Hjartað þarf að slá með

Þorsteinn Pálsson

Blóðbaðið í Úkraínu er sterk áminning. Það sýnir hversu fljótt veður skipast í lofti.

Þessa daga skilja engir betur en Úkraínumenn að afl lýðræðisþjóða í Evrópu til að tryggja hagsmuni sína felst í aðild að Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu.

Einhugur í stað efasemda

Allar lýðræðisþjóðir álfunnar deila þessum skilningi með úkraínsku þjóðinni. En örlög hennar ráðast nú af því að hún stendur utan dyra.

Fyrir rúmu ári voru uppi raunverulegar efasemdir um hvort Atlantshafsbandalagið gæti staðið við fimmtu grein sáttmálans um að árás á eitt ríki jafngilti árás á þau öll. Þáverandi forseti Bandaríkjanna hafði berum orðum gefið til kynna að það væri ekki gefið mál. Nú er bandalagið meira einhuga en nokkru sinni fyrr.

Eins er með Evrópusambandið. Brexit og uppgangur popúlista í Evrópu leiddi í fyrstu til þess að margir efuðust um að það gæti áfram verið kjölfesta stöðugleika, hagsældar og friðar, ef verulega reyndi á. Það gerðist hins vegar ekki.

Eitt í útlöndum en annað heima

Nokkrum dögum eftir innrás Rússa fékk forsætisráðherra fyrirspurn á Alþingi um hvort full samstaða væri í ríkisstjórninni um allar aðgerðir Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins.

Forsætisráðherra sagði að þrátt fyrir stefnu VG talaði hún á erlendum vettvangi fyrir þjóðaröryggisstefnunni, sem Alþingi samþykkti en flokkur hennar gat ekki fellt sig við. Hvað þýðir þetta í raun og veru?

Það er vissulega samstaða í ríkisstjórninni um stuðning við allar aðgerðir bandalagsþjóðanna. En forsætisráðherra talar bara á erlendum vettvangi fyrir utanríkisstefnunni. Hún ætlar öðrum að færa rök fyrir henni hér heima.

Styrkurinn felst í sannfæringunni

En þessi orð segja annað og meira. Þegar leiðtogi þjóðarinnar talar á erlendum vettvangi fyrir utanríkisstefnunni er það vegna lagaskyldu en ekki sannfæringar.

Forsætisráðherra og flokkur hennar telja hagsmunum Íslands best borgið utan Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins.

En nú eins og jafnan áður felst styrkurinn í málflutningi fyrir íslenskri utanríkisstefnu í sannfæringu fyrir málstaðnum.

Veikleikinn felst í tilvísun í samþykktir, sem aðrir hafa gert.

Samstarfsflokkar VG í ríkisstjórn hafa ákveðið að málflutningur á þeim grunni þjóni best íslenskum hagsmunum, jafnvel á örlagaríkum tímum.

Hjartað sló ekki með

Í minni mitt er greipt gamalt sjónvarpsviðtal, sem Bogi Ágústsson átti við Uffe Ellemann-Jensen fyrrverandi utanríkisráðherra Dana.

Þar sagði þessi reyndi stjórnmálaleiðtogi að engin þjóð ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu nema gera það með hjartanu. Með öðrum orðum: það þarf sannfæringu fyrir því að hagsmunum þjóðarinnar sé best borgið þar og hjartað þarf að slá með þeim gildum, sem samstarfið snýst um.

Þegar Ísland sótti um aðild 2009 samþykkti VG umsóknina í ríkisstjórn og á Alþingi en lýsti því jafnframt yfir að það myndi vinna gegn henni í samræmi við stefnu flokksins. Hjartað sló sem sagt ekki með. Því fór sem fór.

Langvarandi áhrif

Heimsmyndin hefur mikið breyst frá því í kalda stríðinu. Og styrjöldin í Úkraínu hefur svo kollvarpað hlutunum. Þessir grimmilegu atburðir munu hafa meiri áhrif á valdahlutföllin milli lýðræðis og einræðis í heiminum en við sáum áður fyrir.

Mestu áhrifin fyrir Ísland koma fram í því að í fyrirsjáanlegri framtíð munum við í ríkari mæli en áður tryggja hagsmuni okkar best með aukinni efnahagslegri samvinnu og viðskiptum við bandalagsríki í Evrópu. Þar verður öruggast skjól fyrir frjáls viðskipti.

Óöryggið er utan bandalaga Evrópu. Pólitísk staða Íslands styrkist hins vegar með setu við borðið í Evrópusambandinu eins og í Atlantshafsbandalaginu.

Nýtt stöðumat

Lokaskrefið frá aðild að innri markaði Evrópusambandsins til fullrar aðildar gerist ekki í einu vetfangi.

Það kallar á umræðu milli flokka og innan flokka. En nýtt stöðumat er óhjákvæmilegt. Orð eru til alls fyrst. Fyrsta skrefið er að opna umræðu, sem hefur verið lokuð.

Við höfum séð vel að undanförnu að samvinna í varnarmálum og efnahags- og viðskiptamálum verður ekki í sundur greind. Og við höfum fundið að slík samvinna verður að byggjast á sameiginlegum gildum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. mars 2022