til að koma börnum á leikskóla. Við viljum skapa vinnuumhverfi sem laðar til sín leikskólakennara og annað starfsfólk á leikskóla, því aðstaðan er góð. Við viljum byggja undir foreldrasamfélagið í mátunarklefanum að morgni og síðdegis, strax þegar nýtt hverfi byggist upp.

Við teljum að skattgreiðendur og börnin okkar eigi það skilið að við sem bjóðum fram krafta okkar fyrir samfélagið gerum betur.

Greinin birtist fyrst í Garðabæjarpóstinum 30. mars 2022