Hamfaraspár vegna hinsegin fólks

Í minn­ing­unni virðast fleiri manns­aldr­ar síðan sam­kyn­hneigðum var meinað að ganga í hjóna­band hér á landi. Í raun­heim­um eru þó aðeins 15 ár liðin frá því ný hjú­skap­ar­lög tóku gildi sem heim­iluðu hjóna­band tveggja ein­stak­linga af sama kyni. Mik­il­vægi þeirr­ar rétt­ar­bót­ar fyr­ir fjölda fólks er öll­um kunn­ugt. Minna fer fyr­ir upp­lif­un fólks á þeim ham­fara­spám sem and­stæðing­ar lögðu áherslu á í aðdrag­anda breyt­ing­anna en sam­kvæmt þeim yrði höggvið að rót­um sam­fé­lags­ins þar sem kon­um og körl­um yrði hrein­lega út­hýst úr hjóna­band­inu. Gott ef ekki stigu fram kon­ur sem óttuðust að þær yrðu ekki leng­ur kon­ur, ef sam­kyn­hneigðir fengju að verða hjón í laga­leg­um skiln­ingi.

Ham­far­irn­ar urðu auðvitað ekki. Sam­fé­lagið er fullt af gagn­kynja hjón­um og líka hinseg­in hjón­um. Sam­fé­lagið er líka áfram fullt af körl­um og kon­um, gagn­kyn­hneigðu fólki sem og sam­kyn­hneigðu og alls kon­ar öðru hinseg­in fólki. Frelsi og mann­rétt­indi fyr­ir alla er svo grunn­ur­inn sem við byggj­um vel­ferðarsam­fé­lagið okk­ar á.

Nú hef­ur hins veg­ar verið blásið í aðra ham­fara­spá vegna rétt­inda hinseg­in fólks. Það eru ekki hjóna­bönd­in leng­ur sem ógna sam­fé­lag­inu held­ur trans fólk. „Rík­is­valdið á ekki að styðja rang­hug­mynd­ir fólks. Hvað þá að lög­festa þær á kostnað al­menn­ings,“ var ritað í grein hér í Morg­un­blaðinu fyr­ir helgi. Grein­in fjallaði um mann­rétt­indi, þótt aug­ljóst hafi verið að grein­ar­höf­und­ur taldi að trans fólk ætti að vera und­anþegið slík­um rétt­ind­um.

Það kveður við óþægi­lega kunn­ug­leg­an tón í þeim harða áróðri, sem dyn­ur á trans fólki þessa dag­ana. Þar kvikna aft­ur til lífs­ins alls kon­ar full­yrðing­ar sem við héld­um að við hefðum kveðið end­an­lega í kút­inn með rétt­inda­bar­áttu sam­kyn­hneigðra á árum áður. Full­yrðing­ar þar sem for­dóm­ar drupu af hverju orði, þar sem sam­kyn­hneigðir voru álitn­ir til marks um hnign­un mann­kyns, eyðileggj­andi menn­ingu, trú og allt sem hægt var að telja upp heil­ag­ast, þar með talið þetta með hjóna­bandið sem átti að enda á ösku­haug­um sög­unn­ar ef sam­kyn­hneigðir fengju að gift­ast. Heim­ur­inn var hrein­lega að far­ast, að mati heimsenda­spá­fólks­ins.

Staðreynd­in er þó sú að heim­in­um hef­ur aldrei staðið minnsta ógn af frelsi. Þau sem nú sækja harðast fram gegn trans fólki kæra sig hins veg­ar ekk­ert um lær­dóm sög­unn­ar. Orðræðan, þessi ein­beitti vilji til að hefta frelsi ann­ars fólks, er þekkt í bar­átt­unni gegn rétt­ind­um sam­kyn­hneigðra og ann­ars hinseg­in fólks og þar áður gegn rétt­ind­um kvenna. Og sag­an er auðvitað miklu lengri.

Það er heimsku­legt, hættu­legt og um­fram allt aumt að ótt­ast ekk­ert meira en frelsi og mann­rétt­indi annarra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. mars 2022.