Ísland styðji sérstaklega við rannsókn á stríðsglæpum Rússlands

Inn­rás Rúss­lands í Úkraínu hef­ur kallað fram sterka sam­stöðu í Evr­ópu allri og víða um heim. Sú afstaða hef­ur verið sýnd í verki með áður óþekkt­um efna­hagsaðgerðum og öðrum þving­un­araðgerðum. Stríðið hef­ur opnað augu Evr­ópu á ný fyr­ir hörm­ung­um stríðsrekst­urs og stríðsglæpa. Jens Stolten­berg, fram­kvæmda­stjóri NATO, hef­ur sagt sann­an­ir fyr­ir að rúss­neski her­inn hafi beitt klasa­sprengj­um. Notk­un slíkra vopna er bönnuð sam­kvæmt Genfar­samn­ing­un­um. Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar ESB, kallaði eft­ir því að stríðsglæp­ir Rússa yrðu rann­sakaðir. Síðast en ekki síst hef­ur Karim A.A. Khan, sak­sókn­ari hjá Alþjóðlega saka­mála­dóm­stóln­um, sagt ástæðu til að ætla að stríðsglæp­ir hafi verið framd­ir af hálfu rúss­neska hers­ins í Úkraínu. Hinn 28. fe­brú­ar lýsti sak­sókn­ar­inn því svo yfir að rann­sókn vegna stöðunn­ar í Úkraínu væri haf­in. Á fyrstu dög­um mars­mánaðar höfðu 39 aðild­ar­ríki vísað aðstæðum í Úkraínu til sak­sókn­ara og óskað eft­ir að sak­sókn­ari hæfi rann­sókn og gagna­öfl­un þá þegar. Ísland var þar á meðal. Þessi samstaða er án for­dæma af hálfu aðild­ar­ríkja dóm­stóls­ins.

Sér­stakt fjár­fram­lag Íslands

Lit­há­en hef­ur lýst yfir að ríkið ætli að leggja til sér­stakt fjár­fram­lag í þágu þess­ar­ar rann­sókn­ar sem nem­ur um 15 millj­ón­um króna. Sam­hliða hef­ur Lit­há­en biðlað til annarra ríkja um að gera slíkt hið sama. Ráðamenn í Bretlandi hafa gefið vil­yrði fyr­ir sér­stök­um fjár­fram­lög­um og öðrum stuðningi við rann­sókn dóm­stóls­ins. Ljóst er að frjáls fram­lög ríkja í þágu þessa verk­efn­is eru liður í stuðningi við Úkraínu sem og til marks um þá af­stöðu að þeir sem fremja stríðsglæpi sæti ábyrgð. Sak­sókn­ari við dóm­stól­inn hef­ur jafn­framt biðlað til aðild­ar­ríkja að styðja rann­sókn­ina með fjár­fram­lög­um. Sak­sókn­ari hef­ur lagt áherslu á þau aug­ljósu sann­indi og regl­ur að sé árás­um vís­vit­andi beint að óbreytt­um borg­ur­um þá sé það glæp­ur.

Ég hef lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu um að Alþingi feli ut­an­rík­is­ráðherra að veita 10 millj­ón króna sér­stakt viðbótar­fram­lag til Alþjóðlega saka­mála­dóm­stóls­ins í Haag vegna inn­rás­ar Rúss­lands í Úkraínu. Þannig geta ís­lensk stjórn­völd sýnt stuðning við þau gildi sem dóm­stóll­inn stend­ur fyr­ir og ein­arða af­stöðu sína gegn stríðsglæp­um. All­ur þing­flokk­ur Viðreisn­ar er að baki til­lög­unni. Í 116. gr. Róm­arsamþykkt­ar­inn­ar seg­ir að dóm­stóll­inn geti tekið við og notað sem viðbót­ar­sjóði frjáls fram­lög frá rík­is­stjórn­um, alþjóðastofn­un­um, ein­stak­ling­um, fyr­ir­tækj­um og öðrum aðilum. Dóm­stóll­inn er fjár­magnaður bæði af aðild­ar­ríkj­um stofn­samn­ings­ins og frjáls­um fram­lög­um frá ríkj­um, alþjóðastofn­un­um, ein­stak­ling­um, fyr­ir­tækj­um og öðrum aðilum. Þetta viðbótar­fram­lag Ísland myndi rúm­ast inn­an þess ramma sem ætlaður er ráðuneyt­inu í fjár­lög­um.

Þeir sem fremja stríðsglæpi sæti ábyrgð

Alþjóðlegi saka­mála­dóm­stóll­inn (e. In­ternati­onal Crim­inal Court – ICC) er fyrsti var­an­legi alþjóðlegi saka­mála­dóm­stóll­inn sem stofnaður var til þess að taka á al­var­leg­um brot­um sem varða alþjóðasam­fé­lagið. Dóm­stóll­inn rek­ur upp­haf sitt til 7. júlí 1998 þegar sam­komu­lag 120 ríkja náðist um Róm­arsamþykkt­ina svo­kölluðu, sem er stofns­kjal Alþjóðlega saka­mála­dóm­stóls­ins. Róm­arsamþykkt­in tók gildi 1. júlí 2002 þegar 60 ríki höfðu full­gilt hana. Ísland varð tí­unda ríkið til þess að full­gilda samþykkt­ina.

Eitt meg­in­mark­mið dóm­stóls­ins er að þeir aðilar sem ger­ast sek­ir um al­var­leg­ustu glæp­ina gegn al­menn­um borg­ur­um sæti ábyrgð. Sam­kvæmt ákvæðum Róm­arsamþykkt­ar­inn­ar falla und­ir lög­sögu dóm­stóls­ins stríðsglæp­ir, hóp­morð, glæp­ir gegn mannúð og glæp­ir gegn friði.

Mik­il­væg­ur og tákn­rænn stuðning­ur

Núna er ríkt til­efni fyr­ir Ísland til að stíga mik­il­vægt og um leið tákn­rænt skref með sér­stöku fjár­fram­lagi til að styðja rann­sókn á ætluðum brot­um rúss­neska hers­ins í Úkraínu. Með því get­ur fá­menn þjóð sýnt sterka af­stöðu með grund­vall­ar­rétt­ind­um hins al­menna borg­ara á stríðstím­um. Fram­lagið fel­ur í sér stuðning við þá hug­mynda­fræði að þeir sem fremja stríðsglæpi sæti ábyrgð af hálfu alþjóðasam­fé­lags­ins.

Óskandi er að fleiri ríki sýni þenn­an stuðning núna. Það er mik­il­vægt á tím­um sem þess­um að afstaða ríkja sé skýr og birt­ist alls staðar þar sem ætla má að boðskap­ur­inn heyr­ist og skilj­ist. Efna­hagsaðgerðir og aðrar þving­un­araðgerðir hafa sýnt áður óþekkta sam­stöðu. Ísland get­ur að sama skapi svarað ákalli Karims A.A. Khans, sak­sókn­ara hjá Alþjóðlega saka­mála­dóm­stóln­um, með viðbótar­fram­lagi til dóm­stóls­ins. Dóm­stóll­inn hef­ur þýðing­ar­miklu hlut­verki að gegna núna og til framtíðar. Rann­sókn á stríðsglæp­um rúss­neska hers­ins í Úkraínu gef­ur til kynna að alþjóðasam­fé­lagið ætli sér ekki aðeins að for­dæma stríðsglæpi held­ur að slík brot hafi af­leiðing­ar af hálfu alþjóðasam­fé­lags­ins. Fá­menn þjóð eins og Ísland get­ur með fram­lagi lagt lóð á vog­ar­skál­arn­ar. Ég hef óskað eft­ir meðflutn­ingi þing­manna úr öll­um flokk­um og það er von mín að þing­heim­ur all­ur geti sam­ein­ast að baki þess­ari til­lögu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. mars 2022